Búnaðargjald

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 11:03:19 (4992)

1997-04-04 11:03:19# 121. lþ. 99.9 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[11:03]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hugsa að þessar álögur, 2,65% á heildartekjur búanna, séu sennilega um 6% eða 10% af tekjum bænda. Þetta eru umtalsverðar álögur sem eru lagðar á bændur og af því að þær leggjast líka á kostnað bænda. Ég vildi því gjarnan að hv. landbn. skoði hvort ekki megi lækka þessar álögur á bændur í skrefum, segjum að helminga þær á tíu árum, svo maður hugsi nú dálítið til framtíðar, þannig að bændur geti farið að ráðstafa sínum peningum sjálfir. Þarna er verið að taka hluta af tekjum bænda til þess að ráðstafa fyrir þá í alls konar verkefni. Ef bændur vilja þessi verkefni þá geta þeir bara ráðstafað því sjálfir af frjálsum og fúsum vilja, þeir sem það vilja.

Mér finnst rangt að leggja svona álögur og svona helsi á heila atvinnugrein og halda henni þannig niðri. Ég vildi því gjarnan að hv. landbn. skoði hvort ekki megi lækka þetta gjald, þessar álögur á landbúnaðinn --- þó er jákvætt að sameina þær a.m.k. --- að tekin verði áframhaldandi skref og litið fimm, tíu ár eða jafnvel fimmtán ár fram í tímann, þetta verði lækkað stig af stigi þannig að landbúnaðurinn geti ráðstafað sínum tekjum sjálfur.