Endurskoðendur

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 12:59:52 (5021)

1997-04-04 12:59:52# 121. lþ. 99.16 fundur 214. mál: #A endurskoðendur# (heildarlög) frv., Frsm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:59]

Frsm. efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. hv. efh.- og viðskn. við frv. til laga um endurskoðendur. Þingmálið er stjfrv. og er heildarlöggjöf um endurskoðendur.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Braga Gunnarsson og Ragnheiði Snorradóttur frá fjármálaráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Félagi löggiltra endurskoðenda og Reykjavíkurborg.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Ég ætla að drepa á þær helstu:

Lögð er til umorðun á 1. gr. um skilgreiningu á endurskoðanda svo orðalagið verði liprara.

Lagðar eru til nokkrar tæknilegar breytingar á 2. gr. til frekari skýringar og einföldunar. Eitt meginatriðið í frv. er m.a. að endurskoðendur verða að afla sér starfsábyrgðartryggingar og sett eru strangari ákvæði um eignarhald og endurskoðun á fyrirtækjum þannig að eignarhluti annarra en endurskoðenda verði að lúta tilteknu hámarki.

Lagt er til að í 4. gr. verði settar skýrari reglur um endurmenntun. Það eru gerðar kröfur um að endurskoðendur þurfi að halda menntun sinni við með endurmenntun og sett upp það ferli sem vel þykir hæfa í því efni.

Einnig er lögð til sú breyting að fallið verði frá því sem var í frv. að þeir sem hafa verið löggiltir endurskoðendur en hafa endurskoðun ekki að aðalstarfi, verði skyldaðir til að leggja inn réttindi sín. Fallið er frá því. Þeir geta gert það ef þeir hins vegar kjósa svo en það er talið óeðlilegt að setja það sem skilyrði.

Sömuleiðis er kveðið á um að endurskoðanda sé óheimilt að gefa til kynna að hann sé endurskoðandi hjá fyrirtæki eða stofnun ef hann starfar hjá fyrirtæki en er ekki endurskoðandi þess. Það er óeðlilegt að hann gefi það til kynna í opinberri umfjöllun.

Varðandi tryggingu þá er talað um að í stað orðanna ,,einfalds gáleysis`` komi ,,gáleysi``. Þetta er til samræmis við ákvæði í öðrum lögum. En undir orðið gáleysi fellur bæði einfalt og stórfellt gáleysi. Hér er gætt samræmis við aðra löggjöf.

Sömuleiðis er í bráðabirgðaákvæði í brtt. nefndarinnar kveðið á um að ákvæði greinar um endurnýjun löggildingar og viðhald menntunar gildi einnig um þá endurskoðendur sem öðlast hafa löggildingu fyrir gildistöku laga þessara.

Frv. sjálft og brtt. sem nefndin gerir taka mið af löggjöf og umræðu sem hefur átt sér stað erlendis um endurskoðun og þann lagaramma sem menn telja skynsamlegt að viðhafa um þessa stétt.

Nefndin stendur öll að þessu áliti.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson var fjarverandi við lokaafgreiðslu málsins.