Efling iðnaðar sem nýtir ál við framleiðslu sína

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 15:09:43 (5042)

1997-04-04 15:09:43# 121. lþ. 99.21 fundur 447. mál: #A efling iðnaðar sem nýtir ál við framleiðslu sína# þál., Flm. ÁRÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[15:09]

Flm. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. sem frammi hefur legið á þskj. 759 um átaksverkefni til eflingar iðnaði sem nýti ál við framleiðslu sína.

Ásamt mér eru flm. að málinu þeir hv. þm. Guðjón Guðmundsson, Sigríður A. Þórðardóttir og Pétur H. Blöndal.

Tillgr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að beita sér fyrir átaksverkefni til að efla og auka iðnað er nýtir ál sem hráefni eða aðvinnsluefni.``

Herra forseti. Þegar við lítum til baka yfir farinn veg síðustu ár og áratugi og horfum til þess sem er að gerast hér á landi í væntanlegri stóriðju þá fer ekki hjá því að það rifjast upp að fyrir nærfellt 30 árum þegar álverið við Straumsvík hóf starfsemi sína var það almennt rætt og oft vikið að því af stjórnmálamönnum á þeim tíma að með tilkomu þess mundi hér rísa iðnaður sem ynni endanlega framleiðsluvöru úr áli. Þetta voru bjartar vonir en því miður hefur lítið orðið úr þeim enn þá. Satt best að segja er það svo að iðnaður þar sem ál er nýtt sem hráefni eða til vinnslu á öðru efni er enn þá mjög takmarkaður hér á landi þótt við framleiðum nú ál í umtalsverðum mæli.

Flutningsmenn eru hins vegar þeirrar skoðunar, herra forseti, að ef takast mundi að koma á fót slíkum iðnaði hér á landi yrði það umtalsverð og vænleg bót fyrir þjóðarbúskapinn. Það yrði verulega verðmætaskapandi og byði íslenskum ungmennum, íslensku vinnuafli, fjölbreyttari tækifæri en nú bjóðast til atvinnu og starfa sem yrðu væntanlega vel launuð vegna þess að þau mundu byggja á mikilli þekkingu starfsmanna og þekkingu innan viðkomandi fyrirtækja.

Af og til á þessu tímabili hefur verið að því vikið með alls konar athugunum hvað gera þurfi til þess að þessi starfsemi geti hafist hér á landi. Þá hefur komið fram m.a. að sums staðar þar sem unnið er úr hráefninu áli er starfsemin svo stór í sniðum að erfitt yrði að koma henni við á Íslandi. Slík starfsemi, þ.e. völsun, mundi sennilega þurfa að vera miklu nær markaðslöndunum og ekki víst að við hefðum fjármagn, mannafla eða tækniburði til að nýta þá möguleika.

Hitt hefur ekki komið virkilega vel fram enn þá en er væntanlega að birtast, herra forseti, að við aðra starfsemi þar sem ál er nýtt, er það aðallega notað með blöndun við aðra málma. Hugsanlega getur slík starfsemi betur en hin sem ég nefndi fyrr starfað í smærri einingum og hún er þekkt erlendis, m.a. í Evrópu og í Bandaríkjunum, í fyrirtækjum sem við köllum meðalstór og jafnvel lítil. Að vísu er það svo að þessi fyrirtæki eru öll stærri en mælikvarðarnir íslensku yfir lítil eða meðalstór fyrirtæki.

Hins vegar er það fleira sem virðist þurfa að koma til. Nú er það svo að sá málmur sem mest er notaður sem blöndunarefni með áli til að framleiða endanlegar framleiðsluvörur, jafnvel vörur sem eru notaðar á neytendamarkaði og eru hluti af vélum eða öðrum búnaði sem seldur er á þeim mörkuðum, er magnesíum. Hugsanlega er ný verksmiðja að rísa á Íslandi á næstu árum, jafnvel innan áratugar eða svo. Þar á ég við magnesíumverksmiðju sem er til athugunar á Suðurnesjum og hefur verið þar til skoðunar síðustu missiri. Menn vænta þess að á næstu vikum liggi fyrir niðurstaða úr þeim athugunum. Satt best að segja hefur það víða komið fram hjá þeim mönnum sem annast þær athuganir af hálfu íslensku aðilanna, Hitaveitu Suðurnesja og nokkrum öðrum íslenskum fyrirtækjum og stofnunum að eftir því sem fram hefur undið þeim athugunum hafa líkur smám saman vaxið á því að úr verði.

Herra forseti. Við flm. teljum að með þessum möguleika verði skotið fleiri stoðum en áður undir það að við Íslendingar getum komið á fót iðnaði sem framleiðir ekki einungis hráefni með bræðslu þessara málma, heldur starfsemi þar sem framleiddar væru fullunnar vörur.

Þá kemur það fram sem ég fyrr mælti, herra forseti, að íslenskum ungmennum, íslensku vinnuafli, bjóðast enn verðmætari störf og fjölbreyttari en áður í iðnaði. Við teljum mikils um vert að auka fjölbreytni í atvinnustarfsemi á Íslandi og að Íslendingar geti gerst þátttakendur í iðnaði sem hér hefur hingað til verið nánast óþekktur. Vel að merkja, það er auðvelt að geta þess í töluðu máli að fleiri en einn einstaklingur hefur nefnt við mig að það sé ekki ólíklegt að ef tilkoma magnesíumverksmiðju og aukning álframleiðslu á Íslandi verði til þess að hér rísi einhver framleiðsla með blöndun þessara málma, þá sé hugsanlega verið að tala um stærðargráðu sem megi bera saman við málmiðnað Svía, sem við vitum að er umtalsverður og einhver stærsta og verðmætasta atvinnugrein þeirra.

[15:15]

Við höfum oft velt því fyrir okkur og ég hygg að fyrri athuganir á möguleikum þess að hér rísi iðnaður þar sem unnið er úr áli hafi vísað til þess að hér skortir nokkuð á tækniþekkingu.

En hitt veit ég, herra forseti, að fram hefur komið við athuganir á hugsanlegri magnesíumverksmiðju að erlendum aðilum sem hafa í því verkefni kynnst tæknikunnáttu starfsmanna íslenskra fyrirtækja, þ.e. hér á landi, eru ekki undrandi á því að hér sé lítil tæknikunnátta heldur hversu mikil hún reynist vera. Þeir hafa bent á að íslensk fyrirtæki sem vinna orku úr jarðvarma hafi á undanförnum árum komið fram með nýjungar sem eigi sér enga hliðstæðu í veröldinni. Þar á ég við starfsmenn og tæknimenn Hitaveitu Suðurnesja. Líklega mætti segja, herra forseti, að raforkuframleiðsla í stórum mæli á Nesjavöllum væri óhugsandi nema vegna þeirra nýjunga sem Hitaveita Suðurnesja, starfsmenn og tæknimenn hennar, hafa komið fram með á undanförnum árum, ekki starfsmenn Hitaveitu Reykjavíkur eða Nesjavalla --- starfsmenn Hitaveitu Suðurnesja við Svartsengi. Það er kannski umhugsunarvert í þessu samhengi að á sama tímabili eru þeir sem vilja sjá umtalsverða raforkuframleiðslu á Nesjavöllum að spyrna við fótum gagnvart aukinni raforkuframleiðslu við Svartsengi. En látum það kyrrt liggja í samhengi við þetta mál.

Í þessu efni virðum við fyrir okkur tæknikunnáttu hér á landi, hráefnisframleiðslu og þann möguleika sem skýtur helst stoðum undir það sem hér er rætt, þ.e. vinnslu úr bráðnum málmi sem er fluttur bráðinn, fljótandi úr stóriðjuverunum til þeirra sem vilja framleiða úr málminum. Það mun vera verulegur kostur fyrir þann sem vill vinna endanlega vöru úr slíkum málmi. Það bendir til þess að á næsta áratug eða svo verði líklegra en nokkru sinni fyrr að hér geti slíkur iðnaður risið.

Ég hef áður nefnt það sem hefur komið fram um tæknikunnáttu okkar fólks. Við vitum að fjármagnsmarkaður hefur vaxið mjög að burðum, hefur orðið fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr og er þess vegna líklegur til að geta tekið þátt í því, ásamt fjármagnsfyrirtækjum í grannlöndum okkar, að rísa undir fjármögnun slíkra fyrirtækja. Við viljum sjá, herra forseti, með þessu eða öðru starfi sem víkur að slíkum viðfangsefnum að íslensku námsfólki bjóðist kostur á að kynnast því hvað þarf til, hvaða þekkingu þarf til, hvaða efni þarf til, hvaða aðstöðu þarf til, hvaða flutningatækni þarf til og á hvaða markaði slíkar vörur eru notaðar. Því öllum er alveg ljóst sem þetta hugleiða að meðan þeir sem alast hér upp vita ekki til hvers slíkar vörur eru notaðar dettur þeim varla í hug að fara að framleiða þær.

Með þeim ákvæðum sem taka gildi á næstu missirum í Bandaríkjunum verða gerðar vaxandi kröfur til þess að í bílaumferð komi léttari ökutæki sem eyði minni orku og verði síður mengandi. Kjarni þeirrar kröfu er að minnka mengun. Sjáanlegt er að það verður gert með því að framleiða fleiri hluti úr léttum málmum, þ.e. úr áli og magnesíum, sem notaðir eru til að smíða bíla. Athuganir á magnesíumverksmiðju hafa leitt í ljós að markaður fyrir þann málm mun á næstu missirum gjörbreytast úr því að vera fákeppnimarkaður í það að vera lifandi samkeppnismarkaður. Þess verður greinilega vart að bifreiðaframleiðendur beggja vegna Atlantshafsins og í Japan leita mjög víða fyrir sér til að komast í viðskipti um þennan málm á næstunni. Þeir sem vinna að þessum athugunum, þ.e. magnesíumverksmiðju á Íslandi, hafa mjög kynnt sér þessa möguleika og þeir virðast sannarlega vera fyrir hendi.

En fleira mun sennilega þurfa að koma til, herra forseti, og ég vil leyfa mér að nota tækifærið og nefna, vegna þess að ég hef þegar nefnt fleiri atriði en þau sem nefnd eru í grg. okkar með tillögunni, að fram hefur komið að aðflutningsgjöld af magnesíummálmi eru önnur og hærri en af áli. Þar er eflaust komið nýtt verkefni fyrir starfsmenn okkar í utanríkisþjónustunni að fá þessum kjörum breytt vegna þess sem fram undan er. Ekki aðeins fyrir okkur sem hugsanlega væntanlega framleiðendur heldur líka löndin sem vilja leggja á þessi aðflutningsgjöld sem í framtíðinni eru miklu meiri kaupendur að þeim málmi en hingað til.

Ég hygg, herra forseti, og væntanlega munu fleiri taka undir það, að verðugt verkefni verði fyrir Íslendinga að koma því til leiðar að mengun fari minnkandi. Það er kjarni þess að við viljum gjarnan sjá hér rísa framleiðslu áls og magnesíums og starfsemi sem framleiðir úr þeim endanlegar neyslu- eða notendavörur.

Það hefur ekki verið haft mjög á lofti í umræðum um mengun af stóriðjuveri á Grundartanga að líklegast verður --- af því sem komið hefur fram um þær stærðargráður --- miklu minni mengun þar sem hinar endanlegu vörur verða notaðar en aukning mengunar hér við framleiðsluna. Þar eru menn ekki að tala um neitt í líkingu við það sem við höfum áhyggjur af í Hvalfirði eða annars staðar sem slík framleiðsla yrði í framtíðinni. Þar yrði hlutur Íslands mjög góður ef okkur tekst að hafa vald á menguninni hér heima. --- En vel að merkja, nýjar vörur og ný ökutæki verða líka notuð á Íslandi.

Það sem ég tel mest um vert, herra forseti, og ég hygg að aðrir flm. taki undir með mér, er að fjölga atvinnutækifærum sem okkar æskufólki bjóðast og gefa þeim færi á að nýta kunnáttu sína og skjóta fleiri stoðum en verið hefur undir efnahagslíf Íslendinga --- þjóðarbúskapinn eins og við köllum það. Setja eggin okkar í fleiri körfur, minnka þá miklu áhættu, sem við höfum gjarnan lagt á sjávarútveginn einan og sér til að rísa sem nánast ein sterk undirstaða undir atvinnulíf okkar, og gera þær fleiri og sterkari.

Við höfum stundum rætt það, en ekki af mjög mikilli alvöru, að aðrar þjóðir telji sig hætt komnar þegar u.þ.b. fimmtungur af efnahagslífi þeirra hvílir á einni atvinnugrein --- á útflutningi afurða frá einungis einum atvinnuvegi. Það er miklu hærra hér. Að því leyti til höfum við tekið meiri efnahagslega áhættu og við viljum gjarnan stefna að minni áhættu af þessu tagi. Þess vegna segjum við --- setjum eggin okkar í fleiri körfur, byggjum fleiri sterkar, öflugar og þróttmiklar stoðir undir atvinnulíf landsmanna og bjóðum þeim sem hér alast upp fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri.