Efling iðnaðar sem nýtir ál við framleiðslu sína

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 15:33:01 (5044)

1997-04-04 15:33:01# 121. lþ. 99.21 fundur 447. mál: #A efling iðnaðar sem nýtir ál við framleiðslu sína# þál., Flm. ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[15:33]

Flm. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég þakka ágætar undirtektir hv. þm. Hjálmars Árnasonar við þessa tillögu og ekki síst hversu sammála hann er okkur flm. Raunar verður að segja að einhverjir okkar höfðu hugmynd um það nefndarstarf sem hann stýrir. Við væntum þess að það muni draga fram nokkur þau atriði sem við höfum vakið máls á, t.d. í grg. með tillögunni, og við teljum það skipta miklu máli að aðgengilegar upplýsingar séu til fyrir þau ungmenni sem hyggja á framtíðarstörf í iðnaði. Raunar er það svo að slík þekking verður að vera við hæfi ekki einasta þeirra sem eru upp að vaxa heldur hinna sem leita sér endurmenntunar eða þurfa að gera sig hæfa til nýrra starfa einhvern tíma á lífsleiðinni.

Það er rétt sem fram kom, herra forseti, að völsunarstarfsemi er mjög stór í sniðum og við nefnum í grg. að ekki er líklegt að við gerumst þátttakendur í henni. Steypustarfsemin er líklegri og þá einkum með tilliti til blöndunar magnesíums í ál. Tæknikunnátta Íslendinga hefur, eins og ég hef nefnt áður, vakið nokkra athygli og nokkru meiri en við sjálf höfum átt von á. Hins vegar verður að geta þess að flutninganet okkar Íslendinga við umheiminn er alvarlegt umhugsunarefni í þessu samhengi. Þótt fjarlægðin sem slík skipti ekki máli getur flutningatíðnin skipt miklu. Aðild okkar að hinu Evrópska efnahagssvæði mun vera kostur í þessu efni eins og við höfum stundum minnst á. Þess vegna er mögulegt að framleiðendur bifreiða og annars varnings sem á uppruna sinn í öðrum heimshlutum sjái hér hlið opnast til nýrra markaða eða hlið sem gefi þeim tækifæri til bættrar samkeppnishæfni eins og við köllum það. Öll þessi atriði verða væntanlega athuguð, herra forseti.

Ég þakka ágætar undirtektir og legg að lokum til að málinu verði vísað til síðari umr. og til athugunar hjá hv. iðnn.