Beiðnir um skýrslu

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 15:14:54 (5077)

1997-04-14 15:14:54# 121. lþ. 101.91 fundur 284#B beiðni um skýrslu# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[15:14]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að blanda mér í þessa umræðu en geri það sökum þess að hér komu frammíköll um hvort þetta væru málefni forseta. Við höfum lagt áherslu á það á þessum vetri, þingflokksformenn og forseti þingsins, að reyna að halda starfsáætlun. Það er búin til ný starfsáætlun sem er óþekkt fyrirbæri frá fyrri þingum og síðan á að reyna að standa við þessa starfsáætlun. Það þýðir að þinginu á að ljúka 16. maí, ágæti þingheimur. Á þessum degi er verið að byrja með fyrstu umræðu mál. Alla þessa viku munum við samkvæmt nýju stundaplani ræða mál sem ráðherrarnir koma með út úr sínum fílabeinsturni þar sem þeir sitja í sínum ráðuneytum og smíða mál til að henda inn fyrir lokadag þingsins til að knýja á um að þau verði afgreidd fyrir vorið. Það er staðan sem við erum í nú. Það var, virðulegi forseti, ekki ástæða þess að hér hófst umræða um störf þingsins en það er ástæða þess að ég kem hér og legg orð í belg vegna þess að það er auðvitað fáheyrt að það skuli vera beðið mánuðum saman eftir upplýsingum en síðan skuli öllum þessum málum hrúgað inn á dagskrá þingsins á viðkvæmum lokatíma.