Lánasjóður íslenskra námsmanna

Mánudaginn 14. apríl 1997, kl. 16:22:55 (5107)

1997-04-14 16:22:55# 121. lþ. 101.3 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[16:22]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Árið 1982 voru sett lög um námslán sem mikil sátt ríkti um milli námsmanna og með þjóðinni allri. Enda bar þáv. hæstv. menntmrh. Ingvar Gíslason, gæfu til að hafa mikið samráð við hina ólíkustu aðila við samningu laganna og komu þar m.a. allir stjórnmálaflokkar að verki. Ég held að það sé í raun borðliggjandi staðreynd að þannig hljóti að verða að standa að samningu slíkra lagabálka sem snerta hag og framtíð þjóðarinnar allrar um langa framtíð. En því miður er það þannig að þær ríkisstjórnir sem hér hafa setið að völdum frá 1991 hafa aldrei viðurkennt þessa staðreynd enda er það bjargföst trú þeirra ráðherra, sem farið hafa með menntamál þau ár sem síðan eru liðin, að þeir viti hvað þjóðinni er fyrir bestu. Svoleiðis fólk er á erlendu máli kallað ,,besservisserar``. Þess vegna eru frv. samin helst á rúmstokki ráðherrans með mikilli leynd og síðan keyrð fram á hinu háa Alþingi í kippum, eins og núna, þar sem skyndilega kemur fram mikill fjöldi stórmála sem á að keyra í gegnum Alþingi að manni skilst á þeim stutta tíma sem eftir er af þingi til vors, sem er ekki nema þrettán almennir þingfundadagar samkvæmt fyrirliggjandi starfsáætlun Alþingis. Það er öllum augljóst að ekki er reiknað með að þessi mál fái vandlega þinglega meðferð eða að mikið tillit verði tekið til umsagna sem fengnar verða frá aðilum sem málin snerta. Það verður reynt að keyra allt helst óbreytt í gegn. Svo þruma stjórnarliðar af sér baráttu stjórnarandstæðinga með því að láta helst ekki sjá sig í þingsal á meðan umræðan fer fram. Þessi fundur er einmitt gott dæmi um það. Við atkvæðagreiðslur eru þeir svo mættir líkt og forkláraðir englar og greiða sín atkvæði nákvæmlega eins og til er ætlast með sárafáum undantekningum. Enda fara af því sögur að hæstv. ráðherrar viti líka hvað þingmönnum þeirra er fyrir bestu.

Árið 1992 átti Lánasjóður ísl. námsmanna í fjárþröng sem þurfti að bregðast við á einhvern hátt. Lögðu stúdentar m.a. fram ágætar tillögur um hvernig ætti að bregðast við og má m.a. minnast á tillögur frá Vöku. Allar þessar tillögur tóku á ábyrgan hátt á þeim vanda sem við var að etja. En að sjálfsögðu var ekki tekið mark á tillögum stúdenta. Ekki heldur þeirra sem komu úr röðum sjálfstæðismanna sjálfra og sett voru þau dæmalausu lög árið 1992 þar sem hugsjónin um jafnrétti til náms var mjög fyrir borð borin enda tillögurnar samdar í þröngum hópi án samráðs við námsmenn hvað þá að þar kæmu inn fulltrúar frá stjórnarandstöðuflokkum. Þessi nefnd hafði ekki setið lengi að störfum þegar í ljós kom að ekki átti að taka neitt tillit til tillagna námsmanna og ekki var heldur komið til móts við beiðni stjórnarandstöðu um að fá að fylgjast með málinu á vinnslustigi og af mikilli óbilgirni var það keyrt fram í þinginu sem frægt er orðið og gert að lögum. Síðan hafa afleiðingarnar verið að koma í ljós. Ungt, fátækt námsfólk, hefur hrakist frá námi, ungt barnafólk hefur hrakist frá námi, dreifbýlisfólk hefur síður treyst sér í nám og þar á ofan hefur endurgreiðslubyrðin verið að sliga þá sem ekki hafa getað gengið að topplaunuðum störfum að námi loknu. Fyrir utan það að afnám samtímagreiðslna hefur gert það að verkum að fólk hefur verið að borga bankavexti af framfærslu sinni og allt hefur þetta dæmi verið næsta vonlaust fyrir þá sem þurfa á fyrirgreiðslu sjóðsins að halda til að geta stundað nám svo ekki sé talað um þá sem lent hafa í þeim hremmingum að standast ekki kröfur um námsframvindu. Þeir máttu bíta gras.

Námsmenn höfðu auðvitað af þessu þungar áhyggjur og stjórnarandstaðan tók mjög undir með þeim, ekki síst flokkur sem var á árunum 1991--1995 í stjórnarandstöðu, mjög ábyrgri að því er talið var og tók þessi mál mjög upp á sína arma. Þingmenn þessa ágæta flokks fluttu um þessi mál hjartnæmar ræður á hinu háa Alþingi og ég tel að ég sé ekki að ljóstra upp viðkvæmu leyndarmáli þó ég upplýsi að ég er hér að tala um Framsfl.

Finnur Ingólfsson, núv. hæstv. iðnaðar- og viðskrh., sagði m.a. er hann gerði grein fyrir atkvæði sínu um LÍN í maí 1992, með leyfi forseta:

,,Virðulegur forseti. Hér eru alvarlegir hlutir að gerast og í raun og veru eru hér sorglegir hlutir að gerast. Hver hefði trúað því að árið 1992 gæti þetta gerst? Það er verið að færa aðstoð við námsmenn áratugi aftur í tímann. Jafnrétti til náms er aflagt. Það er hætt að taka tillit til aðstæðna meðan á námi stendur. Menntun er aftur að verða forréttindi hinna ríku. Lánasjóður ísl. námsmanna er í raun og veru lagður niður. Námsmönnum er vísað á bankakerfið, á okurvextina, kerfi sem á að fara að einkavæða eða gefa kolkrabbanum. Það er kolkrabbinn í þessu þjóðfélagi sem á að fara að ákveða hverjir það eru sem eiga að mennta sig. Hér er í raun og veru verið að kveða upp dauðadóm yfir mörgu ungmenninu í þessu landi hvað menntun snertir. ,,Gjör rétt, þol ei órétt``, sagði Sjálfstfl. fyrir nokkrum árum. En það var áður en hugsjónirnar brunnu upp á báli peningahyggjunnar. ... Á meðan þessir tveir flokkar, Alþfl. og Sjálfstfl., ráða ríkjum á Alþingi verður Íslands óhamingju allt að vopni í þessu húsi. Ég segi því nei, nei og aftur nei.``

Þetta var Finnur Ingólfsson. (Gripið fram í: Það eru breyttir tímar.) Guðmundur Bjarnason, hæstv. umhvrh. og landbrh., gerði grein fyrir atkvæði sínu við sama tækifæri og sagði, með leyfi forseta:

,,Hæstv. ríkisstjórn er nú að takast á sínum skamma valdaferli, ef frv. þetta verður nú gert að lögum, að hrinda í framkvæmd enn einni aðförinni að velferðarkerfi því sem tekist hefur að byggja upp á undanförnum áratugum. Í þetta sinn er ráðist að námsmönnum og því dýrmæta markmiði að gera öllum kleift að stunda nám óháð efnahag og búsetu er nú fórnað. ... Ég er algerlega andvígur þessu frv. og segi því nei.``

Páll Pétursson, núv. hæstv. félmrh., sagði þann 5. maí síðdegis, m.a. eftirfarandi, með leyfi forseta:

[16:30]

,,Þessi lög eru sett í algerri óþökk Framsfl. og í fullkominni andstöðu við hann. Ég leyfi mér að lýsa því yfir að Framsfl. mun ekki, þegar hann fær þingstyrk og afl til þess að stjórna menntamálum þjóðarinnar, búa áfram við þessi lög óbreytt. Við munum breyta þessum lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Framsfl. vill ekki níðast á námsmönnum og Framsfl. þekkir gildi menntunar fyrir þjóðfélagið.``

Og enn tók hæstv. núv. félmrh. til máls um þetta mál þann 13. maí og var mikið niðri fyrir að vonum og sagði m.a. eftirfarandi: ,,Þó að frv. verði að lögum hættum við ekki fyrr, stjórnarandstæðingar, en þessum lögum verður breytt. ... við munum ekki búa við þessi lög. ... Við munum reyna að breyta þeim, við munum berjast fyrir breytingum á þeim strax í haust og við unum ekki við svona lagasetningu. ... Það eru vond lög sem hér er verið að setja og þeim verður að breyta svo fljótt sem mögulegt er og ég vænti þess að námsmenn og þó sérstaklega þeir sem þessi lagabreyting hrekur frá námi, en líka þeir sem þurfa að ganga á milli bankastjóranna, muni hvern hug þessi ríkisstjórn ber til þeirra og sjái til þess að Sjálfstfl. og Alþfl. fái ekki tækifæri til að stjórna þessu landi áfram.`` (Gripið fram í: Hvar eru þessir menn í dag?)

Og þann 15. maí gerir hæstv. núv. félmrh. svohljóðandi grein fyrir atkvæði sínu: ,,Hér er verið að setja vond og óréttlát lög sem verða öllum til óþæginda og því miður allt of mörgum til tjóns. ... Við framsóknarmenn munum ekki una þessum lögum til frambúðar. Við munum taka málið upp á næsta þingi í von um að stjórnarliðið hafi þá séð að sér. Ég bið námsmenn, aðstandendur þeirra og alla sem vilja jafnrétti til náms án tillits til efnahags að ganga í lið með okkur og reyna að knýja ríkisstjórnarflokkana til undanhalds eða refsa þeim á kjördegi að öðrum kosti. Ég segi nei við þessu frv.``

Og eðlilega ítrekaði flokksþing Framsfl. þessa hörðu afstöðu á flokksþingi í aðdraganda alþingiskosninga í nóv. 1994 --- annaðhvort væri nú. Og þar var samþykkt að hafa eftirfarandi atriði að leiðarljósi við endurskoðun laganna: ,,Mánaðargreiðslur námslána verði aftur teknar upp í stað eftirágreiðslna. Endurgreiðsluhlutfallið verði lækkað og tekjutengt. Tekið sé tillit til aðstæðna námsmanna meðan á námi stendur. Lánið beri ekki vexti enda um framfærslulán að ræða. Reglur um lánshæft nám erlendis verði endurskoðaðar.`` Maður klökknar, þetta eru háleit markmið.

Og að sjálfsögðu voru þessi fögru fyrirheit ítrekuð í þeim frægu loforðalistum sem flokkurinn gaf út fyrir kosningar 1995 þar sem öllum átti nú að vera orðið ljóst að Framsfl. bæri þessi mál mjög fyrir brjósti. Vafalaust fékk hann eitthvað af því mikla fylgi sem hann uppskar í kosningunum 1995, en virðist nú vera á afar hröðu undanhaldi, út á einmitt fyrirheit um vasklega framgöngu í þessum efnum. Þá kom það mjög á óvart, þegar út var gefinn stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. í apríl 1995, hve mjög virtist af flokknum dregið í þessu máli og er þess aðeins getið í einni setningu í því ágæta plaggi sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Lög og reglur um Lánasjóð ísl. námsmanna verði endurskoðuð.`` Punktur. En punktur þessi er að verða æ áhrifaríkara og athyglisverðara tákn eftir því sem lengra hefur liðið á þetta stjórnartímabil eins og alþjóð veit og sér hans stað víða eins og dæmin sanna. En þarna má segja að þegar hafi séð í hornið á því plaggi sem nú er að sjá dagsins ljós og heitir einmitt frv. til laga um breyting á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Og verður að segja að ekki sést þar glitta mikið í hugsjónamál framsóknarmanna frá því í kosningunum enda var kannski ekki við því að búast. Þeir eru greinilega minni máttar í þessari ríkisstjórn og hafa ákveðið að sætta sig við það hlutskipti hvað sem það kostar og þá verður niðurstaðan auðvitað í þessum dúr.

Það var auðvitað leikið lítið leikrit í ungmennafélagsstíl þar sem sett var upp samráðsnefnd með fulltrúum námsmanna um gerð nýrra tillagna um LÍN þar sem fulltrúar framsóknarmanna byrjuðu að slá um sig og fluttu m.a. eftirfarandi tillögur, með leyfi hæstv. forseta: ,,Höfundar þessarar greinargerðar geta sæst á að í endanlegu frv. til laga um LÍN yrði gert ráð fyrir að föst árleg endurgreiðsla námslána verði óbreytt en breytilega greiðslan miðist við að endurgreiðslubyrðin fari ekki niður fyrir 4,5% af heildarlaunum.`` --- Þarna er nú greinilega aðeins af þeim dregið samt. --- ,,Með þessari niðurstöðu væru námsmenn að teygja sig langt til sátta miðað við yfirlýst markmið sín. Þessi lækkun mundi auðvitað ekki leysa allan fjárhagsvanda ungs fólks.`` --- Og svo kemur áfram þegar lengra er komið í þessu minnisblaði: ,,Mikill tími hefur farið í það að meta kostnað við að taka upp mánaðarlegar útborganir, meta þarf aukin útlán, kostnað vegna flýtingar á útborgunum og sparnaðar af afnámi vaxtabóta. Höfundar þessarar greinargerðar völdu þá leið að fela starfsmanni Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands að leggja mat á þá reikninga. Niðurstaða þessara athugana er sú að kostnaður vegna upptöku samtímagreiðslna sé á bilinu 16,4--23 millj. kr. á hverju ári miðað við að útlán aukist ekki. Meginniðurstaðan er sú að kostnaður er óverulegur miðað við aðrar stærðir hjá LÍN og það sem eftir stendur er pólitísk ákvörðun --- á að skipta aftur yfir í mánaðarlegar útborganir eða ekki?``

En annað minnisblað lögðu framsóknarmenn fram í júní og er þá greinilega töluvert af þeim dregið enda ekki í góðum félagsskap þar sem hinn stjórnarflokkurinn er. En þar eru þeir þó enn að tala um mánaðarlegar útborganir á fyrsta missiri en tala um endurskoðuð endurgreiðsluhlutföll en tiltaka ekki stærðir. En svo leið að því að hæstv. menntmrh. fór auðvitað að leiðast þófið í þessum samráðsleik enda hafði aldrei staðið til að gera aðrar breytingar á þessu frv. en þær sem honum þóknuðust. Þessi svokallaða samráðsnefnd var allt í einu ekki lengur kölluð saman eftir fund í ágústmánuði og í byrjun þessa árs fengu aðstandendur hennar bréf um að hún hefði verið leyst upp. Þar með var hæstv. ráðherrann kominn með málið í þröngan hóp sinna manna enda hafði það sjálfsagt alltaf verið meiningin og þau vinnubrögð sem láta hæstv. ráðherra tvímælalaust best. Það var auðvitað ekki lengur haft neitt samráð við framsóknarmenn og hinn sérkennilegi dráttur á því að frv. yrði svo lagt fram var sagður vegna þess að ráðherranum hefði ekki líkað ýmist hitt eða þetta. Meðal annars sem honum átti að hafa mislíkað var að stúdentar gáfu út skýrslu um áhrif og afleiðingar breyttra laga um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það liggur við að manni finnist að þeim sem er svo viðkvæmur í skapi kæmi betur að vera ráðherra í ráðuneyti þar sem ekki þyrfti að kljást við ungt fólk með skoðanir. En svo er guði fyrir að þakka að í hópi íslenskra námsmanna er fólk sem berst fyrir hagsmunum sínum. Hvar værum við stödd ef svo væri ekki? Þá færi ég nú fyrst að hafa áhyggjur af framtíð þjóðarinnar.

En loksins rann upp sá dagur nú í byrjun apríl að þetta frv. sem svo lengi hafði verið beðið eftir og ýmsir bundið nokkrar vonir við var lagt fram á Alþingi. Og hvílík vonbrigði hljóta það hafa verið öllum þeim sem ekki höfðu enn glatað allri trú sinni á áhrifamátt framsóknarmanna, sem voru nú komnir í kjöraðstöðu, sátu í ríkisstjórn sem var að endurskoða lög sem þeir sögðu m.a. um á Alþingi 1992, og ég ætla enn að vitna hér til orða hæstv. núv. félmrh. sem sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

,,Ég hef setið 21 þing, þetta er það 21. og ég fullyrði að þetta frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna er langversta frv. sem ég hef séð á Alþingi. ... Mér finnst aumlegur þáttur sumra þingmanna Alþfl. ... Þeir eru að ropa í blöðum og á gatnamótum um að þeir séu í óðaönn að laga frv., þeir séu á móti hinu og þessu, en svo lyppast þeir niður í þingsalnum og þingflokksherbergjunum og sletta svo puttunum sínum á þá takka sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að þeir styðji á þegar til atkvæðagreiðslu kemur.``

Svo mörg voru þau orð. Og vonandi þvælast puttarnir ekki fyrir hæstv. félmrh. þegar hann fer að greiða atkvæði um fyrirliggjandi frv. því afskaplega vantar nú mikið upp á að þær lagfæringar sem Framsfl. hafði látið í veðri vaka að hann berðist fyrir hafi náðst þar fram. Það koma líka úr talsvert óvæntri átt yfirlýsingar sumra þeirra framsóknarmanna sem hafa gefið í skyn að þeir legðu allt sitt að veði til að réttlátar breytingar yrðu gerðar á lánasjóðnum um ágæti frv., því mér finnst, satt að segja, að það sé í ákaflega fáum atriðum til bóta og það þurfi einhvers konar sérsmíðuð gleraugu fyrir þá sem vilja sitja áfram í ríkisstjórn hvað sem það kostar til að geta séð eitthvað af gömlu baráttumálum Framsfl. í þessu frv.

Ég tek hins vegar undir með fulltrúum stúdenta þegar þeir segja að frv. sé fullkomin hryggðarmynd og mikil vonbrigði að sjá það eftir að hafa lagt á sig fimm ára þrotlausa vinnu í að berjast fyrir endurbótum og töldu þeir sig hafa til þess stuðning a.m.k. annars stjórnarflokksins.

Í 1. gr. þessa frv. sem liggur hér fyrir til umræðu kemur nú reyndar fram það jákvæðasta við frv. en þar er kveðið á um skipan í stjórn sjóðsins. Lagt er til að stjórnarmönnum verði fjölgað um tvo og þar af fái Iðnnemasamband Íslands annan en það hefur hingað til aðeins haft áheyrnarfulltrúa. Ég tel það tvímælalaust vera til bóta að iðnnemar eigi aðalmann inni í stjórninni. Hins vegar sé ég ekki brýna þörf á að láta menntmrh. hafa þriðja manninn í stjórninni en látum svo vera. Í b-liðnum er aðeins verið að aðlaga ráðningartíma framkvæmdastjóra að lögum um opinbera starfsmenn sem hér voru samþykkt á síðastliðnu vori.

En í 2. gr. frv. er lögð til breyting á 5. gr. laganna, 5. tölul. 1. mgr., er varðar hlutverk stjórnar. Segir þar að hlutverk stjórnar sé ,,að skera úr vafamálum er varða einstaka lánþega og öðrum málum með bókuðum samþykktum. Úskurðir stjórnarinnar í þessu sambandi eru endanlegir og verða ekki kærðir til æðra stjórnvalds.`` Mér líst nú svo á að hér sé á ferðinni alvarlegt mál og hér sé ekki gert ráð fyrir neinni óháðri kærunefnd og þetta sé eins og það stendur hér í andstöðu við þá þróun stjórnsýsluréttar á Íslandi að jafnan sé til óháð kærunefnd sem hægt sé að vísa máli til. Væntanlega verður farið mjög ítarlega yfir þetta atriði í nefnd og verð ég að segja að mér nægir ekki sá rökstuðningur sem hér fylgir í athugasemdum með frv.

Varðandi b-lið 2. gr. frv. er það að segja að þar er verið að setja í lög það sem hingað til hefur verð praktíserað, þ.e. að skipaðar séu undirnefndir stjórnar til að fjalla um einstök mál og gera tillögur fyrir stjórn sjóðsins og er það í sjálfu sér gott mál.

En þá kemur að 3. gr. frv. sem orðast svo: ,,Námsmaður fær greiddan vaxtastyrk sem ætlaður er til að bæta honum fjármagnskostnað vegna framfærslu í samræmi við rétt hans til námsláns á hverjum tíma. Styrkurinn greiðist við útborgun námsláns og miðast við meðaltal vaxta- og lántökukostnaðar banka og sparisjóða eins og hann er á hverjum tíma samkvæmt nánari reglum sem stjórn sjóðsins setur.`` Hér er kveðið á um vald stjórnar til að veita stúdentum einhvern styrk til að greiða niður vexti af framfærslu, þ.e. að stjórnin greiði bönkunum vaxtamun allt að 60 milljónum á ári. Athygli vekur að hvergi kemur fram hve mikill hluti vaxtakostnaðar verði bættur, aðeins það að styrkurinn er ætlaður til að bæta eitthvað af þessum vaxtamun. Þetta á víst að heita ígildi samtímagreiðslna námslána og vekur það furðu að ýmsir hörðustu talsmenn samtímagreiðslna úr Framsfl. virðast ætla að sætta sig við þennan kost. Gamalt íslenskt máltæki segir: Litlu verður Vöggur feginn, --- og það hvarflar óneitanlega að mér í þessu sambandi. Og þó kannski enn frekar þegar kemur að 5. gr. frv. sem fjallar einmitt um hitt aðalbaráttumálið, þ.e. lækkaðar endurgreiðslur og hvernig það verður nú ,,realíserað``. Þar er lagt til að fastagreiðslan sem nú er 52.968 kr. verði óbreytt og miðist áfram við vísitölu neysluverðs og auk þess verði viðbótargreiðslan 4,75%, þ.e. að öll breytingin verði sú að í stað 5% viðbótargreiðslu verði viðbótargreiðslan eftirleiðis 4,75% en það er lækkun upp á 0,25%. Látið er í veðri vaka að verið sé að lækka úr 7% en staðreyndin er sú að enginn var farinn að borga 7% endurgreiðslu. Það hefði samkvæmt lögunum átt að koma til framkvæmda fimm árum eftir að endurgreiðslur hófust en allir vissu að því yrði breytt því að annars hefði enginn námsmaður á Íslandi getað fengið húsbréfalán um ókomna framtíð og þrátt fyrir allt þarf meira að segja menntafólk að geta búið einhvers staðar.

[16:45]

Vísir menn hafa reiknað út að þetta lækki ekki endurgreiðsluna hjá þeim sem lægstar hafa tekjurnar, þ.e. undir 1.100 þús. kr. í árslaun og detta mér þá í hug kollegar mínir kennarar sem mega að sæta því að hafa undir 80 þús. kr. í byrjunarlaun fyrir fullt starf eftir þriggja ára háskólanám og mega raunar þakka fyrir ef þeir fá fullt starf, a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu. Þessi niðurstaða hvetur ekki fólk sem þarf að kosta sig til náms á námslánum til að fara í slíkt nám. Ég þekki fólk sem er að sligast undan endurgreiðslubyrði námslána sem hafði bundið miklar vonir við þau fyrirheit sem gefin höfðu verið um lækkun á endurgreiðslubyrði með framlagningu þessa frv. Það fólk hlýtur að verða fyrir miklum vonbrigðum þegar það sér niðurstöðuna sem hér liggur fyrir.

Í 7. gr. frv. eru ákvæði þess efnis að stjórn sjóðsins sé heimilt að veita lán með sömu kjörum og almenn námslán vegna annarra áfalla og eru þar sérstaklega tilgreind veikindi eða takmarkað námsframboð skóla. Ég hefði frekar kosið að hafa hér opnara orðalag því það geta verið fleiri fullgildar ástæður fyrir því að námsmaður stenst ekki kröfur um námsframvindu en hér eru tilgreindar og mér finnst að það þurfi að vera heimild til að meta hvert tilvik.

Ég hef á þessu stigi ekki sérstakar athugasemdir við aðrar greinar frv.

Sjálfstfl. hlýtur að teljast bera höfuðábyrgð á frv. eins og það liggur hér fyrir og skýtur það nokkuð skökku við þegar maður lítur til þeirra yfirlýsinga sem frá þeim hafa komið að undanförnu um að menntamálin þurfi að hafa forgang við skiptingu fjármuna ríkisins. Hæstv. forsrh. sagði í stefnuræðu sinni á Alþingi að menntun væri helsta forsenda framfara og velmegunar þjóðarinnar. Hæstv. menntmrh. sagði á menntaþingi í Háskólabíói í vetur að tími væri kominn til að menn sýndu í verki sem þeir forgangsröðuðu í orði þegar þeir segjast vilja hlut menntunar sem mestan og bestan. Og ein stærsta fjöldasamkoma sem nokkur íslenskur stjórnmálaflokkur hefur haldið, landsfundur Sjálfstfl., samþykkti í haust að að forgangsraða ætti í þágu menntunar við skiptingu ríkisútgjalda. Efndirnar hafa síðan verið að koma í ljós, ein ráðstöfunin annarri sérkennilegri þegar litið er til hins háleita markmiðs sem menn hafa gefið sér.

Fyrst var skorið niður fé til framhaldsskólanna og var þar sérstaklega vegið að fámennum dreifbýlisskólum. Svo var lagður fallskattur á alla þá sem ekki stóðust námskröfur í framhaldsskólum og var það ekkert smáræði sem ríkið ætlaði að hafa upp úr því eða 32 millj. og þýddi að þetta var þeim mun vænlegri fjáröflunarleið sem fleiri stóðust ekki próf. Nú mun ráðherra, að því er lausafregnir herma, vera á hröðu undanhaldi með þessa fjáröflun og segja mér vísir menn að nú standi þau mál þannig að menn treysti sér ekki til að praktísera þessa innheimtu nema í fjölbrautaskólunum. Þar með er farið að gera upp á milli nemenda eftir því í hvaða gerð framhaldsskóla þeir stunda nám. Reglum um innheimtu á efnisgjaldi var breytt í tengslum við samþykkt frv. við ráðstafanir í ríkisfjármálum og var sá hluti sem nemendur þurfa að greiða þyngdur þar verulega. Skyldu nú ekki þeim sem fylgja Sjálfstfl. að málum og hafa haldið að hann meinti eitthvað með þeim yfirlýsingum sem hann hefur gefið um forgangsröðun í menntamálum fara að þykja nóg um þegar þeir ofan á það sem á undan hefur gengið sjá það frv. sem hér liggur fyrir um breytingar á Lánasjóði ísl. námsmanna.