Búfjárhald

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 13:55:24 (5142)

1997-04-15 13:55:24# 121. lþ. 102.1 fundur 522. mál: #A búfjárhald# (forðagæsla, merking o.fl.) frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[13:55]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir það frv. sem hann hefur hér mælt fyrir. Um er að ræða breytingu á lögum um búfjárhald. Þetta litla netta frv. lætur út af fyrir sig ekki mikið yfir sér en sú löggjöf sem hér er verið að fjalla um breytingar á hefur engu að síður heilmikla þýðingu. Vegna þessarar umræðu vildi ég koma með örstutt innlegg, en fyrst vildi ég nefna, hæstv. forseti, að fram kemur í athugasemdum við lagafrv. að það hafi verið samið í landbrn. Ég vildi spyrja hæstv. landbrh. hvort samráð hafi verið haft við sveitarstjórnir eða forsvarsmenn hagsmunaaðila, ef svo má segja, sem er nú afar vinsælt í þinginu að kalla til þegar verið er að breyta lögum, þ.e. þá væntanlega Bændasamtökin, hvort að fulltrúar Bændasamtakanna og sveitarstjórna hefðu einhvern veginn komið að þessu verki.

Sem betur fer þarf í langflestum tilvikum ekki að hafa miklar áhyggjur af búfjárhaldi því að bændur landsins sinna því að sjálfsögðu með miklum ágætum, bæði sinna þeir sínu búfé og eins ganga þeir vel um landið og gæta þess að ofgera því ekki og eru ef til vill bestu útverðir þegar kemur að gróðurvernd og uppgræðslu. Ég tel því að það séu undantekningartilvik ef það þarf að beita þeim ákvæðum sem hér er verið að fjalla um. Til allrar hamingju er það nú þannig. En ástæðan fyrir því að ég vildi nefna hér þetta atriði er að til eru undantekningartilvik. Það er einmitt nefnt í athugasemdum við 2. gr. frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Nokkur dæmi eru þess að ábúendur lögbýla og aðrir umráðamenn búfjár meini búfjáreftirlitsmönnum aðgang að gripahúsum og/eða beitilöndum.`` Síðar segir: ,,Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að oftar en ekki tengist tregða búfjáreigenda við að leyfa búfjáreftirlitsmönnum aðgang að gripahúsum sínum og beitilöndum því að ekki er allt með felldu hvað varðar meðferð lands, fóðurbirgðir og velferð dýra. Með vísan til þess er talið nauðsynlegt að treysta ákvæði laganna svo grípa megi til aðgerða í slíkum tilvikum. Því er lagt til að bætt verði nýrri málsgrein við núgildandi ákvæði laganna, sem verður 2. mgr. 10. gr., þar sem ráðherra er heimilað að grípa til nauðsynlegra ráðstafana með aðstoð lögregluyfirvalda takist sveitarstjórn ekki að leiða málið til lykta.``

Hér er sett upp tiltekið kerfi samkvæmt þessum ákvæðum til þess að auðvelda sveitarstjórnum aðgerðir. Ég tel að það sé allt gott og blessað og í rauninni nauðsynlegt, því að, ekki síst í miklu nábýli, er nú ekki mjög greitt um gang fyrir sveitarstjórnir að hafa afskipti af nágrönnum sínum í þessum efnum og þess vegna oft og tíðum nauðsynlegt að önnur yfirvöld komi þar að. En vegna þess að upp hafa sprottið miklar deilur um ágang búfjár vegna þess að talið hefur verið að beit hafi verið of mikil og þá kannski aðallega vegna þess að girðingar hafa ekki verið í lagi og vandinn hefur verið að menn hafa beitt á lönd nágranna sinna, vildi ég spyrja hæstv. landbrh., hvort menn telji að með þeim ákvæðum sem hér er bætt við megi tryggja trausta framkvæmd þessara mála fyrir sveitarstjórnirnar hvað þetta varðar ef ekki eru nægjanlega traustar girðingar á löndum. Það eru mörg dæmi þess að bændur hafi ekki treyst sér til þess að girða nægjanlega vel þannig að þar sem lausaganga er ekki bönnuð er mikill ágangur á lönd án þess að við verði ráðið.

[14:00]

Ég tel að nauðsynlegt sé að fara yfir þetta í hv. landbn. sem fær frv. til umfjöllunar og reyna að átta sig á því hvort frv. tryggi nægilega vel trausta framkvæmd hvað þetta atriði varðar. Það er mjög erfitt að halda búfé burt af löndum nema girt sé, en vandamálið er síðan að mjög víða eru girðingar í ólagi.

Annað sem ég tel að hv. landbn. verði að skoða mjög vandlega í sambandi við meðferð á frv. er lausaganga búfjár. Sveitarfélög geta bannað með sérstökum aðgerðum lausagöngu búfjár en í sumum tilvikum er nauðsynlegt að banna lausagöngu í hluta af sveitarfélögum og það veldur vandræðum. Það þekkjum við. Ég tel að hv. landbn. þurfi að taka það til sérstakrar skoðunar hvort ástæða sé til að skýra ákvæði þessara laga enn frekar til að hægt sé að taka á þeim málum og tryggja að sveitarstjórnir geti með öruggum og traustum hætti heft lausagöngu á tilteknum svæðum.