Búfjárhald

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 14:08:33 (5145)

1997-04-15 14:08:33# 121. lþ. 102.1 fundur 522. mál: #A búfjárhald# (forðagæsla, merking o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:08]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það hafi verið einn kjósandi á Suðurlandi sem sagði þessi fleygu orð: Ber er hver að baki nema sér bróður eigi. Það kom vel í ljós að því er varðar hv. þm. Guðna Ágústsson að hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason stökk upp og tók upp vörn fyrir félaga sinn alveg um leið og ég nefndi nafn hans hér í salnum og er það næsta fátítt að slíkur drengskapur ríki með mönnum í þessum sal eins og gerðist í stólnum áðan og í þeim faðmlögum sem nú standa yfir fram við dyr.

Ég vil hins vegar segja að það er ekkert svar í þessu máli að landbúnaðarnefndarmenn eða nefndarmenn viðkomandi mála séu að horfa á sjónvarpið á skrifstofunum. Þeir eiga að vera við þegar verið er að ræða málin og ég er þess fullviss að hv. þm. Guðni Ágústsson hefur haft lögmæt forföll og öðrum skyldum að gegna sem hann hefur ekki getað vikist frá. Ég dreg það ekkert í efa. En ég tel þá slæmt að umræðunni skuli vera hagað þannig að hún fari fram þegar hv. þm. er í burtu. Þegar umræður fara fram um mál og þegar landbúnaðarmál, eins og þetta er núna, fá ákveðinn tíma, þá eigi að halda þannig á málum að landbúnaðarnefndarmenn geti allir verið hér.