Búfjárhald

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 14:23:37 (5147)

1997-04-15 14:23:37# 121. lþ. 102.1 fundur 522. mál: #A búfjárhald# (forðagæsla, merking o.fl.) frv., GBeck (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:23]

Guðmundur Beck (andsvar):

Herra forseti. Það er fyrst til að taka að landbrh. heldur sig við það að hann þurfi að hafa ákvæði um merkingar á búfé í tvennum lögum og þar af leiðandi sjálfsagt í tveimur reglugerðum. Ég tel það nú mjög ofmælt. Ég held að það sé alveg nóg að hafa þetta í einum lögum. Það stendur í frv. sem væntanlega verður rætt á eftir, að skylt er hverjum búfjáreiganda að hafa glöggt mark á búfé sínu og markið er skilgreint hér á undan. Búfjármörk eru: örmerki, frostmerki, brennimörk, plötumerki og eyrnamörk. Ég sé ekki annað en að þetta hljóti að vera nógu glöggt. Það ætti varla að þurfa marga lagabálka til þess að skilgreina slíkt.

Varðandi athugasemdir mínar við 2. gr. þá sé ég í sjálfu sér ekki að það breyti miklu hvort þarna er nýmæli eða endurtekning á núgildandi lögum. Það er verið að umorða heila grein og orða hana upp á nýtt og er hún þá auðvitað ekki öll undir endurskoðun? Það er mitt mat á því.

Um veðið sem ég gerði athugasemdir við, þá getum við nú rétt ímyndað okkur að lítið veð sé í illa fóðruðum og horuðum gripum og ég sé ekki að það komi sér neitt sérstaklega vel fyrir sveitarstjórn að taka veð í slíku.

Ég tek undir það með hv. þm. Svavari Gestssyni að mikil þörf er á að taka hrossabeit og ágang hrossa til umfjöllunar og ég skora á hv. landbn. að taka það mál til skoðunar og senda frá sér breytingar á lögum varðandi það, þannig að hægt sé að taka á slíku.

Hæstv. landbrh. vék að samningunum um búfjárframleiðsluna. (Forseti hringir.) Mér skilst að landbn. hafi ekki haft mikið að gera á þessu þingi þannig að ég held að það sé kominn tími til að huga að þeim. Það er ekki nóg að tala um að ýmislegt sé í gangi heldur er tími til kominn að menn fari að efna kosningaloforðin.