Bæjanöfn

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 22:35:04 (5232)

1997-04-15 22:35:04# 121. lþ. 102.13 fundur 535. mál: #A bæjanöfn# (örnefnanefnd) frv., 536. mál: #A Örnefnastofnun Íslands# frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[22:35]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Hér eru tvö frv. sem lúta að varðveislu þjóðararfsins. Við gerum okkur kannski ekki nægilega vel grein fyrir því að örnefni og verndun þeirra, skilgreiningar á landakortum, og annað sem að því lýtur að við getum aflað okkur upplýsinga um staðarnöfn og bæjanöfn er hluti af þjóðararfinum. Ef við gerum ekki ráðstafanir til að gæta þeirrar arfleifðar eins og annarra þátta í menningarsögu okkar og menningararfleifð þá kann mikið að fara til spillis sem aldrei verður aftur tekið.

Hvatinn að því að þessi tvö frv. eru flutt má segja að hafi vaknað hjá umhvrn., sem fer með yfirstjórn Landmælinga Íslands. Þar blasti við að endurskoða þyrfti ákvæði varðandi þá nefnd sem fjallar um bæjanöfn og nefnist örnefnanefnd samkvæmt því frv. sem er á þskj. 889, en þetta frv. hefur nokkur tengsl við frv. til laga um Örnefnastofnun Íslands sem er á þskj. 890.

Með frumvörpunum er stefnt að því að ef þau ná lögfestingu verði búinn fullnægjandi lagarammi um stjórn örnefnamálefna, að því marki sem þau heyra undir menntamálaráðuneytið.

Haft var samráð við umhverfisráðuneyti og fulltrúa Landmælinga Íslands hvað varðar þann þátt frumvarps um bæjanöfn er snýr að úrskurðarvaldi um það hvaða örnefni verða sett á opinber landabréf.

Meginatriði frumvarpsins um bæjanöfn o.fl., miðar að því að komið verði á fullnægjandi aðferð til þess í fyrsta lagi að fara með ákvörðunarvald um býlanöfn og nöfn á nýjum þéttbýliskjörnum og í öðru lagi að skera úr um ágreiningsatriði og álitamál um nafnsetningar á landakort og um ný eða breytt gatnanöfn og þess háttar. Um fyrra atriðið hafa verið ákvæði í lögum nr. 35/1953, um bæjanöfn o.fl., og á grundvelli þeirra hefur menntamálaráðherra farið með ákvörðunarvaldið en sérstök nefnd, örnefnanefnd, verið ráðgefandi í því efni. Um síðara atriðið er það hins vegar að segja að um það hafa engin ákvæði verið í lögum til þessa og hefur það í reynd verið bagalegt. Samkvæmt lögum um bæjanöfn o.fl. er örnefnanefnd þó ætlað að vera til ráðgjafar um nafnsetningar á landabréf, en úrskurðar- eða ákvörðunarvald hefur hún ekki á því sviði. Er tímabært að úr þessu verði bætt á viðunandi hátt.

Er hér lagt til að ákvörðunarvaldið um báða þá stjórnsýsluþætti sem nú voru nefndir verði alfarið lagt í hendur nefndarinnar og með þeim hætti að úrskurðir hennar séu endanlegir á stjórnsýslusviði sem táknar að þeim verði ekki skotið undir æðra stjórnvald, þ.e. ráðuneyti, til endurskoðunar. Nefndin sjálf heyrir hins vegar stjórnarfarslega undir menntamálaráðuneyti sem hefur almennt eftirlit með starfi hennar og lögmæti einstakra úrskurða hennar verður jafnframt borið undir dómstóla með venjulegum hætti, ef því er að skipta. Þykir rétt vera og eðlilegt að örnefnanefnd, sem skipuð verður sérfróðum mönnum, fjalli um bæði þau svið örnefnamálefna sem hér var vikið að fremur en að sérstök nefnd starfi á hvoru sviði um sig.

Tekið skal fram að með ákvæðum frumvarps þessa um starfsemi örnefnanefndar er á engan hátt stefnt að því að draga úr núverandi frumkvæði sveitarstjórna varðandi nafngiftir gatna, torga og þess háttar, heldur er hér einungis fjallað um úrskurðarvald vegna ágreinings á því sviði.

Það fyrirkomulag sem hér var lýst er sambærilegt við það form á úrskurðarvaldi um mannanöfn sem verið hefur hin síðari ár samkvæmt lögum um það efni og bærilega hefur þótt gefast. Á þetta m.a. við um tölu nefndarmanna en einnig um það fyrirkomulag að úrskurðir nefndarinnar séu endanlegir. Minnt skal á að þau fræði er lúta að mannanöfnum og örnefnum heyra undir greinina nafnfræði sem er viðurkennd sérgrein á sviði málvísinda.

Ekki þótti að sinni næg ástæða til þess að gera tillögur til víðtækari breytinga á lögum um bæjanöfn en sem svarar til þess markmiðs er hér var lýst.

Gerð er grein fyrir einstökum greinum frv. og menn geta kynnt sér þær á þskj. 889 en þetta eru meginefnisatriði frv.

Þá vík ég að frv. á þskj. 890 um Örnefnastofnun Íslands. Þar er lagt til að sett verði heildarlög um þá starfsemi á sviði örnefnafræða sem fram hefur farið á vegum Örnefnastofnunar Þjóðminjasafns, en um þá stofnun hafa ekki gilt sérstök lagaákvæði. Er hér lagt til að sett verði á stofn sjálfstæð stofnun, Örnefnastofnun Íslands, sem taki við hlutverki Örnefnastofnunar Þjóðminjasafns, en jafnframt verði kveðið skýrt á um hlutverk stofnunarinnar og starfsemi hennar í megindráttum. Er m.a. lagt til að stofnuninni verði skipuð stjórn, en stjórnarnefnd hefur ekki starfað við Örnefnastofnun Þjóðminjasafns þótt hún hafi hins vegar í reynd notið nær fullkomins sjálfstæðis gagnvart Þjóðminjasafni.

Mikilvægt er að tryggt sé, svo sem framast má verða, að Örnefnastofnun Íslands hafi góð tengsl og samráð við sem flesta þá aðila sem starfa á sviðum örnefnafræða, bæði innan lands og utan, svo sem nánar er kveðið á um í 1. gr. frumvarpsins. Skal þá haft hugfast að enda þótt segja megi að kjarni örnefnafræða lúti svonefndri nafnfræði eins og áður var getið, sem er undirgrein málvísinda (í nafnfræði er jafnframt fengist við rannsóknir á mannanöfnum, dýraheitum o.fl.), skarast örnefnafræði við fjölmargar fræðigreinar, svo sem landafræði, almenna sagnfræði, ýmsa þætti almennrar þjóðmenningarsögu, þar á meðal réttarsögu, byggðaþróunarsögu (þar á meðal svokölluð ,,eyðibýlafræði``) og sögu einstakra byggðarlaga, almenna og sérhæfða staðfræði, þjóðfræði (þjóðsagna- og þjóðháttafræði), fornleifafræði (m.a. að því er snýr að fornleifaskráningu), lögfræði (t.d. varðandi landamerkjamál og annars konar mál út af eignarrétti að landi), jarðfræði og gróðurfræði, auk þeirra fræða er lúta sérstaklega að kortagerð. Skiptir miklu máli að til allra þessara fræðaþátta verði horft í starfsemi stofnunarinnar, en einkum varðar miklu að komið sé á traustu samstarfi við Landmælingar Íslands um allt það er örnefnamálefni og staðfræði varðar, við Orðabók Háskólans um hvaðeina er lýtur að nafnfræði sem grein málvísinda og til styrktar rannsóknum á orðaforða tungunnar og við Þjóðminjasafn Íslands um margt er lýtur að fornleifafræði og þjóðfræði.

Meðal annarra Norðurlandaþjóða hefur starfsemi örnefnastofnana yfirleitt mikil tengsl við rannsóknir í nafnfræði (málvísindum), en rétt þykir að við Örnefnastofnun Íslands verði, auk nafnfræðinnar, tekið mið af þörfum ýmissa annarra fræðasviða sem láta sig örnefni varða.

Hér er því eins og ég sagði verið að fjalla um mikilvægan þátt í menningararfi þjóðarinnar og þjóðfræðilegan þátt sem má alls ekki glatast og er mikilvægt að sé skipað með markvissum og greinargóðum hætti eins og lagt er til í þessu lagafrv.

Í greinargerð með frv. er rakin saga Örnefnastofnunar Þjóðminjasafns sem var stofnuð af menntmrh. 23. júní 1969 og ætla ég ekki að rekja þá sögu hér. En hinni nýju stofnun, Örnefnastofnun Íslands er ætlað að taka að öllu leyti við hlutverki Örnefnastofnunar Þjóðminjasafns og halda áfram því þjóðmenningarstarfi sem þar hefur verið unnið. En eins og menn vita hefur Þórhallur Vilmundarson prófessor verið örnefnastofnunin fram til þessa, ef ég má orða það svo. Hann hefur unnið gífurlega mikilvægt og merkilegt starf sem nú verður skipað með þessum hætti verði frv. þetta að lögum og þá tekið við því brautryðjandastarfi sem hann hefur unnið frá árinu 1969.

Ég vil vekja athygli á því að það er hugmynd mín og hefur komið fram, kom síðast fram í dag í ræðu sem ég flutti á ársfundi Rannsóknarráðs Íslands, að setja almenn lög um rannsóknastofnanir á borð við Örnefnastofnun og helst að sameina eitthvað af þeim stofnunum sem sinna rannsóknum, en við Háskóla Íslands eru um 40 stofnanir sem sinna rannsóknum. Ég tel að það þurfi að sameina þessar stofnanir og styrkja þær. Þó að hlutverk þeirra breytist ekki og þær séu skilgreindar á skýran og ákveðinn hátt þá er það markmið mitt að reyna að sameina þessar stofnanir eftir þeim leiðum sem okkur eru færar, ef til vill með rammalöggjöf um rannsóknastofnanir, samanber það að við erum að ræða hér rammalöggjöf um háskóla, en það er seinni tíma mál. En það kemur fram í greinargerð þessa frv. um Örnefnastofnun þar sem segir um 4. gr., með leyfi forseta:

,,Á vegum Háskóla Íslands fer nú fram sérstök athugun á forsendum fyrir auknu samstarfi eða samruna stofnana sem starfa á sviði íslenskra fræða. Sú athugun mun m.a. taka til Örnefnastofnunar.``

Það er því ljóst að með því að setja þessi lög, skipar Alþingi þessum málum með lögbundnum hætti. En það útilokar að sjálfsögðu ekki að Örnefnastofnun verði hluti af stærri heild ef um samruna stofnana á vegum Háskóla Íslands verður að ræða.

Menn hafa haft á orði hvort það sé verkefni á þeim tímum sem við lifum að stofna og koma á fót fleiri ríkisstofnunum. Ég tel að það sé ekki markmið í sjálfu sér. Hins vegar mega menn ekki láta ótta við nýjar ríkisstofnanir aftra sér frá því að taka ákvarðanir um það sem þeir telja skynsamlegt til þess að skipa mikilvægum málum á þann veg að starfsöryggi sé tryggt og tryggt sé með lögum að mikilvægum verkefnum sé sinnt. Þessi tvö frv. miða að því annars vegar að hafa úrskurðarvaldið skýrt varðandi bæjanöfn og staðarnöfn og nöfn á landakortum og hins vegar að því að Örnefnastofnun Íslands starfi á lögbundnum grundvelli með heimild Alþingis og Alþingi fjalli um starfsemi stofnunarinnar og setji henni þau lög sem hér er mælt fyrir um í frv.

Herra forseti. Ég leyfi mér að gera tillögu um að þessum tveimur málum verði vísað til hv. menntmn. og 2. umr.