Bæjanöfn

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 22:46:33 (5233)

1997-04-15 22:46:33# 121. lþ. 102.13 fundur 535. mál: #A bæjanöfn# (örnefnanefnd) frv., 536. mál: #A Örnefnastofnun Íslands# frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[22:46]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Ég vil segja nokkur orð í tilefni þess að hér er mælt fyrir frv. til laga um Örnefnastofnun Íslands. Ég vil taka undir með hæstv. menntmrh. þegar hann segir að varðveisla örnefna sé mikilvægur hluti af varðveislu þjóðmenningararfsins og þess vegna ber okkur skylda til þess að vanda til lagasetningar sem varðar menningararfinn. Ég er fylgjandi frv. og styð það því mjög mikilvægt er að við setjum skýran lagaramma um þau verkefni sem hér er um að ræða.

Eins og fram kemur í grg. með frv. á Örnefnastofnun sér sögu sem út af fyrir sig er merk og vert væri að rifja upp við annað tækifæri. Um aðdraganda þess að Örnefnastofnun varð til má m.a. lesa í því merka riti Kristjáns Eldjárns, Hundrað ár í Þjóðminjasafni, en þar segir fyrrum forseti Íslands og fyrrum þjóðminjavörður frá því að Fornleifafélagið hafi staðið fyrir því að safna örnefnum um langan tíma. Þar höfðu komið að ungmennafélög og átthagafélög sem höfðu lagt hönd á plóg við söfnun örnefna og unnu mjög merkilegt starf sem Fornleifafélagið afhenti síðan Þjóðminjasafninu. Það var hins vegar ekki fyrr en 1952 að skipulega var farið að vinna að söfnun og skráningu örnefna og síðan, eins og kom fram í ræðu hæstv. menntmrh., er það 1969 sem Örnefnastofnun er sett á laggirnar með sérstöku bréfi þáv. menntmrh.

Örnefnastofnunin hefur starfað í tengslum við Þjóðminjasafnið án þess að bein stjórnunarleg tengsl væru þar á milli. Með þessu frv. er hins vegar tekinn af allur vafi um skipulagið og ég tel að það sé mjög mikilvægt og allt til bóta. Örnefnastofnunin er merkilegt sambland af, eins og frv. gerir ráð fyrir, rannsóknar- og háskólastofnun og safni þannig að ekki er óeðlilegt að tekið sé tillit til þess. Í 4. gr. frv. þá er gert ráð fyrir því sem ég tel að sé mjög mikilvægt og í þeim anda sem ég tel að sé æskilegur sé til að vinna að þessum málum, þ.e. að menn gæti sín á því að nýta það sem fyrir er, nýta þær stofnanir sem eru til staðar og hafa möguleika, aðstöðu og getu til þess að sinna slíkum verkefnum. Og ég tel að það sé í fyllsta máta eðlilegt, eins og fram kemur í frv., að hægt sé að setja Örnefnastofnun Íslands, á grundvelli þessara laga, í fóstur hjá annarri stofnun, þ.e. að hinum rekstrarlega þætti mætti sinna frá stærri stofnun án þess að hún þurfi að gleypa viðfangsefni Örnefnastofnunar. Með þessu skipulagi er hins vegar gert ráð fyrir því að þarna komi að bæði fulltrúar frá háskólanum og Þjóðminjasafninu sem myndi stjórn Örnefnastofnunarinnar og með því tel ég að hinum fræðilega og faglega þætti sé vel sinnt.

En vegna þess að fyrr í kvöld var mælt fyrir frv. til laga um breyting á þjóðminjalögum þá vil ég geta þess að ástæðan fyrir því frv. er m.a. að unnið hefur verið að endurskipulagningu á innra starfi Þjóðminjasafnsins. Þar hefur verið unnið mjög mikil stefnumótunarvinna af hálfu starfsmanna safnsins með tilstyrk sérfræðinga á sviði stefnumótunar og í framhaldi af þeirri vinnu er gert ráð fyrir að breyta mjög skipulagi og uppbyggingu innra starfs í Þjóðminjasafnsins.

Mér finnst, og ég vil láta það koma fram við þessa umræðu, að það sé ekkert óeðlilegt að Örnefnastofnun Íslands gæti áfram tengst Þjóðminjasafninu einhvern veginn. Eins og fram kom í ræðu hæstv. menntmrh. tengjast verkefni Örnefnastofnunar mjög mörgum þáttum, m.a. þjóðháttarannsóknum. Í Þjóðminjasafninu er nú sérstök þjóðháttadeild, sem tengist örnefnarannsóknum og væri ekkert óeðlilegt að svo yrði um hnúta búið að Þjóðminjasafnið og Örnefnastofnun gætu áfram unnið saman og styrkt þannig þessa starfsemi.

Ég tel ekki ástæðu til þess, hæstv. forseti, að hafa fleiri orð um þetta frv. Það er skýrt og gefur möguleika á að skapa öflugri ramma um þessa starfsemi með samstarfi háskólans og Þjóðminjasafnsins á vegum þessarar stofnunar. Ég tel það af hinu góða og lýsi yfir stuðningi við frv.