Íþróttalög

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 23:59:20 (5251)

1997-04-15 23:59:20# 121. lþ. 102.16 fundur 543. mál: #A íþróttalög# (heildarlög) frv., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[23:59]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hér er fram komið frv. til íþróttalaga. Það er tímabært að endurskoða þá löggjöf sem landsmenn hafa búið við þó að rétt sé sem fram hefur komið að Íslendingar hafa um langa hríð búið að mörgu leyti við betri lög um íþróttir og íþróttastarfsemi en aðrir. Frv. er til stórra bóta og eru þar miklar framfarir sem taka mið af breytingum sem orðið hafa síðustu ár og áratugi og endurspeglar frv. enn þá festu og skýrleika sem kemur fram í skipulagi íþróttamála hér á landi. Erlendar þjóðir öfunda okkar af þessum skýru og einföldu lögum og fyrirkomulagi sem birtast í því að hér eru tvö meginsamtök, ÍSÍ og UMFÍ svo ég noti skammstafanirnar, en önnur félög eða þau félög sem kjósa að standa þar fyrir utan skipa hvorki sama sess stjórnskipulega né njóta þess sama af þeim sjóðum sem tiltækir eru til íþróttamála. Þetta er nauðsynlegt og reynsla annarra þjóða sem þurfa að búa við það að tugir eða hundruð félaga af ýmsum stærðum og gerðum með margvíslegar stefnuskrár, vandamál og viðfangsefni --- við slíkt þurfa stjórnvöld erlendis að glíma með þeim erfiðleikum sem því fylgja. Eins og ég gat um áðan endurspeglar frv. til laganna sem hér er lagt fram þennan einfaldleika og skýrleika sem ég tel vera meginatriði.

Eins og fram hefur komið í máli hæstv. ráðherra og hv. þingmanna er eðlilegt vegna sögulegra staðreynda og fyrirkomulagsins að hér séu tvö jafnrétthá sambönd, þ.e. Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands. Það er óþarfi að rekja það hér að Íþróttasamband Íslands starfar með miklum myndarbrag og starfsemi þess er hvað öflugust hér á höfuðborgarsvæðinu og reyndar víða í þéttbýli. Fjölþættar íþróttir eru þar á dagskrá. Mun víðtækari starfsemi, þó svo hún sé ekki að öllu leyti jafnöflug alls staðar um landið, en mun víðtækari eða fjölþættari vildi ég segja, er hjá Ungmennafélagi Íslands. Ungmennafélag Íslands er eins og þingheimur veit stofnað 1907. Þar fer fram starf, einkum á landsbyggðinni, ekki aðeins íþróttir heldur félagsstarf, leiklist, landgræðsla, skógrækt og vitna má til landsmótanna þar sem jafnvel er keppt í stafsetningu og starfsíþróttum. Þessi fjölbreytileiki sem birtist hjá Ungmennafélagi Íslands og verkaskipting sem jafnvel má greina eftir þeim landfræðilegu þáttum sem ég gat um áðan, þ.e. höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, er til mikilla bóta og styrkir bæði samstökin. Þessir aðilar eiga að vera jafnréttháir og það kemur hér fram í skipan menntmrh. í íþróttanefnd og eins í því að Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands koma fram fyrir hönd frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu öllu gagnvart stjórnvöldum. Þegar ég las þetta frv., þá las ég það með þeim skilningi að þessi samtök kæmu bæði fram fyrir hönd Íslands á erlendri grund, bæði með þátttöku í mótum og eins stjórnskipulega. Það var minn skilningur þegar ég las það, en ég hef heyrt mál hæstv. menntmrh. og mun taka þátt í því starfi og umfjöllun sem málið fær í menntmn.

Ég vil einnig fagna því sérstaklega að landinu er skipt í íþróttahéruð. Það er í samræmi við hina skýru skipan sem hér þarf að vera. Eins fagna ég 8. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Alþingi veitir árlega fé í Íþróttasjóð til eflingar íþróttum í landinu. Íþróttanefnd hefur umsjón með Íþróttasjóði ...``

Þarna er mikilvægt ákvæði og Íþróttasjóður hefur reynst burðarásinn í mörgu af því íþróttastarfi sem efla hefur þurft í landinu.

Ég orðlengi ekki frekar um þetta efni en fagna því að hér er komið fram frv. um þessi efni. Því miður er allt of sjaldan rætt um íþróttastarfsemi í þessum þingsölum jafnmikilvægt og málið er. En ég ætla ekki að fara orðum um það heldur einungis að benda á að hér er eitthvert mikilsverðasta framlag sem ríkið getur lagt í margvíslegu forvarnastarfi og uppeldisstarfi á þeim viðsjárverðu tímum sem núna blasa við ungmennum sem alast upp í landinu.