1997-04-16 00:23:55# 121. lþ. 102.18 fundur 423. mál: #A afmæli Sinfóníuhljómsveitar Íslands# þál., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[24:23]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í tilefni af þessari tillögu vil ég aðeins láta þess getið að að sjálfsögðu get ég ekki verið andvígur henni, þ.e. því að Alþingi og ríkisstjórnin láti undirbúa sérstaklega afmælisár Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 2000 þegar hljómsveitin verður 50 ára. Það er spurning hvort það þarf að samþykkja sérstaka ályktun hér til þess að menn hefjist handa við að undirbúa þetta afmæli. Ég tel að það verði best gert með því að taka ákvarðanir sem fyrst um byggingu tónlistarhúss sem verði heimili sinfóníuhljómsveitarinnar þannig að henni verði búin sú starfslega umgjörð sem nauðsynleg er til þess að hún fái dafnað hér við hinar bestu aðstæður.

Þá vek ég athygli á því að árið 1999 er 100 ára afmæli Jóns Leifs og menntmrn. hefur þegar hafið viðræður við sinfóníuhljómsveitina um það mál og gæti það líka vel tengst 50 ára afmæli hljómsveitarinnar því að mörg stórvirki eftir Jón Leifs eru óflutt og er sjálfsagt að líta til slíkra stórverkefna þegar hljómsveitin heldur upp á sitt 50 ára afmæli.

Einnig tel ég nauðsynlegt að endurskoða lögin um Sinfóníuhljómsveit Íslands, laga þau að breyttum og nýjum kröfum um opinberan rekstur og einnig stjórnsýslulögum og öðrum þeim ákvæðum sem við þurfum nú að hafa mjög til hliðsjónar við allar okkar ákvarðanir. Einnig tel ég að það beri að semja við hljómsveitina eins og aðrar ríkisstofnanir um fjárveitingar og skapa henni þannig starfsöryggi til lengri tíma og þá líka þróunarramma sem samkomulag verður um. Að þessu öllu mun ég vinna í menntmrn. og vona að við náum þeim árangri að hljómsveitin verði árið 2000 í betra umhverfi og starfi við betri aðstæður en hún gerir núna.