Launakjör karla og kvenna

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:06:50 (5277)

1997-04-16 14:06:50# 121. lþ. 103.3 fundur 499. mál: #A launakjör karla og kvenna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SF
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:06]

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir):

Herra forseti. Ég spyr hæstv. fjmrh. hvaða áhrif hann telur að nýlegur dómur Hæstaréttar um jafnan rétt karla og kvenna til launa hafi á kjör og launaþróun almennt á vinnumarkaðinum hér. Dómur þessi varðar laun útsendingarstjóra hjá ríkissjónvarpinu, karls og konu, sem voru í sama starfi. Í þessum dómi vinnur konan mál, þar sem grunnlaun hennar eru lægri en grunnlaun karls sem er í sama starfinu.

Í dómskjölum kemur fram að ríkið telji að bera verði saman heildarkjör þessara tveggja einstaklinga, þ.e. grunnlaun sem og aðra þætti eins og lífeyris-, orlofs- og veikindarétt. Þannig sé hægt að sanna hvort það sé munur á launum þeirra. Ríkið gerði hins vegar ekkert til þess að upplýsa um heildarkjör þessara starfsmanna og í dómnum segir að samkvæmt almennum sönnunarreglum standi það ríkinu nær að sýna fram á að hlutlægar ástæður hafi ráðið launamuninum en þó ekki kynferði. Það hafi ríkið ekki gert og mismunandi kjarasamningar geti ekki einir sér réttlætt launamismun karla og kvenna. Því vinni konan málið og hún eigi að hafa sömu grunntaxtalaun og karlinn. En eins og allir vita og ríkisvaldið hefur oft haldið á lofti í kjarasamningaviðræðum eru tiltölulega lág taxtalaun ríkisins réttlætt með því að ýmis önnur réttindi, lífeyrisréttindi, orlofs- og veikindaréttur, séu betri hjá ríkinu en á almenna vinnumarkaðinum og því spyr maður sig nú í kjölfar dómsins: Gæti karlmaðurinn, sem samkvæmt hæstaréttardómnum á að vera á sömu grunnlaunum og konan, kært á grundvelli jafnréttislaga þar sem hann væri að sínu mati verr staddur en konan eftir dóminn, þ.e. hann nýtur ekki sömu kjara og hún því að hans lífeyris-, orlofs- og veikindaréttur er trúlega minna virði en hennar? Leiðir ekki þessi dómur því til þess að það þurfi að samræma öll kjör innan vinnustaða þar sem mismunandi kjarasamningar geta ekki réttlætt mismunandi laun kynja? Mitt mat er að þessi dómur sé skilaboð um að það verði að eiga sér stað heildarsamræming á launum innan fyrirtækja eða vinnustaða og færa samninga um kaup og kjör meira út á vinnustaði.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála þessu mati mínu.

Þessi dómur vekur líka upp þá spurningu til hverra ráða hefði verið gripið ef viðkomandi kona hefði ekki verið í nákvæmlega sama starfinu og karlmaðurinn heldur í að hennar mati jafnverðmætu og sambærilegu starfi því að í jafnréttislögum segir að konum og körlum skuli greidd jöfn laun og þau skuli njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Hvar liggur sönnunarbyrðin? Hver á að skera úr um hvort starf sé jafnverðmætt eða sambærilegt? Slíkt er varla hægt hér á landi nema með starfsmati sem við Íslendingar höfum ekki notað í dómsmálum svo ég viti til, enda er ekki til nein miðlæg, viðurkennd stofnun sem hefur reynslu á því að framkvæma starfsmat sem hægt er að byggja á. Það má því segja, þótt það sé mjög harður dómur, að jafnréttislögin okkar eru gagnslítil gagnvart launamálum kynja þar sem við höfum engin tæki til þess að framfylgja þeim. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann telji að þessi niðurstaða dómsins kalli á það að við verðum að koma okkur upp einhverju tæki, svo sem starfsmati til þess að geta borið saman hvaða laun séu jafnverðmæt og sambærileg eins og jafnréttislögin segja til um.