Aðgerðir gegn skattsvikum

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:29:58 (5283)

1997-04-16 14:29:58# 121. lþ. 103.4 fundur 566. mál: #A aðgerðir gegn skattsvikum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:29]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég hef reyndar ekki lesið þessa grein í Hagtölum mánaðarins en þykist vita nokkurn veginn um hvað sú grein snýst. Ég hygg að nákvæmlega sömu atriðin og hv. þm. minntist á komi fram í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar fyrir árið 1997, nánar tiltekið á bls. 265 og 266, þar sem fjallað er í nokkrum liðum um það hvað veldur því að virðisaukaskatturinn skilar sér síður nú en áður. Ég ætla ekki hér og nú, það hef ég gert áður, að fjalla sérstaklega um það en af því að hv. þm. minntist á innlendu framleiðsluna eða innlendu starfsemina og innflutninginn, þá liggur það í augum uppi að langsamlega stærsti hluti skýringarinnar liggur í því að aðili, sem starfar hérlendis í atvinnustarfsemi og er að fjárfesta, getur dregið fjárfestinguna frá sem innskatt og þar með lækkað virðisaukaskattsskil sín til stórkostlegra muna eða þar til framleiðslan eykst og skilar þá eðli máls samkvæmt meiri virðisaukaskatti. Það geta liðið nokkur ár þangað til þau skil síðan koma fram. Þetta er alþekkt, ekki bara hér á landi heldur einnig annars staðar og hefur verið fjallað um það rækilega af hálfu ráðuneytisins.

Þessi mál eru reyndar til frekari könnunar núna og ég benti á það í svari mínu áðan að við ætlum að auka eftirlitið í virðisaukaskattinum. Ég kemst heldur ekki hjá því að benda á að Alþingi hefur á undanförnum árum sérstaklega hækkað allar refsingar og aukið varðandi það að menn hafi ekki staðið í skilum með svokallaða vörsluskatta, þ.e. aðilar sem hafa heimt inn skatta frá þriðja aðila en ekki staðið skil á slíkum sköttum til ríkissjóðs og það hefur þegar haft sín áhrif eins og ég hélt að alþjóð vissi.