Skattundandráttur

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:35:48 (5285)

1997-04-16 14:35:48# 121. lþ. 103.5 fundur 568. mál: #A skattundandráttur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:35]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Sú nefnd sem hv. fyrirspyrjandi vísar til var skipuð af fjmrh. í nóvember 1992. Nefndin skilaði skýrslu 1993 og gerði tillögur um aðgerðir í 11 liðum til að draga úr skattsvikum. Í október 1994 var skipuð sérstök framkvæmdanefnd sem m.a. hafði það hlutverk að koma tillögum skattsvikanefndar frá árinu 1993 í framkvæmd og í þeirri nefnd eiga sæti m.a. ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri.

Eins og fram kom er búið að hrinda í framkvæmd flestum þeim atriðum sem lögð voru til á árinu 1993, en nokkur eru enn í vinnslu og fyrirspurnin beinist einkum að þeim.

Að því er varðar a-lið fyrirspurnarinnar um reiknað endurgjald er það að segja að framkvæmdanefndin hefur unnið að athugun á þessu máli og má vænta endanlegra tillagna hennar á næstu vikum. Málið er reyndar nokkuð flókið en hugmyndin að baki reiknuðu endurgjaldi er að sjálfstætt starfandi menn greiði tekjuskatta eins og um launamenn væri að ræða og afkoma rekstrar komi fram að teknu tilliti til eðlilegrar launagreiðslu til eigenda. Sjálfstætt starfandi mönnum er því gert í upphafi hvers staðgreiðsluárs að áætla vinnuframlag sitt á því ári og meta það eins og um væri að ræða launþega og tilkynna það til skattstjóra og inna staðgreiðslu af hendi í samræmi við þá áætlun.

Framkvæmdanefnd gegn skattsvikum hefur fjallað um þá gagnrýni sem reiknað endurgjald sjálfstætt starfandi manna hefur sætt í þjóðfélaginu og tengd hefur verið möguleikum til skattundandráttar. Nefndin hefur kannað tilteknar atvinnugreinar sérstaklega. Borin voru saman skattframtöl, skilagreinar fyrir reiknað endurgjald í staðgreiðslu og greinargerð um reiknað endurgjald sem ber að skila í upphafi staðgreiðsluárs.

Í könnuninni kom einnig fram að 15% álag á reiknað endurgjald sem ríkisskattstjóra ber að bæta við viðmiðunarfjárhæðir sínar við áætlun staðgreiðslu þessara aðila hafi engin áhrif hjá tekjuhærri hópnum. Ástæðan er sú að hækkun viðmiðunarfjárhæðar kemur aðeins niður á lakari rekstrarafkomu fyrirtækis og oft og tíðum er reiknað endurgjald þessara aðila miklu hærra en sem nemur umræddri heimild 15% álagsins. Hjá tekjulægri hópunum virðist rekstrarafkoman ákvarða meira hið endanlega reiknaða endurgjald við álagningu án tillits til reiknaðs endurgjalds í staðgreiðslu.

Nefndin telur ákaflega þýðingarmikið að breytingar á reiknuðu endurgjaldi fari fram hjá skattstjórum innan staðgreiðsluársins þegar tilefni þykja vera til slíks.

Framkvæmdanefndin telur að núgildandi lagaákvæði um reiknað endurgjald og þær takmarkanir sem skattstjórum eru settar í lögum hafi verið mjög til þess fallnar að draga úr skilvirkni tekjuskattslaga hvað varðar reiknað endurgjald. T.d. má skattstjóri ekki breyta reiknuðu endurgjaldi til hækkunar ef tap sem af þeirri hækkun stafar er hærra en reiknaðar fyrningar og reiknuð gjaldfærsla verðbreytingafærslu. Til grundvallar takmörkun skattstjóra til endurákvörðunar af reiknuðu endurgjaldi lá svo á sínum tíma það sjónarmið að baki að rekstrarlegur hagnaður án reiknaðra frádráttarliða stæðu að baki reiknuðu endurgjaldi.

Framkvæmdanefnd telur að reynslan af þessu ákvæði gefi ríkt tilefni til rækilegrar endurskoðunar. Eftirfarandi breytingar eru nú til skoðunar í framkvæmdanefndinni:

1. Að leggja ríkari kvaðir á menn með eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi til að ákvarða sér reiknað endurgjald við upphaf rekstrar og tilkynna allar breytingar á vinnuframlagi sínu, maka og barna um leið og breytingin á sér stað á staðgreiðsluári.

2. Að afnema takmörkun hámarks reiknaðs endurgjalds við tap sem er umfram almennar fyrningar og gjaldfærslu samkvæmt 53. gr. skattalaga.

3. Að við álagningu tekjuskatta verði ekki fallist á lækkun reiknaðs endurgjalds frá staðgreiðslu. Öll breyting á reiknuðu endurgjaldi fari fram á staðgreiðsluári og hvorki maki né börn geti reiknað sér endurgjald í álagningu nema fyrst hafi verið úrskurðað með staðgreiðslu hennar. Í því sambandi mætti afnema heimild til að halda reiknuðu endurgjaldi barna utan staðgreiðslu.

4. Að endurskoða ákvæði launa- og arðgreiðslu til einstaklinga frá félögum. Eftir setningu laga um fjármagnsskatt skiptir þetta verulegu máli.

Um b-lið fyrirspurnarinnar skal það eitt sagt að nú hefur það verið gert með embætti skattrannsóknastjóra með því að setja honum erindisbréf að eitt af því sem hann á að gera er að tína saman skýrslu um alla refsidóma í skattalagabrotum, bókhaldsbrotum og brotum á lögum um ársreikninga.

Varðandi c-liðinn get ég ekki tímans vegna sagt annað en það að í erindisbréfi skattstjóra sem er verið að gefa út kemur fram sérstaklega og þar er sett það markmið að ákvarða leiðir og draga úr svartri atvinnustarfsemi þannig að eitt af þeim aðalverkefnum sem þeim ber að vinna að er að taka á slíkri starfsemi.

Ég vona, virðulegi forseti, að þetta svari fyrirspurnunum eins og til stóð.