Skattundandráttur

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:41:10 (5286)

1997-04-16 14:41:10# 121. lþ. 103.5 fundur 568. mál: #A skattundandráttur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:41]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir skýr og skilmerkileg svör við fyrirspurnum mínum. Ég held að það sé alveg augljóst miðað við svör ráðherra sem hann gefur við fyrsta lið þessarar fyrirspurnar um endurskoðun á reiknuðu endurgjaldi hjá sjálfstætt starfandi einstaklingum að það er mjög brýn þörf að endurskoða þessar mats- eða viðmiðunarreglur og kannski enn brýnni þörf heldur en fram kemur raunverulega í skýrslu nefndarinnar. Það er greinilegt að töluvert starf hefur verið unnið á vegum ráðherra til þess að skoða þetta mál. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki einfalt hvernig á að taka á þessu. Það eru alls ekki allar stéttir sem eru undir þá gagnrýni seldar að reiknað endurgjald sé mjög lágt, en framkvæmdanefnd á vegum ráðherra sem vinnur að tillögum og aðgerðum gegn skattsvikum er að skoða þetta mál. En ég spyr hæstv. ráðherra: Telur ráðherrann að til þurfi að koma lagabreytingar til að endurskoða þessar reglur eða breyta þeim eða er hægt að gera það með reglugerð eins og mér skilst að hafi verið gert hingað til? Kallar þetta á lagabreytingar?

Varðandi hina tvo þættina þá veit ég ekki til þess, eins og kemur fram varðandi opinbera birtingu refsidóma, að skattrannsóknarstjóraembættið hafi gert það sem nefndin lagði til, þ.e. að kynna opinberlega birtingu refsidóma og sá liður í svari ráðherra fannst mér nokkuð óljós.

Um þriðja liðinn svaraði ráðherra því til að það kæmi fram í erindisbréfi til skattstjóra að þeir ættu að hafa forgöngu um stefnumótun ef ég skildi málið rétt. Tillögur nefndarinnar frá 1993 gengu út á það að ráðuneytið sjálft ætti að hafa forgöngu um stefnumótun, vafalaust til þess að hún væri samræmd hjá öllum skattembættunum. Þess vegna fannst mér það svar ekki fullnægjandi.