Skattundandráttur

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:43:38 (5287)

1997-04-16 14:43:38# 121. lþ. 103.5 fundur 568. mál: #A skattundandráttur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:43]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi segja frá því varðandi c-lið fyrirspurnarinnar sem hv. þm. endaði sitt mál á að gert er ráð fyrir því að skattyfirvöld leggi fram árlega starfs- og rekstraráætlun sem ráðuneytinu ber að taka afstöðu til. Með því verður öll vinna í skattkerfinu markvissari og stefnumótun þá sett fram til nokkurra ára í senn en það verður tryggt að að þessu verður unnið með því að setja þetta í erindisbréf skattstjóranna.

Varðandi opinberun á skýrslu um refsidóma í skattalagabrotum, bókhaldsbrotum og brotum á öðrum lögum, t.d. lögum um ársreikninga, þá verður þessi skýrsla birt opinberlega. Það stendur til að gera það.

Loks varðandi það sem hv. þm. byrjaði á, þá er hægt að breyta sumu af þessu í reglugerð, og reyndar kannski bara með starfsháttum skattstjóranna, en líkast til verður að taka við næsta umgang, sem er venjulega á næsta missiri, upp eitt eða tvö atriði, t.d. það atriði að afnema takmörkun hámarks reiknaðs endurgjalds við tap sem er umfram almennar fyrningar og gjaldfærslu en það er í 53. gr. skattalaganna þannig að það kann að þurfa að taka einhver atriði inn í skattalagabreytingar.