Reglugerð um ferðakostnað sjúklinga

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 15:01:06 (5294)

1997-04-16 15:01:06# 121. lþ. 103.6 fundur 454. mál: #A reglugerð um ferðakostnað sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:01]

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og hv. þm. þátttökuna í umræðunni. Ég vil vekja sérstaka athygli á því sem kom fram í svari ráðherra um að hún teldi að það ætti að auka sérfræðiþjónustuna úti á landi og við hljótum að geta tekið heils hugar undir það. Hún nefndi einnig að sú upptalning sem kemur fram í reglugerðinni væri eingöngu dæmi um sjúkdóma og það væri alltaf mat hvaða sjúkdómar ættu að vera þarna inni. Ég veit hins vegar til þess að Tryggingastofnun hefur afgreitt úrskurði sína þannig að það hefur verið litið mjög strangt á nákvæmlega þá sjúkdóma sem þarna eru taldir upp og öðrum hafnað á þeim forsendum að þeir séu ekki nefndir í reglugerðinni. Mér þykir þess vegna gott að heyra það að ráðherrann telji að þarna verði að leggja annað mat á. Einnig að reglugerðin verði að vera í stöðugri endurskoðun. Ég held að þau atriði sem þarf að hafa sérstaklega í huga þegar reglugerðin er endurskoðuð séu jafnræði borgaranna til aðgengis að sérfræðiþjónustu og hátæknisjúkrahúsum. Gengið verði út frá því að sérfræðiþjónusta sem ekki er fyrir hendi í heimabyggð sé gerð aðgengilegri með aðstoð við greiðslur á ferðakostnaði og einnig að gengið sé út frá því að fólki sé ekki mismunað eftir því hvaða sjúkdómar hrjá það og að reglurnar séu gerðar skýrar. Þá mætti líka gjarnan auka úrskurðarvald tryggingarumboðsmanns á hverjum stað því að svo virðist sem ekki sé mjög skýrt hvernig það vald er.