Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 16:20:58 (5364)

1997-04-17 16:20:58# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[16:20]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég taldi það næsta víst að hv. 15. þm. Reykv. færi í andsvar. Hann hefur einhvern tíma farið í pontu af minna tilefni.

Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hér liggur fyrir. Eins og oftast er stiklað á stóru, farið yfir sviðið og margt eru það gamlir kunningjar sem koma fram. Ég vil þó byrja á því, vegna þeirrar umræðu sem orðið hefur um Efnahagsbandalag Evrópu, EES og þá hluti, að segja að ég er sannfærður um að eitt það mikilvægasta sem Íslendingar þurfa að gera á næstu árum til þess að viðhalda efnahagslegu sjálfstæði sé að breyta sinni viðskiptastefnu og stefna að því að viðskipti við Efnahagsbandalagið og ríki því tengd verði ekki meir en 50% af heildarviðskiptum Íslendinga. Við erum allt of háðir þessari blokk og það sem verra er, óhagstæðustu viðskipti okkar á mjög mörgum sviðum koma frá þessu svæði. Flestir vita að dýrasta svæði heims í innkaupum á vörum er Evrópa, Ameríka kemur þar á eftir en Asía er ódýrust. Þetta þekkja flestir og þarf ekki að hafa mörg orð um. Hitt er svo staðreynd að það þarf mikið skipulag í samgöngum til þess að geta hagnýtt sér það að eiga viðskipti við þau svæði heimsins þar sem varan er ódýrust.

Ég hef ástæðu til að halda því fram líka að ég hef litla trú á Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Forveri hennar afrekaði það eitt að koma af stað styrjöldinni í Júgóslavíu með því að leggja til að Júgóslavíu yrði skipt og hugsaði ekkert um afleiðingarnar. Það er mikil háðsferð fyrir Evrópu að hafa í þriðja skipti á þessari öld orðið að biðja um bandarískan her til að hægt væri að koma á friði í Evrópu. Það er ekki sterk heimsálfa sem þarf í þriðja skipti á sömu öldinni að biðja um bandarískan her til að stilla til friðar í eigin herbúðum. Það er varla hægt að hugsa sér ömurlegra hlutverk heillrar heimsálfu en að lenda í slíku. Sumir virðast ekki hafa skilning á því að Bandaríkjamenn hafa ekki áhuga á að senda her til þess að egna Rússa út af deilum á milli ríkja sem þeir drottnuðu yfir og þess lands sem nú er stjórnað á lýðræðislegan hátt, þó lýðræðið sé veikt, þeir virðast ekki skilja það, en það er ekki áhugi í Bandaríkjunum fyrir því að senda bandaríska þegna til þess að falla á erlendri grundu, í Evrópu. Á því er ekki áhugi. Mönnum finnast kirkjugarðarnir í Evrópu vera nægilega stórir þar sem kross er við kross, með bandarískum hermönnum sem féllu um tvítugt í seinni heimsstyrjöldinni og þeirri fyrri.

Ég vil undirstrika að ég er sammála því sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich sagði um þróunina í Rússlandi. Það er grundvallaratriði að efnahagsmál Rússlands þróist til betri vegar ef lýðræðið á að halda þar velli og það er stærsta öryggismál Evrópu að lýðræðið í Rússlandi haldi velli. Því miður hefur ekki verið skilningur hjá mörgum ríkjum Evrópu í þessum efnum. Það er ekki aðeins að þau hafi ekki stutt Rússa heldur beinlínis unnið gegn þeim, unnið gegn því að þeir næðu vopnum sínum í efnahagslegri framþróun. Í þessu sambandi vil ég minna á að þeir voru þvingaðir til að skrifa undir samninga um takmarkaðan útflutning á áli. Þeir áttu möguleika á að selja ál og rétta við sína stöðu að einhverju leyti en þeir voru þvingaðir til að skrifa undir það að þeir takmörkuðu þennan útflutning.

Ég ætla að bæta fleiru við. Það getur enginn sagt um þjóð sem hefur kjarnorkuvopn undir höndum að hennar herstyrkur sé lítill. Þá skilja menn ekki hvað kjarnorkuvopn eru ef þeir halda slíku fram. En ef þjóð sem hefur kjarnorkuvopn er þvinguð niður á það stig að hungursneyð ríki, þá hlýtur hún annað hvort að beita sínum kjarnorkuvopnum eða selja þau fyrir brauð. Það væru hálfvitar sem stjórnuðu þessum löndum ef þeir gerðu ekki annað hvort og við skulum ekki gera ráð fyrir þeim möguleika. Ég styð lýðræðisþróunina í Rússlandi heils hugar og mér finnst að sé horft yfir Evrópu, þá hafi einn þjóðhöfðingi í Evrópu haft skilning á því að það bæri að styðja þessa lýðræðisþróun og það er Kohl, kanslari Þýskalands. Það var athyglisvert að þegar Berlín tilheyrði hinu nýja, þýska ríki, þá lét hann senda burtu matvælabirgðir Berlínar með herbílunum sem þar voru, yfir til Austur-Þýskalands og inn á það svæði sem fyrrum hafði tilheyrt Sovétríkjunum, til þess að færa þeim mat. Þjóðverjar sendu líka tæknimenn til Rússlands til þess að vinna að því að þar yrðu framfarir, m.a. í bílnaiðnaði.

Nú er tekist á um það hvað eigi að gera á þessu svæði. Sem betur fer hefur sú niðurstaða orðið að Rússum hefur verið lánað fé svo að þeir geti greitt sínum embættismönnum laun. Ef það hefði ekki verið gert þarf ekki annað en hugleiða hvernig íslenskir embættismenn hefðu brugðist við hefði verið hætt að borga þeim kaup. Við erum nú í þeirri stöðu að þeir fara þá gjarnan í verkfall þó þeir fái nú kaup af því að þeir vilja fá meira kaup. Hvernig haldið þið að ástandið væri hér ef við hættum nú alveg að borga þeim kaup? (Gripið fram í: Ekkert kaup?) Yrði auðvelt að stjórna á eftir? Auðvitað gengi það aldrei upp og auðvitað hefði Rússland logað í innanríkisátökum þar sem herinn hefði tekið völdin ef ekki hefði verið gripið inn í þessa þróun mála. En allt tengist þetta öðrum og stærri hlutum.

Við Íslendingar höfum haldið uppi vissum ófriði á hendur einni þjóð að undanförnu vegna þess að okkur finnst að einn af þegnum hennar hafi brotið af sér gagnvart Íslendingum. Hann fór með tvær ungar stúlkur sem voru dætur hans frá Íslandi til Tyrklands. Við höfum sótt það mál að þessar stúlkur komi aftur hingað heim. Þetta hefur verið kynnt í sjónvarpi, blöðum og alls staðar. Ég hef verið hlynntur því að þetta væri gert. En allir hljóta að hafa fundið það hvílíka andúð þetta hefur skapað á Tyrkjum. Þið hljótið að hafa fundið það ef þið skynjið andrúmsloft í íslenskri þjóðarsál. Hvaða andrúmsloft skyldi þá ríkja innan ríkja araba í dag ef skoðuð er sú staða að Ísraelsmenn sitja yfir hlut vissra hópa úr þeirra sveitum, þ.e. Palestínuaraba og grjótkastið eitt er vopn æskumanna gegn vel vopnuðum her Ísraels. Það þýðir ekkert að segja: Menn eiga ekki að vera skæruliðar, menn eiga ekki að grípa til örþrifaráða. Það þýðir ekkert að halda slíku fram. Jafnvel á Vesturlöndum gerist það að menn brjálast, taka hríðskotabyssur og skjóta á mannfjöldann í kringum sig þegar eitthvað brestur innra með þeim. Og það hefur brostið innra með öreigum á þessu svæði mikið af því sem kalla má heilbrigða skynsemi þannig að í þeirra röðum eru menn sem svífast einskis. Ég ætla ekki að verja þá staðreynd að þeir drepa saklaust fólk. Ég vil aftur á móti halda því fram að það nálgist sturlun, ástæðan fyrir því að þetta er gert.

Við þurfum ekki annað en fara til Írlands til að sjá hverjar afleiðingarnar eru þegar setið er yfir þjóð jafnlengi og Bretar hafa gert þar. Við sjáum að þar eru notaðar mjög svipaðar aðferðir og arabar gera í Ísrael. Ég vil halda því fram að ástandið í Ísrael sé hættulegra en nokkurt annað í þessum heimi gagnvart heimsfriðinum, nokkurt annað í þessum heimi. Og að því leyti er ábyrgð Íslendinga stór að í góðri trú og af góðum vilja á sínum tíma unnum við að því mjög dyggilega að þetta ríki varð til. Ekkert smáríki í heiminum átti stærri þátt í því að Ísraelsríki varð til en Ísland. Þess vegna hlýtur okkar ábyrgð einnig að vera stór. Það er nefnilega staðreynd að þjóð sem hefur ekki fengið fyrirmæli frá sínum guði í meira en þúsund ár er með ansi gömul fyrirmæli um það hvernig hún eigi að hegða sér og það er ákaflega erfitt að halda uppi við hana vitsmunalegum viðræðum um að komnar séu leikreglur sem stangist á við hin gömlu fyrirmæli. Þess vegna standa málin þannig að það sem Ísraelsmönnum er heilagt og þeir vilja verja, eins og m.a. að Jerúsalem verði höfuðborg þeirra, er og verður óásættanlegt gagnvart þeim leikreglum sem þjóðir heimsins hafa komið sér saman um í dag sem eru á þann veg að herteknu landi beri að skila.

Við höfðum skilning á því að Rússar ættu ekki að sitja yfir Tékkóslóvakíu. Við höfðum skilning á því að þeir ættu ekki að sitja yfir Litáen og við höfðum skilning á því að þeir ættu ekki að sitja yfir Póllandi. Herteknum löndum ætti að skila. Höfum við skilning á því að Ísrael eigi ekki að sitja yfir Palestínuaröbum? Trúum við því að réttur þeirra til landsins vegna þess að þeir áttu þarna heima fyrir um þúsund árum sé svo sterkur að allt annað verði að víkja? Ef við trúum því þá hljótum við að gera tilkall, ekki til Smugunnar heldur til Noregs. Þaðan erum við komnir. Það er ríkið sem við flýðum vegna skattheimtu, ósanngjarnrar skattheimtu. Þangað hljótum við að stefna aftur og heimta löndin á ný sem við urðum að yfirgefa. Hvað annað? Hvað er verið að deila um þorsk á hafsvæði þar sem þoka og myrkur er allt árið eða hér um bil? Ég sé að mönnum finnst þetta broslegt. Þeir átta sig ekki á alvöru málsins. Ef það er réttur þjóðar að geta tekið landið aftur eftir þúsund ár á þeirri forsendu að hún átti þarna einu sinni heima, þá hlýtur okkar réttur að vera sá sami. Og jafnvel sá ágæti hv. þm. Steingrímur Sigfússon, sem stendur fast á rétti okkar Íslendinga og boðaði það í viðskiptum við Norðmenn að þar gilti ekkert nema hnefinn, hann hefur ekki minnst á þetta einu einasta orði. (SJS: Verðum við þá ekki að taka Grænlendinga?) Það er nú svo að ég veit ekki til þess að við höfum verið hraktir frá Grænlandi, en þar brestur mig trúlega sögulega þekkingu.

Sannleikurinn er nefnilega sá að ef við tökum hliðstæðuna upp og færum hana yfir á okkar heimshluta, okkar sögu, þá kemur málið fáránlega út. Það er niðurstaðan. Við skynjum það að við eigum engan rétt til Noregs. (ÖS: Það er umdeilanlegt.) Umdeilanlegt, heyrist hjá hv. 15. þm. Reykv., Össuri Skarphéðinssyni. Það mál vel vera að hann skýri það betur í ræðustól hér á eftir hvernig það er umdeilanlegt. (ÖS: Ég vísa til Jóns Skúlasonar.) Ég vil aftur á móti undirstrika það að þetta mál er ekkert auðvelt að leysa. En við getum ekki setið hjá og horft á það aðgerðarlausir að þessi þróun haldi áfram eins og verið hefur. Á þennan hnút verður að höggva. Vissulega bind ég vonir við það, af því að forseti Bandaríkjanna er á seinna kjörtímabilinu, að hann geti skipt sér af þessu máli af meiri alvöru. En ég vil fullyrða það hér, fyrst tvær heimsstyrjaldir hafa orðið á þessari öld, þá er ekkert sem segir að sú þriðja geti ekki brostið á.