Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 12:39:30 (5422)

1997-04-18 12:39:30# 121. lþ. 106.6 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[12:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er auðvitað í fyrsta lagi ekki ánægður með svar hæstv. ráðherra um að verið sé að reikna út bæturnar. Ég hefði viljað sjá þá útreikninga liggja fyrir. Og reyndar er ég í grundvallaratriðum ósáttur við að það skuli ekki gerast nánast sjálfkrafa að þessar bætur hækki eins og þær augljóslega eiga að gera, fylgjandi kjörum þeirra sem eru á lægstu kauptöxtum eða viðmiðunarkauptöxtum eins og það hefur verið. Á mannamáli þýðir það að sérstakar hækkanir lægstu launa eða lægri launa eiga að koma inn í bæturnar vegna þess að aldraðir og atvinnulausir hafa alltaf fylgt kjörum þessara aðila og eiga að gera það áfram.

Varðandi skattalækkanir og launahækkanir þá vil ég ekki að menn skilji orð mín svo að ég sé svo kategórískur í fræðunum að ég sé líka á móti launahækkunum af því þær gætu haft þensluáhrif. (Gripið fram í.) Jú, það getur haft svipuð áhrif en þar skiptir náttúrlega máli í fyrsta lagi hvert kaupmáttarstigið er hjá fjöldanum sem er að fá þær hækkanir. Og er það ekki þannig að það er tiltölulega óumdeild staðreynd að það var auðvitað löngu tímabært og óumflýjanlegt að koma til móts við réttmætar kröfur launafólks um að fá loks leiðréttingu sinna mála, allt frá dögum þjóðarsáttar þegar fyrst og fremst launafólkið tók á sig byrðarnar hefur þeirra hlutur legið eftir. Og við skulum líka muna eftir skuldaaukningu heimilanna á þessum tíma. Það eru líka efnahagslegar og þjóðhagslegar forsendur sem gera það mjög mikilvægt einmitt að bæta kaupmátt a.m.k. lakar setta hlutans.

Varðandi skattalækkunarkröfu verkalýðshreyfingarinnar þá segi ég bara að þar skiptir náttúrlega mjög miklu máli hvernig þær skattkerfisbreytingar eru. Það skiptir líka máli hverjir það eru sem njóta góðs af. Það hefur ekki sömu þensluáhrif að skila bættum kjörum til þeirra sem minnstan hafa kaupmáttinn og hinna sem þegar hafa mikinn afgang og eru fyrst og fremst þeir sem hella olíunni á eyðslueldinn. Og svo segi ég alveg hiklaust, herra forseti, jafnvel þó að kröfur um það hafi komið frá hinni heilögu verkalýðshreyfingu, þá áskil ég mér rétt til þess að hafa á því skoðun hvort og (Forseti hringir.) þá hvenær skattalækkanir, almennar skattalækkanir, séu skynsamleg aðgerð.