Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 18:20:53 (5483)

1997-04-18 18:20:53# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[18:20]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal leitast við að svara nokkrum fyrirspurnum sem fram hafa komið hjá hv. þingmanni. Í fyrsta lagi: Hvernig á að fylgjast með hvort og hvernig sé greitt? Það verður fyrst og fremst gert í framtíðinni í gegnum skattframtöl. Það er auðveldast að fylgjast með þessu þannig því að þessi sérstaka skattalega meðferð verður að koma fram bæði í reikningum fyrirtækja og eins á skattframtölum einstaklinga til þess að skattfresturinn nái fram að ganga.

Við þurfum að átta okkur á því að fjöldi fólks er í séreignarsjóðum í dag þó það sé líka í samtryggingarsjóðum. Það ruglar stundum töluna fyrir okkur hve margir eru í þessum sértryggingarsjóðum að stór hópur þeirra er líka tryggður í almennu lífeyrissjóðunum.

Ráðningarsamningarnir koma til viðbótar lögum og kjarasamningum. Þar sem ekki er getið um þetta í kjarasamningum eða lögum geta ráðningarsamningar komið til skjalanna. En hugsanlegt er að þetta þróist á þann veg að ráðningarsamningar komi til viðbótar. Ég veit ekki hvort allir átta sig á því að heimilt er að fá sérstaka skattalega meðferð vegna lífeyrisiðgjalda jafnvel þótt maður leggi inn í lífeyrissjóð 50% af launum sínum og sumir lífeyrissjóðir á almenna markaðnum fara jafnvel upp í 20% eins og Lífeyrissjóður flugmanna. Skattfrestunin nær til svo stórs hluta launanna í dag og gerir það áfram samkvæmt þessu frv. Þetta skiptir ekki öllu máli vegna þess að það verða greiddir skattar af þessum fjármunum þegar borgað er út úr sjóðunum.

Í 15. gr. er eingöngu verið að fjalla um atriði sem nú eru almennt í samþykktum viðkomandi sjóða þannig að það er ekkert verið að fara út fyrir það að það er talið tryggara að hafa þetta í lögum en að láta svona hluti dingla lausa í samþykktum sjóðanna.

Ég veit ekki, virðulegi forseti, hve margir sjóðir hafa færri en 800 félaga en áhættan er mikil, ekki síst í fámenninu þegar mikill þrýstingur er frá einstökum fyrirtækjum að fá sérstök lán til atvinnuuppbyggingar, mikil áhættulán út úr sjóðum sem eru staðbundnir.

Og í 29. gr. er auðvitað verið að opna möguleika fyrir þá sem eru utan kjarasamningasviðsins, að þeir geti hagað sínum málum með ,,lýðræðislegri hætti`` heldur en gerist á almenna vinnumarkaðinum.