Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 21:14:28 (5508)

1997-04-18 21:14:28# 121. lþ. 106.19 fundur 552. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[21:14]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Með framlagningu og flutningi þessa frv. er á ferðinni mikið frumhlaup. Vissulega má segja að ef við ætlum að fara yfir skattalögin hér í heild, tekjuskattinn og eignarskattinn, þá er það alveg rétt að þar er alls konar mismunun. Það er rétt og nauðsynlegt að fara yfir það og hv. flm. Pétur H. Blöndal hefur oft haft orð á því að það sé nauðsynlegt. Því undrar mig að hann skuli taka þetta mál út úr ásamt meðflm. sínum og flytja um það sérstakt frv. án þess að hreyfa við öðrum þáttum sem eru þó miklu áhrifameiri og mikið örlagaríkari fyrir tekjur ríkissjóðs og afkomu manna.

Ef við förum yfir sjómannaafsláttinn þá liggur fyrir að hann skilar 1,5 milljarði í tekjur til ríkissjóðs eða rúmlega það. Það hefur margsinnis verið reiknað út. Sjómenn eru sannarlega fjarri sínu heimili. Þeir borga fullu verði sitt fæði og eru reyndar á dýrasta fæði í heimi vegna þess að matsveinninn tekur hluta af þeirra launum, hlut í aflafeng. Ríkið borgar t.d. í sínum rekstri 2.500 millj. til sinna starfsmanna í fæðispeninga og uppihald. Ef menn ætluðu í alvöru að gera þessar lagabreytingar, hver ætlar að mæla gegn því að atvinnurekandi sjómannsins breytti bara launum hans sem þessu næmi. Það eru til örfáir, kannski nokkrir tugir einstaklinga, sem stunda sjó sem ekki eru fjarri heimilum sínum. Það eru hlutaráðnir beitningamenn í landi. Þeir eru örfáir, kannski 40--50 í heild. Allir beitningamenn í landi eru yfirleitt í akkorði. Þannig að það er mjög, mjög rangt að koma svona að þessu máli.

Hitt er annað mál, sem flm. kom að hér áðan, að dagpeningar eru greinilega ofgreiddir á Íslandi, mjög ofgreiddir. Fyrir utan það sem ríkið borgar er náttúrlega gríðarlega borgað af dagpeningum hér í öllu þjóðfélaginu. Ef við ætlum að taka það til endurskoðunar og leiðrétta það þá væri ábyggilega um mjög miklar upphæðir sem skiptu verulegu máli. En þá ber þess líka að gæta að sjómenn hefðu a.m.k. ekki minni rétt en aðrir, a.m.k. ekki minni rétt. Því þeir eru sannarlega langt frá heimilum sínum og borga sitt fæði. Þannig að ég vil nú halda því fram, herra forseti, að þegar þetta mál verður uppgert þá halli meira á einhverja aðra en sjómenn. Það er mér nær að halda. Ég harma að svo glöggur maður sem hv. þm. Pétur H. Blöndal er skuli hafa fallið í þá gryfju að fara að flytja þetta sem sérstakt mál í stað þess að reyna að ná yfir þann margvíslega mismun sem má finna í skattalögum. Við skulum þá gera það sameiginlega því það er ófært að ætla sér að breyta þessum lið án þess að breyta öllu hinu sem breyta þarf ef við ætlum að láta jafnræði gilda.

Í greinargerð með frv. er dálítið farið í ákveðna sagnfræði. Ég verð nú því miður, herra forseti, segja að hún mætti vera fyllri. Sannleikurinn er sá, ef við förum yfir söguna, að á sjötta áratugnum og reyndar var það komið á árunum eftir stríð, byrjaði ríkissjóður að ábyrgjast ákveðið útflutningsverðlag og síðan kom hver vitleysan á fætur annarri. Síðan tókum við upp bátagjaldeyri til að reyna að halda uppi útflutningsstarfseminni. En gengið var náttúrlega úr öllum takti við veruleikann. Þetta var svokallað uppbótakerfi sem við rákum eiginlega frá stríðslokum fram undir 1960 að viðreisnin tók við. Þetta kerfi var allt með endemum og átti sér ekki sinn líka í hinum vestræna heiminum. Það voru náttúrlega mörg dæmi um þetta í Austur-Evrópu. Þetta gerði það að verkum að allt verðlag á fiski var hrein vitleysa. Þess vegna var það, því að gengið var svo vitlaust, að útlendir sjómenn og þá sérstaklega Færeyingar komu hingað til starfa. Íslendingar vildu ekki vinna á sjónum vegna þess að launin voru svo lág, fiskverðið var svo vitlaust. Fiskverkendur höfðu útgerðirnar algjörlega í hendi sér. Hinir erlendu sjómenn voru auðvitað skattlagðir. Það er bara vitleysa sem segir í þessari greinargerð. Þeir voru skattlagðir og erlendir starfsmenn. Það var ákveðin aðferð notuð við það alla tíð og hún breyttist ekki fyrr en við staðgreiðsluna. Það var staðgreiðsla á erlendu starfsfólki og allt var gert upp áður en það fór úr landi. Mismunurinn sem þarna var um að ræða var ekki fólginn í þessu heldur því að þeir fengu yfirfærðan hluta launa sinna á þessu vitlausa gengi. Í því var þetta fólgið.

Með viðreisninni hverfum við frá uppbótakerfinu en í staðinn setum við upp verðlagsráð. Þá er áfram verið að reyna að handstýra þessu samfélagi með þeim árangri að við fórum alltaf reglulega út af. Það stóð alveg fram til 1990. Þá vorum við alltaf með þetta fiskverð sem hreina vitleysu. Það var á þeim árum sem þessar reglur mótuðust um sjómannaafsláttinn.

Það eru rök fyrir því í dag að núna þegar verðmyndun á fiski er frjáls að launakjör sjómanna séu öðruvísi uppbyggð en þau voru á þeim tíma þegar þetta kerfi var sett á. Þau rök eru til. Við skulum halda okkur við þau rök. En þá ber að gera það þannig að gætt sé samræmis við aðrar stéttir ef við ætlum að breyta þessu. Annað er útilokað. Þannig að jafnframt því --- ef menn ætla að fara að hræra í þessum sjómannaafslætti --- verða menn að taka upp algjörlega nýja skattlagningu og nýja viðmiðun miðað við alla dagpeninga og allan ferðakostnað. Það verðum við að gera. Þannig getum við náð einhverju jafnvægi. Mér er til efs að það hafi stórkostlega tekjuaukningu í för með sér fyrir ríkið. Ég á eftir að sjá sjá framan alla ríkisstarfsmennina þegar við komum með þær reglur. Ætli þeir muni ekki vilja fá það bætt hægra megin sem yrði tekið af þeim vinstra megin. Ég held því að það sé rangt sem kom fram í máli hv. flm. áðan að hér sé um uppsprettu nýrra tekna fyrir ríkissjóð að ræða. Það dreg ég mjög í efa og harma aftur, herra forseti, að þetta skyldi hafa verið lagt fram. Ég skora á flm. að draga frv. til baka en koma síðan aftur á næsta þingi og þá skulum við reyna að vinna heildstætt að betrumbótum á skattkerfinu.