Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 22:12:32 (5516)

1997-04-18 22:12:32# 121. lþ. 106.19 fundur 552. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sjómannaafsláttur) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[22:12]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fullyrti að ég mundi vera sammála því að það væri óskynsamlegt að taka einn þáttinn út úr. Ég er ekki sammála því. Ég held að það sé um að gera að byrja einhvers staðar og á því þar sem það er augljóst að ein stétt nýtur lagalegs skatthagræðis umfram aðra. Öll hin atriðin eru varðandi félagslega stöðu fólks eða eignastöðu og sjómenn njóta þeirra bóta allra, iðgjald í lífeyrissjóð geta þeir dregið frá, þeir fá vaxtabætur eða húsaleigubætur, þeir fá barnabætur, þeir fá allar þessar bætur sem hinir fá líka. Mér finnst því sjálfsagt að taka á þeim þættinum sem er svo augljós eins og sjómannaafslátturinn og útrýma honum. Síðan geta sjómenn og atvinnuveitendur þeirra, útgerðarmenn, komist að samkomulagi um að gera eins og aðrar stéttir ef það eru einhverjar smugur þar sem menn geta notað eins og t.d. með dagpeninga. En mér finnst mjög mikilvægt að eftir að þessari smugu hefur verið lokað verði ráðist á hinar smugurnar eins og dagpeningana og það sem menn hafa verið að ýja að hérna að sé notað til að komast hjá skatti. Og eins og t.d. skattfrjálsir fæðispeningar í mötuneytum hins opinbera sem mér finnst mjög óeðlilegt. Mér finnst mjög óeðlilegt að ég skuli fá skattfrjálsar tekjur með því að borga ekki nema helminginn af því sem maturinn kostar eða jafnvel minna en það.