Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 13:50:51 (5588)

1997-04-22 13:50:51# 121. lþ. 109.4 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., JBH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[13:50]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þessi grein kveður á um að breyta ríkisbönkum í hlutafélög í eigu ríkisins. Það er spor í rétta átt þótt ekki væri nema vegna þess að samkeppnisaðilar á fjármagnsmörkuðum eiga allir að lúta sömu leikreglum varðandi samkeppnisskilyrði, skattlagningu og fleira. Við jafnaðarmenn hefðum hins vegar kosið að fara aðra leið, nefnilega þá að selja fyrst hlut ríkisins í öðrum bankanum, að uppfylltum ströngum skilyrðum um dreifða eignaraðild og með þátttöku erlendra aðila til þess að draga úr hættu á samþjöppun fjármálavalds og til þess að tryggja betur aðhald og samkeppni gegn klíkuveldi. Auk þess flytjum við brtt. við frv. sem hafa það að markmiði að tryggja dreifða eignaraðild og að setja meginreglur um stjórnkerfi hlutafélagabanka, t.d. um ráðningu eins bankastjóra og um skipan bankaráða. Stjórnarmeirihlutinn hefur því miður ekki fallist á þessar brtt. sem eru augljóslega til bóta og hefðu átt að geta eytt tortryggni sem ríkir um málið og skapað um það æskilega samstöðu. (Forseti hringir.) Eigi að síður er breytingin á rekstraforminu spor í rétta átt þótt róttækari breytingar bíði betri tíma. Ég segi því já, herra forseti.