Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 15:13:53 (5622)

1997-04-22 15:13:53# 121. lþ. 109.19 fundur 256. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (heildarlög) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[15:13]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég styð þetta frv. og er sátt við það að flestu leyti og þær brtt. sem nefndin hefur sameinast um að flytja. Ég hefði þó kosið örlítið aðra meðferð málsins og skrifa því undir nál. með fyrirvara sem ég vildi gera örlitla grein fyrir hér.

Meginástæðan er sú að ég er ekki fyllilega sátt við ákvæði 6. gr. þess efnis að Veðurstofa Íslands eigi að lýsa yfir hættuástandi og sömuleiðis að lýsa því yfir að því hafi verið aflétt. Lögreglustjóri sjái hins vegar um rýmingu og geti reyndar samkvæmt 7. gr. einnig ákveðið rýmingu hvenær sem er þótt hættuástandi hafi ekki verið lýst.

[15:15]

Ég tel þetta fyrirkomulag ruglingslegt eða a.m.k. ekki nægilega afgerandi og að það gæti hugsanlega valdið togstreitu og einhverjum áhrifum á það góða samstarf sem er nauðsynlegt milli þessara aðila. Nú er hér ekki um breytingu að ræða frá núgildandi lögum sem voru sett á síðasta þingi. Þetta fyrirkomulag var tekið upp með þeim lögum, þ.e. að Veðurstofan hefði þá ábyrgð að lýsa yfir hættuástandi og hvenær því skyldi aflétt. Og þar sem þetta er svo nýtt í sögunni má kannski segja að það sé hvorki búið að sanna sig né afsanna. En ég er þeirrar skoðunar að þetta fyrirkomulag geti valdið togsteitu og deilum eins og reyndar hefur orðið raunin á í a.m.k. einu tilviki þar sem menn töldu óljóst hver hefði átt að bregðast við. Það er auðvitað í ljósi þess sem það nýmæli er tekið upp í 7. gr. að lögreglustjóri hafi vald til að rýma húsnæði ef honum sýnist vá fyrir dyrum jafnvel þótt hættuástandi hafi ekki verið lýst yfir af hálfu Veðurstofunnar. Þannig er verið að flytja valdið að hluta aftur í hendur heimamanna og ég tel það mjög til bóta. En ég hefði talið betra að hafa þessa verkaskiptingu hreinni og klárari, þ.e. að Veðurstofa Íslands hefði það hlutverk að fylgjast með og vara við og að lögreglustjóri eða yfirvöld almannavarna í héraði hefðu það hlutverk að lýsa yfir hættuástandi og bregðast við með rýmingu eða hverjum þeim aðgerðum sem þurfa þykir.

Aðrir nefndarmenn í hv. umhvn. töldu hins vegar rétt að styrkja það fyrirkomulag sem ákveðið var með lagasetningunni á síðasta ári og sú er niðurstaðan. Ég velti því vissulega fyrir mér að flytja brtt. en niðurstaðan varð sú að gera það ekki en ég mun sitja hjá við atkvæðagreiðslu um 6. gr. af þeirri ástæðu sem ég hef lýst.

Þá vil ég nefna ákvæði til bráðabirgða sem reyndar tók miklum breytingum í umfjöllun nefndarinnar og mjög til bóta. Ég var hlynnt því að fella þetta bráðabirgðaákvæði algerlega brott á þeirri forsendu að um mikilvægt öryggisatriði væri að ræða og flestir nefndarmanna voru þeirrar skoðunar í upphafi en niðurstaðan varð þessi í því ljósi að sveitarfélög væru sett í býsna erfiða aðstöðu ef þau gætu nánast ekki hreyft sig til eins eða neins á framkvæmdasviðinu, hversu langan tíma sem tæki að fá endanlegt hættumat. Til þess að girða ekki algjörlega fyrir að einstök sveitarfélög geti ráðist í brýnar og óhjákvæmilegar framkvæmdir þá lögðum við mikla vinnu í að orða þetta bráðabirgðaákvæði þannig að öruggt væri að ekki yrði farið út í neinar framkvæmdir sem óvarlegar gætu talist út frá öryggissjónarmiði. Ég held að allir þeir fyrirvarar sem þarna eru settir eigi að nægja til að tryggja það og mun því styðja þetta ákvæði.

Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðunum sem valda því að ég skrifa undir með fyrirvara. Það mætti út af fyrir sig ræða þetta frv. nánar og allt það sem fram hefur komið í störfum nefndarinnar. En ég er sátt við þær niðurstöður sem hafa fengist og sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. Frv. fékk mjög ítarlega skoðun og umfjöllun í hv. umhvn. og ég mun styðja frv. með þeim fyrirvara sem ég hef hér lýst.