Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 15:20:00 (5623)

1997-04-22 15:20:00# 121. lþ. 109.19 fundur 256. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (heildarlög) frv., GBeck
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[15:20]

Guðmundur Beck:

Herra forseti. Örfá orð um þetta frv. sem hér liggur fyrir. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með að menn skuli hafa náð lendingu í þessu. Þetta er mjög viðkvæmt mál og erfitt vegna þess að það tekur til öryggis fólks og mikilla fjármuna sem í húfi eru.

Fyrst varðandi þau atriði sem hv. síðasti ræðumaður, Kristín Halldórsdóttir, nefndi um viðvörun. Ég geri mér vonir um að það að bæði Veðurstofan og heimamenn, lögreglustjóri og almannavarnanefnd, geti komið að þessu máli og gripið inn í ef hættuástand skapast skapi mönnum meira öryggi. Ég endurtek það að ég geri mér fastlega vonir um að það geti skapað mönnum meira öryggi. Annar hvor aðilinn getur brugðist og þá hefur hinn rétt til að grípa inn í.

Annað sem nefndarmenn lentu í erfiðleikum með að setja í þetta frv. var að brúa þetta tímabil þangað til hættumat liggur fyrir á þeim stöðum sem eru í mestri hættu. Og sá fyrirvari sem ég setti er í rauninni af því sprottinn að við höfum engin tímamörk en ég treysti því að þingmenn muni fylgja þessu máli eftir áfram og sjá svo um að því starfi verði haldið áfram af fullum krafti að gera hættumat fyrir þessa staði.