Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 17:52:33 (5693)

1997-04-23 17:52:33# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[17:52]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir það sem hv. þm. Ágúst Einarsson sagði hér um nýsköpun og þau tækifæri sem þar eru til staðar. Það er fróðlegt eins og hv. þm. gerði að bera okkur saman í þessum alþjóðlega samanburði um samkeppnisstöðu okkar.

Þegar fjármagnsmarkaðurinn er skoðaður, þá er hann í 32. sæti af 48. Þegar alþjóðavæðingin er skoðuð, þá er hún í 36. sæti af 48. Þetta eru tvö lökustu sviðin af þessum 8 sviðum sem borin eru saman. Þegar hins vegar fólkið og vinnuaflið í landinu er skoðað, þá er það í 7. sæti og segir það margt um þau sóknarfæri sem við höfum. Allar þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, formbreyting ríkisviðskiptabankanna, stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og stofnun Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, miða að því að breyta fjármagnsmarkaðnum hjá okkur í þá veru að við séum betur stödd í þessari alþjóðlegu samkeppni. Með öðrum orðum, færa okkur ofar á þessum lista. Nýsköpunarsjóðurinn gegnir mjög mikilvægu hlutverki einmitt í því að færa okkur ofar á listanum í alþjóðavæðingunni, og ég veit að hv. þm. hefur lesið það frv. sem hérna liggur fyrir frá ríkisstjórninni, þar sem beinlínis er getið um á hvaða sviðum við ætlum að styrkja okkar stöðu í alþjóðavæðingunni.

Við skiptum aðgerðum Nýsköpunarsjóðsins í þrennt: Í fyrsta lagi í beinar stuðningsaðgerðir og eru beinar stuðningsaðgerðir eins og hv. þm. var að lýsa hér áðan sem snúa m.a. að frumkvöðlastarfseminni, vöruþróuninni, hagkvæmnisathugunum. Þá snýr þetta beint að fjárfestingarverkefnum, innlendum fjárfestingarverkefnum og nýjum vaxtartækifærum. Í öðru lagi fjárfestingum innlendra aðila erlendis og í þriðja lagi fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi. Þessi áform, þessi verkefni Nýsköpunarsjóðsins eru einmitt nákvæmlega í þeim tilgangi sett fram að styrkja okkur í alþjóðavæðingunni. Með öðrum orðum, þetta heilsteypta fyrirkomulag, þessi heilsteypta stefna sem ríkisstjórnin hefur núna lagt fram með þessum frumvörpum sem fylgjast öll að í gegnum þingið miða að þessu, styrkja samkeppnisstöðu Íslands, færa okkur ofar á sviðinu á fjármagnsmarkaðnum, færa okkur ofar á því sviði sem við erum lökust í, alþjóðavæðingunni. Þannig að hér er um heilsteypta atvinnustefnu að ræða sem hefur það að meginmarkmiði að bæta samkeppnisstöðu Íslands.