Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 18:41:23 (5712)

1997-04-23 18:41:23# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[18:41]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Umræðan hefur hér fyrr að nokkru leyti snúist um það líka hversu hratt eigi að fara og í 10--15 ár hefur umræðan kannski einmitt snúist um það hversu hratt menn vilja fara í þessum efnum. Niðurstaðan hefur orðið sú að menn hafa aldrei náð landi. Það hefur stundum verið eins og forveri minn í starfi sagði, landsýn í málinu en skútunni hefur aldrei nokkurn tíma fyrr en nú verið siglt inn á Alþingi með þessi mál innbyrðis. Og það er í fyrsta skipti sem það hillir undir að okkur ætli að takast að afgreiða þessi stóru mál héðan frá hinu háa Alþingi.

Hefðu menn valið aðra leið og viljað ganga miklu hraðar fram, þá spái ég því að við hefðum ekki náð landi, málin væru ekki komin hingað inn. En því verður ekki á móti mælt og þær tölur liggja fyrir, að áætlað verðmæti viðskiptabankanna, sparisjóðanna og Fjárfestingarbankans séu í kringum 62% ef við miðum við hlutfall af öllum markaðnum. En þegar búið er að auka hlutafé í hinum bönkunum, þ.e. Landsbankanum og Búnaðarbankanum og selja þennan 49% eignarhlut ríkisins sem er fyrsta skrefið á þessari löngu leið og allir gera sér grein fyrir, þá hefur okkur tekist að minnka umsvif ríkisins úr 62% niður í 41%. Þessu verður ekki á móti mælt. Þetta verður niðurstaðan og með þessu er okkur að takast að ná þessu ætlunarverki okkar, sem er nauðsynlegt og ég vonast til að flestir séu sammála um, að draga úr umsvifum ríkisins á fjármagnsmarkaðnum með því að afhenda þetta einkaaðilum.