Samningur um bann við framleiðslu efnavopna

Mánudaginn 28. apríl 1997, kl. 17:43:41 (5716)

1997-04-28 17:43:41# 121. lþ. 113.1 fundur 593. mál: #A samningur um bann við framleiðslu efnavopna# þál., Frsm. GHH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[17:43]

Frsm. (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Að ósk utanrrh. hefur utanrmn. flutt á þskj. 1036 till. til þál. um fullgildingu alþjóðlegs samnings um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra. Með þáltill. er leitað heimildar alþingis til að fullgilda umræddan samning og ljúka þeirri málsmeðferð sem nauðsynleg er í því sambandi. Þess má geta að frestur til þess að skila fullgildingu þannig að ríki verði stofnaðili að samningnum rennur út í nótt að íslenskum tíma og því ekki seinna vænna að ljúka afgreiðslu þessa máls til þess að Ísland megi vera í hópi stofnríkja sem ég tel að okkur sé rétt og skylt að vera.

Samningur þessi er einhver merkilegasti alþjóðlegi samningur sem gerður hefur verið hin síðari ár um afvopnunarmál að mínum dómi. Hann skuldbindur aðildarríkin til að beita aldrei efnavopnum í hernaði og jafnframt til að stöðva framleiðslu slíkra vopna og eyða öllum birgðum þeirra sem ríki eiga í fórum sínum. Þetta er samningur um að banna efnavopn en þetta er líka samningur um að eyða þeim vopnum sem fyrir eru.

Samningurinn felur í sér að komið verði á fót ítarlegu alþjóðlegu eftirlitskerfi með framkvæmd hans og er m.a. gert ráð fyrir vettvangsprófunum í hverju aðildarríki, hvort heldur er vegna meintrar framleiðslu efnavopna eða eyðileggingar þeirra. Samningaviðræður um þetta mál hafa staðið yfir árum saman en þeim lauk með því að undirritaður var í París í janúar 1993 sá samningur sem nú mun taka gildi á næsta sólarhring. Munurinn á þessum samningi og til að mynda Genfarsamningnum frá 1925 sem bannaði notkun efnavopna í stríði er sá að sá samningur bannaði ekki þróun, framleiðslu eða geymslu slíkra vopna og að auki gátu samningsaðilar á þeim vettvangi gert fyrirvara gagnvart ríkjum sem ekki höfðu verið með, áskilið sér rétt til að nota efnavopn gegn ríkjum sem notuðu þau gegn þeim og sömuleiðis gagnvart ríkum sem ekki höfðu undirritað Genfarsamninginn. Í þessu dæmi, þessum samningi sem nú er til afgreiðslu er ekki um neinar slíkar undanþágur að ræða.

Sett hefur verið á laggirnar alþjóðleg stofnun á grundvelli samningstextans OPCW, á ensku Organization for the Prohibition of Chemical Weapons, en skipulagseiningar þessarar stofnunar eru ráðstefna aðildarríkjanna sem haldin verður árlega, framkvæmdaráð, tækniskrifstofa og fleiri einingar. Aðalstöðvar verða í Haag í Hollandi. Þessi stofnun mun hafa fjölmennu starfsliði á að skipa til þess að hafa umsjón með framkvæmd samningsins og annast það eftirlit sem áður er nefnt, m.a. með því að senda eftirlitsmenn á vettvang til að sannreyna hvort efnavopnum hafi verið eytt og framleiðslu þeirra hætt.

Aðildarríkin skuldbinda sig til að breyta löggjöf ef nauðsyn krefur til þess að framkvæma allar samningsskyldur sínar en tilnefna skal sérstaka ríkisstofnun í hverju landi til að hafa skilvirk samskipti við umrædda alþjóðastofnun um framkvæmd og eftirlit með samningnum, m.a. gera eftirlitsmönnum frá alþjóðastofnuninni kleift að athafna sig að vild við allar vettvangskannanir. Líklegt má telja að hér á landi verði Hollustuvernd ríkisins falið þetta verkefni. Fyrsta ráðstefna aðildarríkjanna sem aðild eiga að hinni nýju stofnun mun koma saman í Haag í byrjun maímánaðar nk.

Þessi samningur er auðvitað fyrst og fremst samningur um alþjóðleg öryggismál. Hann tryggir að nánast verður ómögulegt fyrir ríki utan samningsins að nálgast efnasambönd til framleiðslu efnavopna og það á einnig við um þau efnasambönd sem undir venjulegum kringumstæðum eru nýtt í friðsamlegum tilgangi. Samningurinn hefur þannig tvímælalaust áhrif á ýmsan iðnað sem nýtir slík efnasambönd, en þau eru tilgreind í viðaukum samningsins. Gera má ráð fyrir að áhrifa þessa gæti einkum þegar fram í sækir. Það er hagsmunamál fyrir Ísland að fullgilda samninginn af þessum sökum fyrir utan þá siðferðilegu skyldu sem hvílir á Íslendingum að vera aðilar að mikilvægum afvopnunarsamningi sem þessum. En hagsmunir íslenskra fyrirtækja og annarra aðila sem nota efnasambönd til rannsókna eða annarra þarfa eru að sjálfsögðu þeir að þegar samningurinn kemur til framkvæmda er hægt að útiloka þau lönd sem ekki eru aðilar að honum frá slíkum viðskiptum og beita þau hindrunum og jafnvel útiloka að þau geti komist yfir efnasambönd sem þau þurfa og það getur að sjálfsögðu haft mjög alvarleg áhrif í efnaiðnaði eða í rannsóknum til að mynda á sviði læknis- og lyfjafræði. Af þessari ástæðu er því nauðsynlegt fyrir ríki eins og Ísland að gerast aðili að þessum samningi.

Þess má geta að í dag höfðu 164 ríki undirritað samninginn en 81 ríki hafði skilað fullgildingarskjölum síðast þegar vitað var og má gera ráð fyrir að nokkur bætist við á þessum sólarhring og þar á meðal vonandi Ísland. Bandaríkin hafa eins og kunnugt er staðfest samninginn og lokið frágangi sinnar fullgildingar. Sama er að segja um Kína, Kúbu og ýmiss önnur ríki. Því miður hafa Rússar hins vegar ekki gengið frá sínum málum að þessu leyti og má ætla að einhver bið verði á því vegna sérstakra aðstæðna þar í landi og eflaust einnig þess kostnaðar sem fylgir því að eyða vopnabúrum sem komið hefur verið upp í þessu efni.

Þess má geta að ýmiss önnur ríki hafa ekki skrifað undir samninginn og eru ekki aðilar að honum. Þar má nefna ríki eins og Írak, Líbýu, Sýrland og Norður-Kóreu en hér eru á ferðinni ríki sem talið er og jafnvel vitað með vissu að hafa komið sér upp efnavopnum og því auðvitað áhyggjuefni að þau skuli ekki vera aðilar að samningnum í það minnsta enn sem komið er. Á hinn bóginn mun samningurinn hafa í för með sér að slík ríki verða útilokuð frá því að afla efna sem mögulega mætti nýta til efnavopnaframleiðslu frá þeim ríkjum sem aðild eiga að samningnum og því má ætla að það herði að þessum ríkjum sem hyggjast standa utan við að þessu leyti.

Meðal bandamanna okkar Íslendinga innan Atlantshafsbandalagsins hefur verið lögð mikil áhersla á gerð og fullgildingu þessa efnavopnasamnings. Í varnarstefnu bandalagsins frá árinu 1991 er lýst yfir stuðningi þess við gerð samningsins og má nefna að í kjölfar undirritunar hans í janúar 1993 hvatti framkvæmdastjóri NATO öll NATO-ríkin til að fullgilda samninginn hið fyrsta. Slíkar hvatningar hafa einnig borist frá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna ásamt því sem Evrópusambandið hefur sent frá sér tilmæli til ríkja sem ekki hafa undirritað og staðfest samninginn, um að gera það hið fyrsta. Er því ljóst að á alþjóðlegum vettvangi hefur fullgilding þessa samnings víða verið forgangsmál. Það er að sjálfsögðu sérstakt fagnaðarefni að öldungadeild Bandaríkjaþings staðfesti samninginn fyrir síðustu helgi með 74 atkvæðum gegn 26. Það voru ríflega þeir tveir þriðju hlutar sem nauðsynlegir voru til að staðfesta samninginn, en ljóst er að um hann voru mjög skiptar skoðanir þar í landi. En sem betur fer höfðu þeir yfirhöndina í bandarísku öldungadeildinni sem hafa stutt þennan samning og nutu stuðnings áhrifamanna bæði úr röðum demókrata og repúblikana.

Ég tel að einboðið sé fyrir Ísland að staðfesta þennan samning, ekki bara vegna þess að hann getur ella skapað okkur óþægindi í iðnaði og atvinnulífi heldur ekki síður af þeirri ástæðu sem ég nefndi áðan, að Ísland á að taka þátt í alþjóðasamstarfi um afvopnun. Íslandi ber að vera með í slíkum samningum og það er okkar siðferðilega skylda að leggja okkar lóð á vogarskálarnar þegar svo merkileg tíðindi eru að gerast í afvopnunarmálum á heimsvísu sem hér er raunin. Þess vegna hefur verið ákveðið að efna til þessa sérstaka fundar í Alþingi í dag. Og það er einlæg von mín að þingheimur allur sameinist um að afgreiða þetta mál hratt og örugglega hér í dag þannig að Ísland geti gengið frá sinni aðild að þessu máli áður en umræddur frestur rennur út í nótt. Ég vænti þess að Alþingi muni sameinast um þessa afgreiðslu og ég vil þakka meðnefndarmönnum mínum í utanrmn. fyrir samstarfið í þessu máli og fyrir að hafa fallist á að flytja þetta mál með þeim afbrigðum sem raun ber vitni.