Samningur um bann við framleiðslu efnavopna

Mánudaginn 28. apríl 1997, kl. 17:54:20 (5717)

1997-04-28 17:54:20# 121. lþ. 113.1 fundur 593. mál: #A samningur um bann við framleiðslu efnavopna# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[17:54]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég er sem fulltrúi okkar í utanrmn. einn af flutningsmönnum tillögunnar og tek undir þau orð sem hv. formaður utanrmn. lét frá sér fara að lokum, að hann legði á það áherslu að þingheimur allur sameinaðist um að afgreiða þessa tillögu eins og hún liggur hér fyrir.

Það eru örfá atriði, herra forseti, sem mig langar engu að síður til að koma á framfæri um leið og ég þakka fyrir hvað formaður utanrmn. og utanrmn. í heild hefur brugðist skjótt við í þessu máli. Það eru fjögur atriði sem ég vil nefna.

Í utanrmn. innti ég fulltrúa utanrrn. sérstaklega eftir því hvernig farið yrði með greinargerðir sem á samkvæmt samningnum að senda frá Íslandi um þau mál sem snúa að samningnum og gætu m.a. snert herstöðina í Keflavík. Það kom fram hjá fulltrúum utanrrn. að gefnar yrðu yfirlýsingar sem snerta herstöðina í því skyni að einnig á því svæði yrði að sjálfsögðu fullnægt þeim ákvæðum sem þessi samningur gerir ráð fyrir. Það var mjög mikilvægt að fá þetta atriði fram og það var alveg skýrt frá embættismönnum utanrrn.

Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því, herra forseti, að þessi samningur kveður á um óvenjumiklar heimildir til leitar og rannsóknar á fyrirtækjum, stofnunum og jafnvel á einstaklingum. Er í þeim efnum gengið mjög langt varðandi einstaklinga. Í því sambandi bendi ég hv. þingmönnum. á enska textann, einkum á bls. 54, greinar 45--51, þar sem það kemur greinilega fram að þeir sem hafa eftirlit samkvæmt þessum samningi geta gengið býsna langt í því að krefjast upplýsinga frá einstaklingum um hvaðeina sem einstaklingarnir hafa í fórum sínum. Í raun og veru þá hygg ég að þetta sé flóknasta atriði samningsins og það þarf að fara mjög vel yfir það í framhaldi af ályktun Alþingis hvernig þessu ákvæði verður búinn staður í lögum Íslands með hliðsjón af ákvæðum stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífsins og aðra þá þætti sem að því lúta að menn geti varið sig fyrir stjórnvöldum þegar þau vilja framkvæma eftirlit af einhverju tagi. Hér er með öðrum orðum um að ræða gríðarlega stór mál sem snerta og ganga lengra en ég hygg að við höfum nokku sinni áður sett í lög eða reglugerðir á Íslandi. Ég hygg að svo sé, enda sögðu embættismenn utanrrn. áðan í nefndinni að þeir teldu að þetta væru einstök ákvæði varðandi það að ganga býsna nærri því sem kallað er friðhelgi einstaklingsins, í því að framkvæma eftirlit samkvæmt þessum samningi. En öll viljum við sem stóðum að þessari tillögu í utanrmn. vafalaust ganga eins langt í þeim efnum og mögulegt er, en þó þarf að gæta fordæma og samræmis við aðra þætti í okkar löggjöf og stjórnarskrá í þessum efnum.

Í þriðja lagi vil ég vekja athygli á því, herra forseti, að það hefur komið fram síðustu daga að menn hafi verið nokkuð seinir í utanrrn. að afgreiða þetta skjal og verður því ekki neitað. Ég spurði embættismenn utanrrn. að því --- ég hygg að ég geti alveg sagt frá því hér --- hvernig það væri vegna þess að almannarómurinn segir að kannski liggi bara hjá þeim bunkarnir af samningunum sem þurfi síðan að fara dagfari og náttfari í að afgreiða hér á Alþingi einn góðan veðurdag til að Íslendingar verði sér ekki til skammar á alþjóðavettvangi. Þeir lýstu því nákvæmlega þessir starfsmenn utanrrn. hvað ráðuneytið væri ótrúlega vanbúið við að ganga í verk af því tagi sem hér er um að ræða, bæði varðandi þýðingar og samræmingar, yfirlestur og þess háttar á lögum og því um líku. Og það kom í ljós í svari starfsmanna utanrrn. að einn starfsmaður sinnir þessu verki í ráðuneytinu og það er örugglega of lítið. Það get ég að minnsta kosti sagt með hliðsjón af þeirri reynslu sem við höfum hér nú. Mér finnst því svona í tengslum við þennan samning að menn ættu að velta því fyrir sér að taka þessi mál til skoðunar við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1998.

Loks, herra forseti, kom fram á fundi nefndarinnar að gert er ráð fyrir því, eins og kemur reyndar fram í samningnum, að ákveðin stofnun annist framkvæmd samningsins og það mun gert ráð fyrir að það verði Hollustuvernd ríkisins. Það er bersýnilega þörf á því að hún taki sér talsvert tak ef hún á að geta rækt ákvæði samningsins eins og hann gerir ráð fyrir.

Að öðru leyti tek ég undir þær óskir sem hv. þm. Geir H. Haarde hafði áðan um að samningurinn verði staðfestur hér.