Samningur um bann við framleiðslu efnavopna

Mánudaginn 28. apríl 1997, kl. 18:06:50 (5720)

1997-04-28 18:06:50# 121. lþ. 113.1 fundur 593. mál: #A samningur um bann við framleiðslu efnavopna# þál., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[18:06]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. utanrmn. fyrir hversu skjótt og vel hún hefur tekið á þessu máli. Eins og fram kom hjá hv. formanni nefndarinnar og framsögumanni hennar hér áðan þá var það ósk utanrrh. að nefndin tók málið fyrir á þennan hátt og það er ástæða til að þakka bæði forseta og þingheimi fyrir að bregðast svo við að halda aukafund hér í dag til þess að koma málinu í gegn sem var ekki á dagskrá þingsins að öðru leyti.

Eins og fram hefur komið hjá þeim hv. þm. sem tekið hafa þátt í umræðunni er full ástæða og reyndar nauðsynlegt fyrir okkur að fullgilda þennan samning og hefði ekki verið gott hefðum við setið eftir með það og ekki náð að verða samferða öðrum þjóðum í því efni sem við viljum starfa með og störfum með bæði innan NATO og á vegum Evrópska efnahagssvæðisins, en hér kom einnig fram að Ísland væri eina ríki þess sem ætti eftir að fullgilda samninginn. Ég lýsi fullum stuðningi mínum við það að sjálfsögðu og endurtek þakkir mínar til nefndarinnar.

Mig langar aðeins að segja vegna þess sem fram hefur komið um mikið álag og það hversu seint þetta er fram komið og að við skulum vera að þessu á seinustu stundu, að auðvitað er mikið álag í utanrrn. Margir samningar fara þar í gegn og þetta á reyndar við um alla okkar stjórnsýslu að við, fáir, smáir og stundum vanbúnir, erum auðvitað að reyna að fylgja eftir stórum og öflugum þjóðum sem hafa mikið lið til þess að vinna alla þessa vinnu og það kemur sjálfsagt á stundum fram í störfum okkar stjórnkerfis og Stjórnarráðs.

Mig langar líka til þess að árétta það og nota þetta tækifæri sem ráðherra þess málaflokks sem Hollustuvernd ríkisins fellur undir, að verði það sú stofnun sem fær það hlutverk að hafa hér eftirlit með framkvæmd samningsins þá þarf sannarlega að huga betur að málefnum hennar og gera henni kleift að sinna sínum mikilvægu hlutverkum og verkefnum bæði á þessu sviði og öðrum eins og hv. þm. vita og við höfum stundum rætt hér áður.

Hæstv. forseti. Að lokum endurtek ég þakkir mínar til nefndarinnar og þingheims fyrir að vinna svo skjótt að málinu.