Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 14:37:49 (5728)

1997-05-02 14:37:49# 121. lþ. 115.1 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[14:37]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt að ráði en stend einungis upp til að þakka meiri hluta nefndarinnar góð störf og ég er ánægður með þá útfærslu sem hér birtist. Mér kemur nokkuð á óvart afstaða Alþb. og Alþfl. til málsins. Þeir hafa flutt mikla gagnrýni á mig á undanförnum árum vegna réttleysis smábátasjómanna, vörubifreiðastjóra og bænda sérstaklega. Ég vonaðist eftir stuðningi minni hlutans en hann er greinilega ekki fyrir hendi. Mér kemur ekkert á óvart úr málflutningi hv. formanns nefndarinnar.

Bráðabirgðaákvæði er í frv. um að lögin skuli endurskoðuð eftir tvö ár og þá verður væntanlega fengin reynsla af þeim og hægt að sníða vankanta af sem menn sjá, festa aðrar stéttir tryggilegar sem væntanlega verða þá orðnar aðilar að sjóðnum og taka til athugunar þau atriði sem menn telja betur mega fara. Ef hv. stjórnarandstæðingar verða orðnir ráðandi í þjóðfélaginu að tveimur árum liðnum þá má út af fyrir sig búast við því að þeir afnemi bara þessi lög og leggi þennan sjóð niður, ef taka má mark á þeim ræðum sem hafa verið fluttar.

Það hefur verið gagnrýnt að ekki væru fleiri stéttir skilgreindar í sjóðinn en þessar þrjár. Það hefur aldrei staðið annað til en að hleypa öðrum stéttum að ef þær óskuðu og hefðu komið sínum skipulagsmálum í lag. Á minn fund hafa t.d. sjónvarpsþýðendur gengið og voru mjög óánægðir með réttleysi sitt sem þeir töldu vera. Þegar farið var að athuga málið, þá eru samtök þeirra ákaflega laus í reipunum og ég mun beita mér fyrir því að setja á stofn nefnd eða vinnuhóp í samráði við þá til þess að reyna að koma betra lagi á félagsmál þeirra eða aðstoða þá við það. Og þá er hugsanlegt að þeir kjósi að eiga aðild að sjóðnum. Nú er það reyndar þannig að þeir geta átt aðild að Atvinnuleysistryggingasjóði, en þar segir, með leyfi forseta, í 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

,,Launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, eiga rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

Félagsmálaráðherra skal, að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, setja nánari reglur um hvaða skilyrðum sjálfstætt starfandi einstaklingar skulu fullnægja til þess að njóta bóta úr sjóðnum. M.a. skulu settar reglur um hvaða skilyrðum menn verða að fullnægja til þess að teljast sjálfstætt starfandi og vera atvinnulausir.

Ráðherra er heimilt, að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, að ákveða að aðrir hópar en launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar geti notið bóta úr sjóðnum gegn greiðslu iðgjalda. Um bótarétt þessara hópa skal kveða á í reglugerð.``

Það er svo sem ekki loku fyrir það skotið að þetta fólk eigi rétt nú þegar í Atvinnuleysistryggingasjóði þó að þær þrjár stéttir sem sérstaklega eru nafngreindar í frv. telji sig ekki hafa fengið þá þjónustu í Atvinnuleysistryggingasjóði sem eðlileg er.

Það hefur verið gagnrýnt að nefndin sem samdi frv. hefði unnið hratt. Raunverulega hefur vinna við þetta málefni staðið yfir allt frá því að ég kom í ráðuneytið og menn voru búnir að prófa ýmsar útfærslur. Sjálfum fannst mér eðlilegast í upphafi að koma þessu öllu saman í einn sjóð, þ.e. auka rétt þeirra innan Atvinnuleysistryggingasjóðs. Sú leið reyndist ekki fær og því var gripið til þess ráðs að setja nefnd til að undirbúa frv. Ég tel það bara lofsvert að nefndir vinni hratt og skipulega og er mjög ánægður með störf þeirrar nefndar og betur að fleiri nefndir sæju sóma sinn í því að vinna hratt og skipulega.

Varðandi frv. um atvinnuleysistryggingar sem breyttist í meðförum Alþingis, þá tókst mér að ná prýðilegri samvinnu við Alþýðusamband Íslands um breytingar á því frv. og þá var eðlilegt að þessu frv. yrði breytt í kjölfarið.

Hv. 5. þm. Reykn. gagnrýndi að þáltill. um fjölskyldustefnu skuli ekki vera komin enn til síðari umræðu. Ég ræð ekki störfum eða dagskrá hv. félmn. Mér urðu það vonbrigði að ekki tókst að afgreiða það mál á síðasta þingi en ég hef alltaf lagt höfuðáherslu á að það mál yrði afgreitt héðan fyrir þinglok.

[14:45]

Hér hefur verið spurt hvenær bóndi væri atvinnulaus. Ekki er búið að semja reglugerð um það efni enda segir í frv. í 5. gr., með leyfi forseta:

,,Ráðherra skal, að fenginni umsögn stjórnar Tryggingasjóðs einyrkja, setja nánari viðmiðunarreglur um hvað telst lok rekstrar í starfsgrein hlutaðeigandi sjóðfélaga.``

Það er sem sagt ætlast til að stjórn sjóðsins, sem ekki er enn þá búið að skipa af skiljanlegum ástæðum af því að það er ekki búið að samþykkja lögin, komi að þessari reglugerðarsetningu. En mér finnst að þó geti það verið leiðbeinandi regla og verður vafalaust eitt meginleiðarljósið að sá sem tekur atvinnuleysisbætur þarf að vera reiðubúinn til að ráða sig í starf ef það býðst. Síðan er það úthlutunarnefnda að sjálfsögðu að meta hvort viðkomanda sé unnt að sækja starfið. Sem betur fer er nú samgöngum þannig háttað hér á landi að unnt er að sækja atvinnu frá heimili í mjög mörgum tilfellum. Það þarf ekki endilega að binda það við þéttbýlisstaði. Það er alveg hægt að hugsa sér að viðkomandi geti fengið vinnu á öðru búi eða við aðra starfsemi þó hún sé ekki í þéttbýli.

Ég held að ég orðlengi þetta ekki meira, herra forseti, en ég er mjög ánægður með að þetta mál skuli vera komið til 2. umr.