Almenningsbókasöfn

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 14:52:16 (5731)

1997-05-02 14:52:16# 121. lþ. 115.3 fundur 238. mál: #A almenningsbókasöfn# (heildarlög) frv., Frsm. SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[14:52]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 952 ásamt brtt. á þskj. 953 frá menntmn. um frv. til laga um almenningsbókasöfn.

Menntamálanefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árna Gunnarsson, skrifstofustjóra í menntamálaráðuneytinu ásamt öðrum gestum. Einnig bárust nefndinni margar gagnlegar umsagnir um málið.

Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum um almenningsbókasöfn sem eru frá árinu 1976. Aðstæður hafa breyst mjög mikið á þessum tíma og er þar helst að telja gífurlegar framfarir í upplýsingatækni sem hafa víðtæk áhrif á starfshætti bókasafna. Einnig hefur sameining sveitarfélaga breytt rekstrargrundvelli almenningsbókasafna. Helstu breytingar, sem frumvarpið hefur í för með sér, eru að flokkun almenningsbókasafna er einfölduð og búið er í haginn fyrir skipulag sem stuðla á að myndun öflugri umdæmissafna, en gert er ráð fyrir að eitt safn í hverju bókasafnsumdæmi gegni hlutverki umdæmissafns og ræki þjónustu við önnur söfn. Þá er lagt til að afnumin verði lagaákvæði um lágmarksframlög sveitarfélaga til almenningsbókasafna, en mælt fyrir um að framlög skuli ákveðin í fjárhagsáætlun sveitarfélags. Þá er í samræmi við ákvæði laga um Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn kveðið á um ráðgjafar- og samstarfshlutverk safnsins gagnvart almenningsbókasöfnum. Einnig er fellt niður ákvæði um embætti bókafulltrúa í menntamálaráðuneytinu, en eftir sem áður mun ráðuneytið fara með yfirstjórn og eftirlit með þessum málum. Þá er í ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir árlegu framlagi úr ríkissjóði næstu fimm árin og er framlaginu ætlað að stuðla að því að almenningsbókasöfn verði fær um að bjóða þjónustu sem styðst við nútímatækni og til að greiða fyrir tengingu bókasafna landsins í stafrænt upplýsinganet.

Í ábendingum sem nefndinni bárust kom fram að eðlilegt væri að umdæmissöfn fengju allt prentað efni sem gefið væri út af opinberum aðilum. Leggur nefndin til að þetta atriði verði skoðað sérstaklega við endurskoðun laga um skylduskil til safna, en ljóst er að þau þarf að endurskoða. Þá leggur nefndin til að 14. gr. gildi aðeins þar til frumvarp til laga um Bókasafnssjóð höfunda tekur gildi, en í því frumvarpi er fjallað um Bókasafnssjóð höfunda sem ætlað er að taka við af Rithöfundasjóði Íslands. Leggur menntamálanefnd til að frumvörpin verði afgreidd á sama tíma. Miðað er við að frumvarpið um Bókasafnssjóð höfunda taki gildi 1. janúar 1998.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali, en þær eru helstar:

Í fyrsta lagi: Lagt er til að eitt af markmiðum almenningsbókasafna verði að stuðla að símenntun.

Í öðru lagi: Lagt er til að sérstök tilvísun í ferðamál verði felld út úr 6. gr.

Í þriðja lagi: Þá leggur nefndin til að orðin ,,leitast við að`` í 8. gr. frumvarpsins falli brott, en í greininni er m.a. fjallað um menntunarkröfur sem gerðar eru til starfsfólks almenningsbókasafna. Nefndarmenn eru sammála um að mikilvægt sé að starfsmenn og forstöðumenn almenningsbókasafna hafi lokið prófi í bókasafns- og upplýsingafræði, en benda jafnframt á að ekki er alltaf mögulegt að fá fólk með slíka menntun til starfa.

Í fjórða lagi: Einnig leggur nefndin til að tilvísun til Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns verði felld út úr 12. gr., en menntamálaráðuneytið fái þess í stað opna heimild til að fela aðilum utan ráðuneytisins skýrslugerð og úrvinnslu gagna um fjármál og starfsemi almenningsbókasafna.

Undir nál. rita Sigríður A. Þórðardóttir, Hjálmar Árnason, Svanfríður Jónasdóttir, Tómas Ingi Olrich, Arnbjörg Sveinsdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir með fyrirvara og Guðný Guðbjörnsdóttir með fyrirvara.

Herra forseti. Hér er á ferðinni merkilegt mál sem ekki lætur mikið yfir sér. Gildandi lög um almenningsbókasöfn eru rúmlega tveggja áratuga gömul og var orðið brýnt að endurskoða þau og færa í nútímahorf. Almenningsbókasöfn hafa mikilvægu hlutverki að gegna í nútíð og framtíð. Þar hefur almenningur aðgang að upplýsingum, þekkingu og afþreyingu. Fjölmörg bókasöfn hafa þegar tekið nýjustu upplýsingatækni í þjónustu sína t.d. við skráningu gagna. Bráðabirgðaákvæði frv. þar sem lagt er til að a.m.k. 4 millj. kr. verði varið árlega í fimm ár til almenningsbókasafnanna greiðir fyrir því að sem flest þeirra geti eignast þann tækjakost sem til þarf. Einnig að haldið verði námskeið fyrir bókaverði og gefið út fræðsluefni fyrir almenning um hvernig nýta megi nýja upplýsingatækni. Í skýrslu nefndar um tengingu íslenskra bókasafna um stafrænt upplýsinganet frá því í janúar 1996 er hlutverk bókasafna skilgreint á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

,,Að efla frjálsan og óheftan aðgang almennings að upplýsingum og þekkingarmiðlun,

að stuðla að lýðræðislegri þátttöku almennings í mótun samfélagsins,

að stuðla að því að menn eigi greiðan aðgang að upplýsingum opinberra stofnana og jafnframt að auðvelda fólki að koma skoðunum og athugasemdum á framfæri,

að þjóna íslensku atvinnulífi.``

Ég tek heils hugar undir þessi markmið um hlutverk bókasafna en legg jafnframt ríka áherslu á hlutverk almenningsbókasafna sem alhliða menningarmiðstöðva hvert í sínu byggðarlagi. Það hlutverk verður seint ofmetið.

Sú sem hér talar minnist þess frá uppvaxtarárum á Siglufirði hversu mikið aðdráttarafl bókasafnið hafði á ungt fólk. Það var og er menningarmiðstöð og þannig á það líka að vera.

Að síðustu nefni ég ákvæði frv. um skiptingu landsins í umdæmi og hlutverk umdæmissafna. Brýnt er að þau leiði til þess að landinu verði skipt í fá umdæmi með öflugum umdæmissöfnum sem hafi burði til að gegna því leiðbeiningar- og þjónustuhlutverki sem þeim er ætlað.

Reynslan af slíkri tilhögun erlendis, t.d. á Norðurlöndum, Bretlandi og í Bandaríkjunum hefur leitt í ljós að stofnun þjónustukjarna er lyftistöng fyrir uppbyggingu bókasafnanna og í raun eina leiðin til að tryggja jafnari þjónustu. Brýnt er að sveitarfélögin sameinist um rekstur fárra en öflugra umdæmissafna til að þessar hugmyndir geti orðið að veruleika í framtíðinni.