Almenningsbókasöfn

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 15:06:39 (5733)

1997-05-02 15:06:39# 121. lþ. 115.3 fundur 238. mál: #A almenningsbókasöfn# (heildarlög) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:06]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um almenningsbókasöfn. Ég vil taka undir með öðrum ræðumönnum að ég tel þetta vera jákvætt og merkilegt frv. og mun styðja framgöngu þess í þinginu. Ég vil einnig taka undir þau orð að bókasöfnin eru mjög mikilvægar menningarstofnanir sem gegna mjög stóru hlutverki í þeirri upplýsingabyltingu sem nú er að eiga sér stað í okkar þjóðfélagi sem víðar. Því vil ég fagna sérstaklega bráðabirgðaákvæðinu þar sem kveðið er á um að veitt verði sérstaklega fé til að stuðla að því að bókasöfnin tölvuvæðist og nýti sér upplýsingatæknina í sem ríkustum mæli. Ég vil jafnframt vona að ríkisstjórnin sjái sér fært að veita meira fé en þessar 4 millj., sem þarna eru nefndar að lágmarki, því augljóst mál er að þarna er mikið verk að vinna. Einnig vonast ég til að niðurfelling á lágmarksfjármunum sveitarfélaga til bókasafna verði ekki til þess að þau fjárfarmlög lækki heldur verði það frekar til þess að hvert og eitt sveitarfélag hætti að miða við lágmarksfjárframlagið og styðji sín bókasöfn. Ég tel að það geti skipt sköpum fyrir bæði almenning og viðkomandi sveitarfélög að hafa sterk almenningsbókasöfn í sínum héruðum.

En ástæða þess, herra forseti, að ég kem hér upp er fyrst og fremst sú að ég skrifa undir nál. menntmn. með fyrirvara. Ástæðan er tvíþætt. Í fyrsta lagi tel ég að ekki sé nægilega skýrt kveðið á um það í 8. gr. að forstöðumenn bókasafna hafi menntun í bókasafns- og upplýsingafræði. Þar stendur ,,eða jafngilt nám ef þess er kostur`` o.s.frv. Það kemur reyndar fram í nál. að ekki sé átt við að sambærilegt nám sé annað nám sem veitir BA-gráðu. Þess vegna er mér í rauninni alls ekki ljóst við hvað er átt með ,,jafngildu námi``. Fyrst hæstv. menntmrh. er hér í salnum vildi ég gjarnan nota tækifærið og spyrja hann. Ég reyndi að beita mér fyrir því í nefndinni að þessi setning ,,eða jafngildu námi`` yrði felld út en það fékkst ekki. Annar fyrirvari minn lýtur að þessu en hinn er varðandi þá staðreynd að með frv. er verið að fella niður ákvæði um sérstakan fulltrúa í menntmrn. sem annast málefni almenningsbókasafna. Ég tel þetta í sjálfu sér ekki óeðlilegt miðað við þann rökstuðning sem fram kom í menntmn. En ég óttast nokkuð að ekki sé alveg nægilega vel tryggt með frv. hvað kemur í staðinn. Það kemur reyndar mjög skýrt fram að ráðuneytið beri þarna ábyrgð og væntanlega verður það í lagi en það kom fram greinilegur ótti hjá ýmsum umsagnaraðilum um hvað þarna kæmi í staðinn, hvort þarna ætti að koma einhvers konar stofnun, jafnvel á vegum sveitarfélaganna og spurning er hvaða hlutverk ríkið á að hafa. Mér fannst þetta ekki nógu fast bundið en kannski er óþarfi að vantreyta menntmrn. að þessu leyti.

Þetta eru sem sagt helstu fyrirvarar sem ég hef en ég mun styðja þetta frv. og tel það að öðru leyti gott.