Bann við kynferðislegri áreitni

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 17:35:31 (5757)

1997-05-02 17:35:31# 121. lþ. 115.15 fundur 422. mál: #A bann við kynferðislegri áreitni# (breyting ýmissa laga) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[17:35]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Vegna þessa ágæta frv. sem hér var mælt fyrir þá vil ég þakka hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur fyrir að hafa haft frumkvæði að því að það kom fram í þinginu. Þetta er vissulega tímabært frv. og ég get tekið undir að nauðsynlegt er að um mál eins og kynferðislega áreitni séu skýr lög og reglur. Eins og kom fram í máli hv. þm. hefur það haft fyrirbyggjandi áhrif annars staðar í löndum þar sem slík lög og reglur hafa verið settar. Ég tek undir að það er rétt hjá hv. þm. að tekið sé á þessum málum eins og gert er í frv., að það sé ekki sérstök löggjöf heldur tekið á þessu innan þeirra laga sem þessi ákvæði eiga heima. Einnig fagna ég því að komin er skilgreining á kynferðislegri áreitni, eins og kemur fram í frv. Hún er að sjálfsögðu nauðsynleg. Ég vonast til að frv. verði sent út til umsagnar strax að lokinni þessari umræðu og hvet til þess að ákvæði sem þessi verði sett í lög og frv. verði samþykkt, ef ekki á þessu þingi þá að minnsta kosti á því næsta, því ég sem er einn af meðflutningsmönnum á þessu máli mun svo sannarlega styðja það og vera með í því að flytja þetta mál aftur og aftur þangað til þetta verður komið í lög.