Félagsleg aðstoð

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 17:37:51 (5758)

1997-05-02 17:37:51# 121. lþ. 115.16 fundur 425. mál: #A félagsleg aðstoð# (heimilisuppbót) frv., Flm. ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[17:37]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 118/1993. Frv. er á þskj. 729 og þetta er 425. mál þingsins

Þetta er frv. sem tekur á einni af mörgum lagagreinum fyrrverandi almannatryggingalaga þar sem ákvæði hafa komið nokkuð illa niður á ákveðnum þjóðfélagshópum.

Eins og margir þekkja var almannatryggingalögunum frá 1971 skipt upp árið 1993, þegar við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Þeim var skipt upp í tvenn lög, annars vegar almannatryggingalögin og hins vegar lög um félagslega aðstoð. Þá féllu ákveðnir bótaflokkar sem urðu heimildarbótaflokkar inn í lagabálkinn um félagslega aðstoð og þar lenti bótaflokkurinn heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót sem ég er einmitt að fjalla um í þessu frv. og legg til breytingar á.

Greiðslur úr lífeyristryggingunum skiptast upp í nokkra flokka og gilda mismunandi reglur um hvern einasta bótaflokk. Fyrsti flokkurinn er grunnlífeyrir og hann gefur síðan rétt til frekari bótaflokka ef menn eiga rétt á grunnlífeyri. Næst á eftir honum er tekjutryggingin og eigi maður rétt á tekjutryggingu er hægt að sækja um aðra bótaflokka. Þeir sem eru með tekjutryggingu hvort sem hún er skert eða óskert geta, ef þeir búa einir, sótt um heimilisuppbót. Um heimilisuppbótina gilda þær reglur að til að fá hana greidda úr almannatryggingunum þurfa menn að búa einir. Ef menn deila heimili með öðrum fá þeir ekki heimilisuppbótina greidda. Þetta getur skipt heilmiklu máli sérstaklega fyrir þá sem þurfa að sjá sér farborða eingöngu af greiðslum úr almannatryggingunum. Ég ætla að nefna sem dæmi að fái menn ekkert annað en almannatryggingarnar og búa aleinir þá geta þeir fengið allt upp í 52 þús. kr. á mánuði úr almannatryggingunum. En ef þeir búa aftur á móti með öðrum er rétturinn yfirleitt ekki meiri en svo að þeir fá ekki nema 38--39 þús. kr. greiddar.

Í þessu frv., til breytinga á lögum um félagslega aðstoð, greininni um heimilisuppbótina, er lagt til að hún verði aðeins víkkuð út þannig að ekki verði hægt að túlka greinina þannig að aðeins sá sem býr aleinn eigi rétt á heimilisuppbótinni, þ.e. sá sem býr einn í íbúð, heldur að hægt verði að víkka réttinn aðeins og opna fyrir það að einstaklingar sem búa með börnum sínum geti haldið heimilisuppbótinni og einnig ef sýnt þykir að menn hafi ekki hagræði af sambýlinu --- en eins og þetta er orðað í lögunum þá er talað um að ef menn hafi hagræði af sambýli við aðra fái þeir ekki heimilisuppbót og síðan er öllum synjað ef þeir búa með öðrum hvort sem þeir hafa hagræði af því eða ekki --- þ.e. opnað er fyrir það að þeir sem hafa greinilega ekki hagræði af sambýlinu geti haldið heimilisuppbótinni eða fengið hana.

Það eru t.d. mörg dæmi um að einstæð móðir sem býr með barni sínu fær ekki heimilisuppbótina, hún fær 14.400 kr. lægra en lífeyrisþegi sem býr einn. Hún fær reyndar barnalífeyri greiddan, rúmar 11.000 kr. með barninu, en það er ekki framfærsla móðurinnar, það er framfærsla barnsins. Ég nefni annað dæmi að ef kona er öryrki og eignast barn þá skerðast bæturnar hennar um 14.400 kr. því þá býr hún ekki lengur ein. Það er álitið sem svo að hún hafi hagræði af því að búa með ungabarni sínu. Þannig er það þangað til barnið flytur að heiman. Þetta eru því lög sem eru ákaflega ósanngjörn því hvaða fjárhagslegt hagræði er af sambýli við tekjulaust barn sitt?

Mig langar til að nefna dæmi til viðbótar. Ef öryrki sem misst hefur starfsgetuna snemma á ævinni og á engan rétt í lífeyrissjóði --- það eru því miður margir sem eiga ekki rétt í lífeyrissjóði þegar þeir missa starfsorkuna --- kynnist öðrum öryrkja og þeir vilja rugla saman reytum og fara að búa saman, þá er þeim gert það mjög erfitt vegna þess að þá lækka greiðslurnar til þeirra um u.þ.b. 30.000 kr. ef þeir fara að búa í sömu íbúð. Á meðan þeir búa í sitt hvoru lagi fá þeir rúmar 50.000 kr. en þegar þeir eru farnir að búa saman er heimilisuppbótin dregin af þeim, 14.400 kr. hvorum fyrir sig, og sömuleiðis er grunnlífeyririnn lækkaður hjá þeim. Ég þekki mörg dæmi þess að þær reglur hafa gert það að verkum að öryrkjar og jafnvel ellilífeyrisþegar, sem hafa viljað hefja sambúð, hafa veigrað sér við að gera það, sérstaklega þeir tekjulægstu. Það má því segja að þessi lagagrein vinni gegn hjónabandinu og sé andstæð sambúð. Ég efast um að það hafi verið hugsun löggjafans í upphafi þegar þessi grein var sett að gera fólki erfiðara fyrir að búa saman eða deila ævinni með öðrum.

[17:45]

Af því ég var að tala áðan um einstæðu móðurina, það gildir náttúrlega það sama um einstæðan föður að hann fær lægri greiðslur við það að vera með barn sitt búandi hjá sér, þá vil ég geta þess að ég tel það ekki sanngjarnt að líta á meðlagsgreiðslur eða barnalífeyri og jafnvel mæðralaun, sem hafa nú reyndar verið mjög skert og eru reyndar ekki greidd með einu barni lengur, sem fjárhagslegt hagræði fólks af sambýli við börnin sín eins og er gert við framkvæmd laganna. Og ég mótmæli því að svo sé.

Eins og frv. hljóðar er gert ráð fyrir því að lífeyrisþegi sem er í sambýli við börn sín eða barn sitt undir 20 ára aldri geti notið heimilisuppbótar ef hann uppfyllir önnur skilyrði sem sett eru í lögunum. Þetta tel ég mjög sanngjarnt og eðlilegt. Það er litið á börn sem fullorðin þegar þau ná 20 ára aldri, þau hætta að fá borgað meðlag, menntunarmeðlagsgreiðslur eða menntunarbarnalífeyri á þessum aldri, þannig að ég tel það eðlilegt að foreldrarnir séu ekki látnir líða fyrir það í framfærslunni, sérstaklega þeir sem eru öryrkjar og ellilífeyrisþegar og hafa ekki aðrar greiðslur, að leyfa börnunum sínum að búa á heimilinu, t.d. meðan þau eru í námi, allt fram til 20 ára aldurs.

Ég vil einnig að það verði opnað á þann möguleika að hægt sé að taka tillit til þess ef fólk vill hefja sambúð --- ef tveir öryrkjar eða tveir ellilífeyrisþegar vilja hefja sambúð, og hafa litlar tekjur aðrar en almannatryggingalífeyrisgreiðslurnar. Allar bætur í lögunum um félagslega aðstoð eru heimildarbætur og það var reyndar mjög gagnrýnt, þegar þetta var sett í tvenn lög, að allar þessar bætur væru heimildarbætur og fulltrúar lífeyrisþega höfðu áhyggjur af því að þetta væri ekki skýlaus réttur heldur heimild. Þess vegna tel ég mikilvægt að það komi víðtækari heimild inn í lögin þannig að unnt sé að greiða fleirum þessa heimilisuppbót. Almannatryggingabæturnar eru orðnar það lágar að það er varla hægt að framfleyta sér á þeim og rúmar 50 þús. kr. eru nú eiginlega lágmarksframfærsla til þess að hafa í sig og á á mánuði, hvað þá ef það á að fara að taka rúmar 14 þús. kr. af við það að deila heimili með öðrum. Ég hvet því eindregið til þess að þetta verði skoðað. Reyndar er það nú því miður svo að þær breytingar á almannatryggingalögunum eða lögunum um félagslega aðstoð sem hafa verið gerðar hér hafa fengið lítinn hljómgrunn í heilbr.- og trn. og meira að segja varla tekið í það að fá þær sendar til þeirrar nefndar sem er að endurskoða þessi lög. Og ég gagnrýni stjórnarmeirihlutann að hann skuli ekki sjá hag í því að þessar tillögur og þessi frv., sem koma þó hér til umræðu í þinginu, fari áfram til þeirrar nefndar sem er að endurskoða þessi lög, því þau frv. sem hafa komið fram hér í þinginu til breytinga á þessum tvennum lögum hafa öll verið til þess að benda á mjög mikið misrétti og óréttlæti sem er í þessum lögum.

Lögin eru að grunni til mjög gömul, þau eru yfir 20 ára gömul eða frá 1971, og búið að breyta þeim á annað hundrað sinnum. Við vitum það að þegar verið er að gera smábreytingar á lögum sí og æ og við bandorma oft og títt við fjárlagagerðina, þá vill oft margt riðlast í lögunum og hin upprunalega hugsun, sem var til staðar þegar lögin voru fyrst sett, vill svolítið fara forgörðum. Það sem menn hafa verið að gera hér með þessum lagabreytingum er að benda á hvar hafa greinilega orðið mistök. Þetta er eitt af þeim frv. þar sem er verið að benda á að það þarf að leiðrétta --- það fara margir illa út úr lögunum eins og þau eru í dag. Ég þekki t.d. dæmi um tvo öryrkja, móður og dóttur sem deila saman íbúð. Móðirin sem er öryrki annast dóttur sína sem er mikill sjúklingur, og það er tekin af þeim heimilisuppbótin, 14.400 kr. af hvorri. Reyndar geta þær sótt um sérstaka uppbót vegna þess að sjúklingurinn er umönnunarþurfi og með mikinn lyfjakostnað en það kemur aldrei fyllilega til móts við þetta. Ef þetta frv. verður að lögum þá er hægt að grípa inn í tilvik eins og það sem ég var að nefna. Það er hægt að leyfa þessum tveim einstaklingum, sem eru að hjálpast við að draga fram lífið við erfiðar aðstæður, að halda framfærslunni sem þær hefðu ef þær byggju hvor á sínum staðnum. Einnig væri hægt að hvetja til þess að öryrkjar geti hafið sambúð eins og ég veit um ýmis tilvik. Og ég þekki það, það var oft spurt um það í Tryggingastofnun þegar öryrkjar voru að velta því fyrir sér hvort þeir gætu hafið sambúð, en þeir veigruðu sér við það þegar þeir sáu hvað það skerti hjá þeim framfærsluna úr Tryggingastofnun. Ég held því að það sé orðið mjög brýnt að það sé litið á þetta.

Ég vil enn einu sinni minnast á það í umræðum um almannatryggingarnar að heildarendurskoðun á lögunum verði hraðað. Hún er orðin mjög tímabær. Ég á sæti í þeirri nefnd sem heilbrrh. skipaði til að endurskoða þessi lög en hún hefur því miður sjaldan verið kölluð saman og starf hennar hefur legið niðri nú um langa hríð. Ég vil bara nota tækifærið hér til þess að koma þeim skilaboðum áleiðis að það verði farið í þessa vinnu og þær lagabreytingar sem hafa verið lagðar til hér í þinginu til endurbóta og réttindabóta fyrir þá sem þurfa að treysta á velferðarkerfið til framfærslu verði skoðaðar og höfð hliðsjón af þeim þegar almannatryggingalögin eru í endurskoðun.

Að lokinni þessari umræðu legg að sjálfsögðu til, herra forseti, að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn.