Félagsleg aðstoð

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 18:00:01 (5761)

1997-05-02 18:00:01# 121. lþ. 115.16 fundur 425. mál: #A félagsleg aðstoð# (heimilisuppbót) frv., Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[18:00]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur og Guðnýju Guðbjörnsdóttur fyrir að hafa tekið þátt í þessari umræðu og tekið undir þetta mál. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur að það er nauðsynlegt að velferðarkerfið verði byggt á stuðningi við einstaklinga óháð tekjum annarra einstaklinga. Enda held ég að það hafi komið mjög skýrt fram í umræðu ekki alls fyrir löngu í þinginu þar sem rætt var um lagaheimild fyrir reglugerð um tekjutryggingu í almannatryggingakerfinu þar sem bent var á að óheimilt væri samkvæmt ýmsum lögum að skerða greiðslur til einstaklings vegna tekna annarra, í þeim tilvikum maka. Þá var sýnt fram á að það virðist verða brot á ýmsum lagagreinum að vinna málin þannig að skerða bætur, að mismuna fólki eftir t.d. hjúskaparstöðu eða á annan hátt. Ég leyfi mér að varpa því fram hvort það standist 65. gr. stjórnarskrárinnar að mismuna fólki eftir sambýlisformi. Þar er tekið fram að ekki sé heimilt að mismuna fólki og síðan er allmikil upptalning um það. Það er óþolandi að ekki skuli vera hægt laga óréttlát lög með frv. hér á þingi án þess að það sé endalaust bent á að lögin séu í endurskoðun, heildarlöggjöfin sé í endurskoðun. Ég vil benda á að almannatryggingalögin sem voru í gildi til 1993 og þá höfðu verið í gildi í 22 ár, voru í endurskoðun allan tímann. Þau voru meira og minna í heildarendurskoðun frá árinu 1971. Þegar síðan ný löggjöf kemur árið 1993 þá hún ekki byggð á heildarendurskoðun á lögunum. Nei, grunnurinn eru gömlu lögin frá 1971 með nokkrum breytingum. Það var alls ekki byggt á heildarendurskoðuninni sem var búin að vera meira og minna í gangi hjá ýmsum ráðherrum á þessum tíma. Það er því náttúrlega afleitt þegar þingmenn koma hér og benda á óréttlæti og vilja reyna að koma fram leiðréttingum að það skuli vera stoppað á þennan hátt hér í þinginu. Það er auðvitað ósk mín að þessi lagagrein verði leiðrétt þannig að fólk þurfi ekki að búa við það óréttlæti sem felst í framkvæmd laganna og nánast laganna hljóðan eins og lögin eru í dag. Til þess að koma í veg fyrir það er hægt að samþykkja þetta frv. og ég er sannfærð um að það mun létta mörgum sjúklingnum, fötluðum og öldruðum, lífið að þurfa ekki jafnvel að sækja til sveitarfélagsins eins og reyndar er nú í mörgum tilvikum. Því það er viðkvæðið þegar skorið er niður á þennan hátt að þá er sagt: ,,Þú verður bara að fara til félagsmálastofnunar. Þú verður bara að fara til sveitarfélagsins.`` Margir veigra sér við að leita þangað og margir hafa ekki einu sinni heilsu til þess eða eiga ekki rétt þar, því reglur um fjárhagsaðstoð eru mismunandi eftir sveitarfélögum. Ég tel að með velferðarþjónustunni eigum við að sjá hverjum og einum einstaklingi fyrir að minnsta kosti lágmarksframfærslu og við eigum ekki að mismuna fólki eftir sambúðarformi eða heilsufari.