Hvalveiðar

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:31:13 (5778)

1997-05-05 15:31:13# 121. lþ. 116.1 fundur 303#B hvalveiðar# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:31]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það hefur áður komið fram á hinu háa Aþingi af minni hálfu að í samtölum sem ég átti við japönsk stjórnvöld kom fram að það væri ekkert sem útilokaði það í japanskri löggjöf að þeir keyptu af okkur hvalaafurðir en það væri bundið því skilyrði að við værum aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Þessar upplýsingar hafa komið fram af minni hálfu opinberlega og m.a. á hinu háa Alþingi áður og er sjálfsagt að staðfesta það.

Ég vil svo upplýsa það, sem reyndar hefur komið fram í þinginu áður, að skýrsla starfshópsins sem hefur verið að vinna að þessu máli að undanförnu og er núna til meðferðar hjá ríkisstjórninni hefur verið kynnt fyrir utanrmn. þingsins, fyrir formönnum stjórnarandstöðuflokkanna og niðurstöður ríkisstjórnarinnar verða að sjálfsögðu kynntar og eftir atvikum ræddar þegar þar að kemur. (HG: Á næsta ári?)