Undirboð í vikurútflutningi

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 14:03:33 (5879)

1997-05-06 14:03:33# 121. lþ. 117.95 fundur 318#B undirboð í vikurútflutningi# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[14:03]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Íslenskir aðalverktakar, sem hafa starfað á Keflavíkurvelli að verkefnum sem hafa verið samkvæmt sérstökum samningi við varnarliðið, hafa verið að missa þau einkaréttindi sem þeir hafa haft á verkefnum þar og hafa þar af leiðandi þurft að hasla sér völl á nýjum vettvangi sem er íslenski verktakamarkaðurinn og verktakamarkaður erlendis. Þeir hafa leitað sér verkefna í Grænlandi, í fyrrverandi Sovétlýðveldum og víðar og hafa því ekki einskorðað sig við að fara á íslenska markaðinn heldur eru þeir að reyna að sækja sér ný verkefni sem sýnilega þurfa að koma inn í þeirra rekstur við að tapa þeim miklu verkum sem þeir hafa hingað til haft. Þeir eru núna í samkeppni við íslensk fyrirtæki í eigu útlendinga. Það hefur enginn í sjálfu sér gert athugasemdir við það. Þetta er alíslenskt fyrirtæki sem er að hasla sér völl á verktakasviðinu og ég fagna því að við skulum eiga svo öflugt fyrirtæki sem Íslenska aðalverktaka sem getur í raun tekið að sér stórverkefni sem til falla. Ég veit einnig að Íslenskir aðalverktakar haf lagt sig fram um að reyna að ná samkomulagi og samstarfi við íslensk fyrirtæki á sama sviði og ég veit að þeirra hugur stendur til þess að vera í sátt og samlyndi við aðila á íslenska markaðnum. Ég vil vara við því að menn séu með einhvern hræðsluáróður gagnvart Íslenskum aðalverktökum þegar þeir koma inn í íslenskt efnahagslíf með þeim hætti sem þeim er nauðsynlegt. Ég vona að það geti gengið sem fyrst fyrir sig að þetta fyrirtæki verði gert að hlutafélagi þannig að það hafi fulla burði og möguleika eins og önnur fyrirtæki til að taka þátt. Að sjálfsögðu þarf það að fara að lögum en ég geri ráð fyrir því að sú mikla töf sem hefur orðið á því að gera fyrirtækið að hlutafélagi hafi orðið til þess að það lenti í þeim vandamálum sem það stendur frammi fyrir í dag.