Rekstur Áburðarverksmiðjunnar

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 14:18:52 (5884)

1997-05-06 14:18:52# 121. lþ. 117.96 fundur 310#B rekstur Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[14:18]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig sjálfsagt að ræða hér málefni Áburðarverksmiðjunnar. Það er fyrirtæki, þó hlutafélag sé, sem ríkið á að öllu leyti enn þá. En fullyrðingar eins og komu fram í upphafi máls hv. málshefjanda áðan um að nú hafi verið tekin ákvörðun um að loka verksmiðjunni eða eins og hann sagði ,,Áburðarverksmiðjunni verður lokað``, þá er það mál sem framtíðin ein getur skorið úr um. Um það hefur engin ákvörðun verið tekin. Það er erfitt að segja til um það á þessu stigi hvort mögulegt er að halda áfram áburðarframleiðslu og ef svo er með hvaða hætti það verður best tryggt.

Mig langar aðeins, virðulegi forseti, að fara svolítið yfir söguna í þessu efni þannig að ljóst sé hver aðdragandinn hefur verið að því hvernig mál standa í dag og að breytingar hafa lengi legið í loftinu hvað varðar þessa starfsemi. Við höfum séð á undanförnum árum að mikill samdráttur hefur verið í sölunni og mikill halli hefur verið á rekstri verksmiðjunnar undanfarin þrjú ár þrátt fyrir miklar hagræðingaraðgerðir og endurskipulagningu á starfseminni sem hefur vissulega skilað miklu og þeir sem þarna hafa farið með stjórn og staðið að málum hafa gert það af miklum krafti og lagt sig fram um að tryggja starfsemina áfram. En það hefur ekki dugað til. Hallinn hefur verið allt upp í 83 millj. kr. á árinu 1995 og sér hver maður að varla verður starfseminni haldið áfram ár eftir ár miðað við þær aðstæður öðruvísi en að fjármunir komi einhvers staðar frá. Er hægt að hækka verðið á áburðinum til að borga slíkan halla eða mun það leiða til þess að farið verður að flytja inn áburð í meira mæli?

Á vorþingi 1994 var fyrirtækinu breytt í hlutafélag, Áburðarverksmiðjuna hf., og ráðherra jafnframt heimilað að selja öll hlutabréfin eða hluta þeirra þannig að ekki hefur þurft að koma með það mál sérstaklega hér inn þess vegna, heimildin var fyrir hendi. Jafnframt var einkaleyfi fellt niður til framleiðslunnar af hálfu Áburðarverksmiðjunnar samkvæmt lögunum frá 1. janúar 1995. Þannig að innflutningur hefur síðan verið heimill og frjáls. Við hljótum að geta búist við að breytingar verði á ef þessi ágæta verksmiðja getur ekki staðið sig í verðlagningu og framleiðsluháttum.

Það hefur verið leitað eftir samstarfsaðilum og öðrum verkefnum í sambandi við verksmiðjuna. Menn hafa vafalaust heyrt talað um hugsanlega sinkframleiðslu, hreinsun á notaðri smurolíu og fleiri kostum sem hafa komið upp. Sú umræða heldur í raun áfram þó hún fari ekki formlega fram í augnablikinu meðan söluferli er í skoðun eða vinnslu. Þó hefur hér nýlega verið stofnað félag um hugsanlega peroxíðvinnslu á Íslandi, sem ég veit að gæti orðið samstarfsaðili ef af verður, og þessi verksmiðja heldur áfram í því formi sem hún hefur starfað og gert er ráð fyrir áfram. Það er ekkert hvorki í lögunum né í söluferlinu sem segir að áburðarframleiðslu skuli hætt. Það er það sem mig langar til að undirstrika. Í útboðslýsingu varðandi sölu fyrirtækisins, er sagt, með leyfi hæstv. forseta: ,,Tilgangur félagsins er m.a. rekstur áburðarverksmiðju og annarrar efnavinnslu, innflutningur, sala á innlendum og erlendum markaði, dreifing og framleiðsla á áburðarefnum og skyld starfsemi.`` Það er því alveg ljóst að engin ákvörðun hefur verið tekin um að hætta áburðarframleiðslu.

Þetta söluferli hefur nú tekið fast að einu ári þannig að það hefur verið í undirbúningi, kannski má segja nokkuð lengi, en frá 4. desember þegar ráðherra fól einkavæðingarnefnd að fjalla um málið hefur þetta verið í gangi og tilboðsfrestur í verksmiðjuna er til næstu mánaðamóta eða 30. maí nk. Ég held að eðlilega hafi verið staðið að málinu að öllu leyti og ekki hafi verið óeðlilegt að ríkið út af fyrir sig hugsaði til þess að kanna möguleika á að selja hlutabréfin eða losa sig út úr rekstrinum. Þetta er rekstur sem er núna á almennum viðskiptagrundvelli. Það er erfitt og kannski útilokað fyrir ráðherra eða stjórnvöld að tryggja að hér verði áfram starfsemi af þessu tagi. En það er að minnsta kosti ekkert sem bendir til þess í þessu söluferli að framleiðslunni verði hætt. Það eru einungis markaðsaðstæður sem hljóta að segja til um og kveða upp úr um það af því hv. þm. og málshefjandi endaði sitt mál á að spyrja hver viðbrögð eða afstaða ráðherra og ráðuneytisins væru til þess.

Hæstv. forseti. Tími minn er útrunninn en ég vil aðeins segja að lokum að það er rétt að verksmiðjan framleiðir áburð á vistvænan hátt. Við höfum leitað eftir því við samtök lífrænna ræktenda, alþjóðleg samtök, hvort til greina komi að verksmiðjan fái einhverja viðurkenningu sem slík. Því er hafnað af þeirra hálfu af því að þarna sé um tilbúinn áburð að ræða. En hún mun vafalaust geta gagnast okkur áfram sem framleiðandi á áburði sem er vistvænni en sá sem er framleiddur með olíu og geta stutt framleiðsluna að því leytinu til þó hún fái ekki viðurkenningu varðandi hina svokölluðu lífrænu ræktun.