Rekstur Áburðarverksmiðjunnar

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 14:32:26 (5888)

1997-05-06 14:32:26# 121. lþ. 117.96 fundur 310#B rekstur Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[14:32]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni að sú staða sem Áburðarverksmiðjan er komin í er vissulega vegna samninga sem við, alþingismenn þjóðarinnar, höfum gert og berum ábyrgð á. Það má segja að erlendir aðilar eigi sóknarfæri á íslenskan áburðarmarkað til að auka sína möguleika.

Ég held aftur á móti að sóknarfæri Áburðarverksmiðjunnar hljóti að liggja í því, eins og kom fram hjá Hjálmari Árnasyni, að sú tækniþekking sem þar er til staðar verði nýtt á víðari grundvelli en gert er í dag. Ég held að að mörgu leyti sé það af hinu góða að hæstv. landbrh. hefur auglýst verksmiðjuna til sölu þannig að það komi fram hvort til séu aðilar í landinu sem treysta sér til að fara í aðgerðir til eflingar starfseminni í Gufunesi.

Ég veit að mjög æskilegt er að Íslendingar ættu olíuhreinsunarstöð. Hins vegar sýnist mér að nokkrir annmarkar séu á því að staðsetja hana í Gufunesi og teldi miklu æskilegra að slík starfsemi færi fram annars staðar og hún yrði þá viðbót við íslenskan iðnað. En það þarf ekki annað en að keyra eftir Miklubrautinni í blankandi logni að vetrarlagi til að átta sig á að það er ekki neinn kjarnorkuúrgangur sem er að fara með Íslendinga eða nein mengun frá álverksmiðju heldur er mengunin frá bílunum komin á það stig að hún er heilsu manna hættuleg á vissum svæðum í borginni. Þannig er staðan. Það er beinlínis heilsuspillandi að búa í sumum íbúðum við Miklubrautina. Það hlýtur að vera mjög stórt mál fyrir stjórnendur Reykjavíkur og stjórnendur landsins að reyna að þróa æskilegri orkugjafa en í dag eru notaðir á almenningsvagna og í framtíðinni á alla umferð í borginni og annars staðar.