Rekstur Áburðarverksmiðjunnar

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 14:37:24 (5890)

1997-05-06 14:37:24# 121. lþ. 117.96 fundur 310#B rekstur Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[14:37]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil líka taka undir með málshefjanda og þakka fyrir þær umræður sem hafa farið fram um stöðu verksmiðjunnar. Reyndar lít ég svo á að þau sjónarmið hafi einnig komið fram að menn viðurkenna í hvaða stöðu verksmiðjan er með hugsanlega áframhaldandi rekstur. Ég vil auðvitað taka undir það sem kom fram í upphaflegu máli hv. málshefjanda að verksmiðjan er mikilvæg fyrir íslenskan landbúnað. Hún er það vegna þess að hún hefur getað svarað markaðsóskum eða óskum um framleiðslu öðruvísi og betur en ég geri ráð fyrir að innfluttur áburður og aðrar áburðarverksmiðjur erlendis geti gert. Þess vegna veit ég um áhuga bændastéttarinnar. Ég hef rætt við fulltrúa þeirra um möguleika í sambandi við þá aðkomu að gerast eignaraðilar á einhvern hátt að þessu fyrirtæki þó í litlum mæli sé til þess að sýna a.m.k. viðhorf sitt og styðja eða styrkja reksturinn með því móti. Það væri vissulega ánægjuefni og ég hef reyndar rætt við aðra aðila sem gætu einnig verið hugsanlegir samstarfsaðilar. Og ég beitti mér fyrir því að verksmiðjan er auglýst með þeim hætti að hægt er að kaupa í henni hlutabréf allt að helmingi eða þá hlutabréfin öll. Það er því hægt að gerast samstarfsaðili með ríkinu að verksmiðjunni ef það þykir fýsilegur kostur til að treysta starfsemina. Ég get að sjálfsögðu ekki annað en fagnað því.

Mig langar einnig að nefna út af því að gagnrýni kom á það að verksmiðjan skyldi yfirleitt auglýst til sölu og það væri ekki tímabært eða réttur tími til þess. Ég veit svo sem ekki hvenær rétti tíminn er til þess, hvenær slíkt hefði verið tímabært. Ég minni á það að stjórn Áburðarverksmiðjunnar hefur ályktað mjög ákveðið í þá veru að nauðsynlegt sé að eyða óvissu og fagnaði þeirri ákvörðun ráðherra, eins og segir í ályktun frá þeim, ,,að hefja formlega sölu á hlutabréfunum og eyða óvissu sem ríkt hefur um framtíðina og að öðru jöfnu beri að kappkosta að selja verksmiðjuna til áframhaldandi áburðarframleiðslu í heild eða að hluta til að tryggja þau störf sem þar eru.`` Ég held því að það hafi verið og sé eðlilegt að kanna möguleikana á hvort aðrir aðilar vilja sýna verksmiðjunni þá trú og það traust að taka þátt í að reka hana áfram og þá skal ekkert standa á mér hvort heldur sem landbrh. eða umhvrh. að reyna að eiga aðild að því. Þarna er vissulega mikilvæg þekking innan dyra sem ætti að geta nýst til annarra verkefna ef svo fer að hún tapar markaði sem áburðarframleiðandi og söluaðili að áburði. Ég verð því miður að segja það við hv. þm., vin minn, Guðna Agústsson, að það eru kannski einmitt bændur á Suðurlandi sem hafa verið, ef einhverjir eru, hvað ótryggastir kaupendur. Þeir koma þaðan því að þar er sá eini söluaðili sem ég veit til þess að sé að selja áburð frá erlendum verksmiðjum. Það hafa mér vitanlega ekki aðrir tekið þátt í því.