Samningur um verndun Norðaustur-Atlantshafsins

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 16:23:34 (5909)

1997-05-06 16:23:34# 121. lþ. 117.13 fundur 555. mál: #A samningur um verndun Norðaustur-Atlantshafsins# þál., Frsm. meiri hluta GHH
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:23]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég kem ekki upp í öðrum tilgangi en þeim en að mótmæla því að notað sé orðbragðið ,,að leggjast á mál`` um þau mál sem flutt hafa verið og vísað til utanrmn. á þessu þingi eða á þessu kjörtímabili. Þvert á móti hafa öll mál sem hafa komið á borð utanrmn. verið tekin þar fyrir og rædd, sama hvort í hlut hafa átt þingmál einstakra þingmanna eða ríkisstjórnarinnar. Það er að vísu rétt hjá hv. þm. að nokkuð óvenjulegt er að öll þingmannamál fái slíka meðferð og þess vegna verð ég að segja eins og er að mér geðjast heldur illa að því að það skuli vera kallað að leggjast á mál að taka þau fyrir á tveimur til þremur fundum og ræða þau. Hins vegar verður hv. þm. auðvitað að sætta sig við að fyrir því máli sem hann gerði að umtalsefni, eins og fyrir fjölmörgum öðrum málum, er ekki meiri hluti hvorki í nefndinni né á hv. Alþingi.