Reglur um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins frá störfum

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 17:05:00 (5922)

1997-05-06 17:05:00# 121. lþ. 117.25 fundur 518. mál: #A reglur um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins frá störfum# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[17:05]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég kem hér upp til að lýsa eindregnum stuðningi við þessa tillögu sem flutt er af þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum sem hér eiga sæti. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að okkur takist að ná sátt um að samþykkja þessa tillögu. Eins og kom fram í máli hv. 1. flm. og máli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur hér áðan þá eru erlend samskipti okkar jafnan að aukast. Það er afskaplega mikilvægt fyrir okkur að við fáum hverju sinni þá sem hæfastir eru til þess að taka að sér veigamikil störf á erlendri grundu. En er hægt að ætlast til þess að okkur takist að fá menn sem eru sjóaðir af reynslu, sjóðfróðir um samskipti við útlönd, til að taka að sér tímabundin störf í útlöndum ef þeir mega búast við því að þegar þeir snúa til baka, eins og Björn Friðfinnsson mátti þola, þá gangi nánast maður undir manns hönd innan ríkisstjórnarinnar til að koma þeim úr embætti. Það verður bara að segja þessa hluti eins og er. Í því tilviki var um að ræða starfsmann sem var afskaplega hæfur, hafði staðið sig óvanalega vel hér heima á Íslandi, hafði staðið sig með miklum sóma erlendis og þegar hann kom til baka var mjög erfitt fyrir hann að finna aftur fótfestu innan kerfisins. Hann gekk ekki að sínu fyrra starfi eins og hann þó átti von á og eins og ráðherra í ríkisstjórn lýðveldisins hafði þrátt fyrir allt bréfað til hans. Þetta er ekki hægt að þola, herra forseti. Ég held að sú óvissa sem skapaðist í kjölfar þess máls sé þess eðlis að það hljóti að vera erfitt að fá mjög reynda og hæfa menn sem hafa verið lengi í þjónustu Stjórnarráðsins til að taka að sér slík störf. Þess vegna held ég að Alþingi verði að taka af skarið og verði að fela ríkisstjórninni að láta semja reglur sem gildi um slík tímabundin leyfi starfsmanna frá störfum í ríkisþjónustunni.

Það er staðreynd að á hverju einasta ári er leitað eftir því við nokkra og jafnvel stundum marga ríkisstarfsmenn að þeir taki að sér störf á erlendri grundu fyrir ráðuneyti. Ég þekki það sjálfur vegna þess að sem ráðherra gerði ég það stundum að ég leitaði eftir því að tilteknir hæfir starfsmenn tækju að sér slík tímabundin störf. Og jafnan gerist það líka að starfsmenn sækjast eftir slíkum störfum af eigin hvötum. Nú tel ég að það verði miklu erfiðara að fá góða menn nema það sé alveg ljóst hver réttarstaða þeirra verður. Þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að samþykktar verði slíkar reglur og í þeim komi fram hver staða starfsmannanna er. Það er auðvitað nauðsynlegt að áður en slíkar reglur eru endanlega settar verði rætt við samtök ríkisstarfsmanna um það hvernig eigi að ljúka þeim. Við hljótum að gera okkur grein fyrir því að störf þessara reyndu starfsmanna á erlendri grundu hafa verið Íslendingum og hagsmunum okkar mjög til framdráttar. Mjög víða hafa þeir getið sér gott orð og hafa ekki bara unnið landi sínu gagn heldur borið hróður Íslands víða. Það má ekki verða lát á því, herra forseti.

En ég tel að jafnilla og til tókst hjá núverandi ríkisstjórn gagnvart þessum tiltekna starfsmanni þá hafi verið sköpuð óvissa sem er nauðsynlegt að hrinda. Það er einungis hægt að hrinda henni með því að samþykkja þessa tillögu. Það vill svo til að hún er flutt af þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum og það er enginn sem mælir gegn henni. Almenn og heilbrigð skynsemi mælir með henni --- auk fjölmargra annarra sem hér hafa tekið þátt í umræðunni og eiga eftir að ræða. Þess vegna veit ég að hæstv. forseti mun auðvitað beita sér fyrir því að þetta verði samþykkt jafnvel þótt ég sjái það í hópi flm. að þar er engan talsmann að finna úr þeim væng Framsfl. sem hann tilheyrir góðu heilli.