Danskar landbúnaðarafurðir

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 14:33:59 (5962)

1997-05-07 14:33:59# 121. lþ. 118.6 fundur 456. mál: #A danskar landbúnaðarafurðir# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi SighB
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[14:33]

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Hæstv. landbrh. svaraði ekki þeirri spurningu hvort hann telji að bann við innflutningi á tilteknum landbúnaðarvörum frá Danmöru standist GATT-samninginn. Ég stórefa að svo sé. Ég þarf ekki að minna menn á, sem eiga sæti á Alþingi, þær hörðu deilur sem urðu á milli þáverandi stjórnarflokka í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar um framkvæmd GATT-samningsis og vísa því algerlega á bug að við alþýðuflokksmenn höfum staðið að framkvæmd samningsins eins og hann er nú gerður. Ég vísa því algerlega á bug.

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að reglur ESB um innflutning landbúnaðarafurða eru strangar en þær virðast ekki vera nægilega strangar til þess að þær geti gilt á Íslandi, því að við Íslendingar viljum setja reglur til þess að halda vörum burtu frá íslenskum neytendamarkaði sem eru almennt í búðum á öllu EES-svæðinu að öðru leyti. Þetta er því bara áframhald af þeirri tilraun sem menn hafa verið að gera í gegnum árin og á virkilega erindi inn á Alþingi, að koma í veg fyrir að Íslendingar fái að sjá á markaði á Íslandi, eðlilegum neytendamarkaði, vörur í sama úrvali, með sömu gæðum og ekki síst á sama verði og fólk fær að sjá í löndunum í kringum okkur. Og auðvitað er eðlilegt, herra forseti, að spurt sé ef það er álit landbrn. að almennar neysluvörur sem fólk borðar nær daglega séu hættulegar heilsu manna og ef það er rökstudd niðurstaða landbrn. að ráðstafanir séu þá gerðar til að vara íslenska ferðamenn við slíkum háska áður en þeir hætta sér til landa sem bjóða upp á slíkar vörur í almennri neyslu. Það er gert, virðulegi forseti, ef menn fara til (Forseti hringir.) landa þar sem virkilega er talinn stafa háski af almennri neyslu svo sem vatns eða matar, þá eru menn varaðir við af íslenskum heilbrigðisyfirvöldum. Hvenær hyggst hæstv. landbrh. vara íslenska ferðamenn við að ferðast til Danmerkur vegna hættunnar gagnvart heilbrigði manna sem neyta (Forseti hringir.) danskrar matvöru?