Samningur um verndun Norðaustur-Atlantshafsins

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 15:54:46 (5983)

1997-05-07 15:54:46# 121. lþ. 119.11 fundur 555. mál: #A samningur um verndun Norðaustur-Atlantshafsins# þál., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[15:54]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er sjálfsagt mál að styðja þessa tillögu um staðfestingu á samningi sem er að stofni til sameining á Óslóarsamningnum um varnir gegn mengun sjávar vegna losunar úrgangs frá skipum og flugvélum og Parísarsamningnum um varnir gegn mengun frá landstöðvum.

Í nefndaráliti minni hluta utanrmn. er hins vegar vakin athygli á því að í þessum samningum er ekki tekið á mengunarhættu af völdum kjarnorkuvár eða hernaðarumsvifa. Nú er það svo að fyrir Alþingi liggur frv. til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum þar sem öll íslenska efnahagslögsagan yrði friðlýst fyrir slíkum ófögnuði.

Um leið og ég lýsi yfir stuðningi við þennan samning, vil ég leyfa mér að harma að það frv. skuli ekki hafa fengið brautargengi. Það ætti svo sannarlega heima í samhengi við þetta mál og enginn vafi er á því að eitt af allra mikilvægustu verkefnum Íslands á þessu sviði er að berjast gegn hvers kyns hættu á mengun hafsins.