Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 15:29:12 (6119)

1997-05-12 15:29:12# 121. lþ. 121.22 fundur 341. mál: #A Stjórn fiskveiða# (veiðiskylda) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[15:29]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð til að láta í ljósi ánægju yfir því að þetta mál er komið þetta áleiðis í þinginu. Frv. gerir ráð fyrir því að taka á því sem ég held að sé að verða meginsjónarmið í umræðunni um stjórn fiskveiða, að það sé eðlilegt að þeir sem fá úthlutað kvóta, fiski hann að mestu leyti. En málið er, eins og menn þekkja, að í gildi er svokölluð 50% regla í sambandi við stjórn fiskveiða, þannig að menn þurfa í dag ekki að fiska nema 50% af samanlögðu aflamarki sínu í þorskígildum talið, tvö fiskveiðiár í röð. Ef þeir fiska hins vegar minna þá falla veiðileyfi skipsins og aflahlutdeild niður og hlutdeild annarra skipa hækkar sem því nemur. Síðan var sett í lögin um stjórn fiskveiða að ef skip væru að fiska utan fiskveiðilögsögunnar þá minnkaði þetta 50% hlutfall um 5% fyrir hverja 30 daga sem skipi væri haldið til veiða utan fiskveiðilögsögunnar á fiskveiðiárinu.

[15:30]

Þetta var mjög eðlilegt á sínum tíma þegar verið var að reyna að hvetja menn til að hefja veiðar í fjarlægum stofnum og öðlast fiskveiðirétt fyrir land og þjóð sem vissulega hefur skilað heilmiklu og hefur verið mjög til bóta.

Nú er það hins vegar þannig að verið er að taka upp samninga um ýmsa stofna til að mynda á Flæmska hattinum og Reykjaneshryggnum. Þegar þannig er komið og jafnvel er farið að úthluta veiðiheimildum á einstök skip líkt og gert er hér innan lands, þá eru auðvitað full rök fyrir því að fara með þau mál nákvæmlega eins og gildir um fiskveiðirétt manna innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Þess vegna gerir frv. sem hér er til umræðu ráð fyrir því að 5% skerðingarreglan á 50% falli niður þegar um er að ræða stofna sem búið sé að er að semja um. (Gripið fram í: Er þetta ekki bara fimmtíu senta glasið?) Þetta tengist ekki fimmtíu senta glasinu, hv. þm., þó að ég viti að hv. þm. hefur mikinn áhuga á því glasi. Hins vegar er þetta liður í því að samræma þá veiðistjórn sem að öðru leyti er við lýði. Það er kannski grundvallarmálið í þessu, held ég, að menn eru almennt sammála um að það eigi að gera þær kröfur til útgerða að þær fiski sem mest af sínum kvóta og við eigum auðvitað að hafa löggjöfina þannig að þó að menn séu sammála um að eðlilegt sé að framsalskerfið sé við lýði á meðan við búum við þessa fiskveiðistjórn, þá er náttúrlega augljóst mál að það eru engin sérstök rök fyrir því að skip geti ár eftir ár ekki fiskað sinn kvóta. Það er auðvitað á margan hátt uppspretta þeirrar óánægju og togstreitu sem hefur verið milli útgerðarmanna og sjómanna. Þess vegna held ég að þetta frv. hér sé lítið skref í þá átt að reyna að lægja þessar öldur og tryggja betri vinnufrið í sjávarútveginum sem allir hljóta að vera sammála um að er mjög mikilvægt að gera.