Afgreiðsla efh.- og viðskn. á lífeyrissjóðsfrv.

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 16:17:23 (6128)

1997-05-12 16:17:23# 121. lþ. 122.92 fundur 326#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á lífeyrissjóðsfrv.# (aths. um störf þingsins), ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[16:17]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna atburða sem gerðust í morgun í hv. efh.- og viðskn. Þar afgreiddi meiri hluti nefndarinnar lífeyrissjóðsfrv. út úr nefndinni og ætlar að fella brtt. meiri hlutans inn í frv. og vinna í starfshópi með það í sumar. Þessi málsmeðferð meiri hlutans er óskynsamleg og algjörlega óviðunandi með tilliti til forsögu málsins. Það var mikill ágreiningur um þetta mál og það liggur fyrir sameiginlegt bréf Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins til hæstv. forsrh. þar sem þessi samtök hvöttu til þess að unnið yrði í samstarfi þingnefnda, ráðuneytis og hagsmunaaðila til að ná fram víðtækri sátt um afgreiðslu málsins. Þeir benda einkum á 2. gr. frv. sem lýtur að grundvallaratriði í skipulagi á vinnumarkaði.

Það er mjög mikilvægt, herra forseti, að lífeyrissjóðsmál séu afgreidd í sátt. Minni hluti efh.- og viðskn. bauðst til þess að standa að áliti þar sem allar tillögur yrðu tíundaðar til frekari úrvinnslu. Þessu hafnaði meiri hluti efh.- og viðskn. og knúin var fram afgreiðsla í málinu sem er að marka þann vinnufarveg sem á að vinna málið í nú í sumar. Þessi afgreiðsla er í ósátt við Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið eftir því sem vitum hér best. Við báðum um að þeir fulltrúar sem á að vinna með í sumar yrðu kallaðir á fund nefndarinnar áður en málið yrði afgreitt þannig að hægt væri að vita hvort þessi málsmeðferð mundi flýta fyrir vinnu í sumar. Því var neitað af meiri hluta efh.- og viðskn. Málið var tekið út með fimm atkvæðum gegn fjórum. Einn stjórnarliði kaus að styðja minni hlutann í því að taka málið ekki út á þennan hátt. Það er bersýnilegt að ríkisstjórnin er að þvinga fram skoðanir sínar, umdeildar skoðanir sem birtast í brtt. Vilhjálms Egilssonar, formanns efh.- og viðskn., með óbeinum hætti þegar stefndi í að menn ætluðu að vera með sátt um þetta mál við aðila úti í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Þetta er mikilvægt mál og snertir störf þingsins að verulegu leyti. Þetta eru vinnubrögð sem ég mótmæli og ég óttast að með þessu sé málefninu stefnt í óefni.