Afgreiðsla efh.- og viðskn. á lífeyrissjóðsfrv.

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 16:26:33 (6133)

1997-05-12 16:26:33# 121. lþ. 122.92 fundur 326#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á lífeyrissjóðsfrv.# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[16:26]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Í framsöguræðu minni í því máli sem hér hefur verið til umræðu nú boðaði ég að nefndin ásamt fjmrn. mundi vinna að málamiðlun í þessu sérstaka máli. Mikil og góð umræða hefur átt sér stað bæði í þjóðfélaginu og eins á milli aðila í hv. nefnd og fjmrn. Og sú vinna hefur skilað sé í ágætri niðurstöðu sem kemur fram í tillögum meiri hlutans sem nú liggja fyrir.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að ASÍ og VSÍ hafa óskað eftir fresti á málinu og opna reyndar fyrir sveigjanleika af sinni hálfu í því kerfi sem tilheyrir almenna vinnumarkaðinum og ég fagna því. Þeir telja sig þurfa tíma, fyrst og fremst af tveimur ástæðum. Annars vegar til þess að kynna sér betur tryggingafræðilegan grundvöll undir nýjar hugmyndir og eins til þess að afla breytingum fylgis í baklandi sínu. Ríkisstjórnin hefur orðið við beiðni VSÍ og ASÍ og eftir að það gerðist er eðlilegt að nefndin og nefndarmeirihlutinn afgreiði málið úr nefndinni og sýni þannig nýja stöðu málsins. Þannig mun ég beita mér fyrir því að frv. verði prentað upp og það má þá líta á það sem drög að nýju stjfrv. og það verður grundvöllur umfjöllunar í nefndinni í sumar. Og ég fagna því að nú virðast allir vilja afgreiða þetta mál fyrir næstu áramót.

Vegna fyrirspurnar um það hverjir taka þátt í starfshópnum þá get ég ekki svarað því á þessari stundu nákvæmlega. En ég get lýst því yfir að bæði verður leitað til ASÍ og VSÍ um að koma með fulltrúa í þennan starfshóp.